Börn í Borgarbyggð í fyrsta sæti

Lilja Björg Ágústsdóttir

Listi Sjálfstæðisflokksins í Borgarbyggð fyrir komandi sveitastjórnarkosningar í vor var samþykktur einróma á fundi fulltrúaráða Sjálfstæðisfélaga Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, þann 7. mars síðastliðinn.

Undirrituð er oddviti framboðsins og hefur á síðasta kjörtímabili starfað sem fyrsti varamaður í sveitarstjórn og varaformaður fræðslunefndar. Ég bý á Signýjarstöðum í Hálsasveit, er gift Þorsteini Pálssyni og við eigum fjóra syni. Ég er grunnskólakennari og lögfræðingur að mennt og starfa við Háskólann á Bifröst.

Í næstu fjórum sætum eru Silja Eyrún Steingrímsdóttir, skrifstofustjóri hjá Stéttarfélagi Vesturlands og stjórnsýslufræðingur, Sigurður Guðmundsson, framkvæmdastjóri UMSB og íþróttafræðingur, Axel Freyr Eiríksson kennaranemi og Sigurjón Helgason bóndi á Mel. Listinn í heild sinni hefur yfir sér ferskan blæ og samanstendur af einstaklingum sem búa vítt og breitt um sveitarfélagið. Ljóst er að margt gott fólk er tilbúið að vinna í þágu sveitarfélagsins og láta gott af sér leiða fyrir samfélagið. Þá ber að þakka fráfarandi sveitarstjórnarfólki Sjálfstæðisflokksins fyrir vel unnin störf og þeirra framlag til sveitarstjórnarmála síðustu árin.

Við Sjálfstæðismenn erum hreykin af því að staða Borgarbyggðar hefur verið að styrkjast undanfarin ár, á okkar vakt, og nú þegar líður að kosningum er fjárhagsstaða sveitarfélagsins mjög góð. Sveitarstjórnafulltrúar Sjálfstæðisflokksins, ásamt samstarfsfólki í sitjandi meirihluta og í raun sveitarstjórn allri, geta staðið stolt frá borði. Við Sjálfstæðismenn ætlum, ef við fáum stuðning til, að byggja á því góða starfi, sem hefur verið unnið og halda áfram að styrkja stöðu sveitafélagsins, bæði þjónustulega sem og fjárhagslega.

 

Börn í Borgarbyggð í fyrsta sæti

Á kjörtímabilinu hafa verið tekin mikilvæg skref til þess að bæta aðbúnað barna og barnafólks í Borgarbyggð. Má meðal annars nefna gjaldfrjálsan grunnskóla, nýja lestrarstefnu, tómstundastyrk fyrir börn og unglinga, styttingu sumarlokunar leikskóla, leikskólaþjónustu fyrir foreldra og börn þeirra allt frá níu mánaða aldri, aukna markvissrar endurmenntunar fyrir starfsfólk og ungmennaráð sem tók til starfa að nýju.

 

Skólastefna Borgarbyggðar

Eitt af metnaðarfyllri verkefnum fræðslunefndar á kjörtímabilinu var mótun nýrrar skólastefnu en að því starfi komu auk fulltrúa nefndarinnar, nemendur, foreldrar, skólastjórnendur og aðrir starfsmenn skólanna. Stefnan var kláruð árið 2016 þar sem gildin gleði, metnaður, samkennd og vinátta voru í forgrunni. Stefnunni er ætlað að undirstrika sameiginlega sýn þeirra sem koma að skólamálum í sveitarfélaginu og er vegvísir að því hvernig á að efla skólastarf í Borgarbyggð. Þar kemur meðal annars fram mikilvægi skólahúsnæðis, búnaðar, leikvalla og nærumhverfis barna í námi sem oft er nefnt þriðji kennarinn.

 

Skólahúsnæði sveitarfélagsins

Í framkvæmdaráætlun Borgarbyggðar fyrir árin 2018-2021 er gert ráð fyrir því að farið verði í verulegar endurbætur á grunnskólahúsnæðinu í Borgarnesi. Byggður verður langþráður matsalur og endurbætur gerðar á húsnæði skólans með tilliti til nútíma krafna um rými og aðstöðu til kennslu. Einnig hefur verið ákveðið að byggja við grunnskólahúsnæðið á Kleppjárnreykjum og flytja leikskólann Hnoðraból þangað í nýtt húsnæði. Í kjölfarið verður farið í endurbætur húsnæðis grunnskólans á Kleppjárnsreykjum. Með þessu móti skapast jákvæð samlegðaráhrif og spennandi tækifæri til þróunarstarfs sem lýtur að samstarfi leik- og grunnskóla. Samþykkt var á fundi byggðarráðs í síðustu viku að bjóða út 1. og 2. áfanga verksins og reiknað er með að hefjast handa við breytingar og niðurrif þegar á vormánuðum.

Framtíðin býr í börnum hvers samfélags og við viljum að þau fái tækifæri til að eflast og þroskast á eigin forsendum. Endurbætur á húsnæði skólanna þarf að haldast í hendur við þróun innra starfs.  Sveitarfélagið er mjög vel staðsett, aðeins steinsnar frá höfuðborginni og í góðri tengingu við nærliggjandi landshluta. Það skiptir máli að Borgarbyggð sé eftirsóknarverður staður fyrir fjölskyldufólk til að setjast að í og að við séum samkeppnishæf við nágrannasveitarfélög. Því er það forgangsverkefni að leiða ofangreind mál til lykta.

Spennandi tímar eru framundan í Borgarbyggð, tækifærin eru óþrjótandi, margt hefur áunnist en lengi má gott bæta. Við frambjóðendur Sjálfstæðismanna í Borgarbyggð erum reiðubúin til þjónustu við samfélagið og íbúa Borgarbyggðar.  Við munum í kjölfar páskahátíðar boða til opinna íbúafunda þar sem við viljum eiga samtal við sem flesta íbúa um að móta stefnumál og setja markmið fyrir okkar góða samfélag til næstu fjögurra ára.

 

Lilja Björg Ágústsdóttir.

Höfundur er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Borgarbyggð í komandi sveitastjórnarkosningum og varaformaður fræðslunefndar.

Fleiri aðsendar greinar