Borgarbyggð – skipulagsmál

Guðsteinn Einarsson

Sveitarstjóri Borgarbyggðar skrifaði um daginn lærða grein um verkferla þegar kemur að skipulagsmálum og er það vel og skýrir væntanlega hvernig standa skuli að málum þegar skipulagsmál sveitarfélaga eru annars vegar.

Í framhaldinu er nú í nýjasta tölublaði Skessuhorns grein eftir formann umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar Borgarbyggðar þar sem farið er yfir hin ýmsu verkefni á því sviði sem unnin hafa verið að undanförnu hjá sveitarfélaginu.

Af umfjöllun formannsins, um væntanlegar breytingar á aðalskipulagi í landi Hamars þar sem fyrirhugað er að koma fyrir skotæfingasvæði, má ætla að niðurstaðan sé ákveðin, því hún gerir lítið úr áhrifum væntanlegrar skothríðar á umhverfið.  Líklega á að fara þarna fram, eins og við skipulag Borgarbrautar 57-59. Fyrst á að ákveða hvað á að gera og keyra svo málið í gegn, hvað sem athugasemdum íbúa og annarra um framkvæmdina líður.

Ummæli formannsins, um fækkun íbúða í blokk við Kveldúlfsgötu, eru líka umhugsunar verð.  Samkvæmt auglýsingu Borgarbyggðar um breytingar á aðalskipulagi Borgarbyggðar á Kveldúlfsgötureitnum þá var um tæknilega breytingu að ræða. Ekki var minnst einu orði á að til stæði að fjölga íbúðum á viðkomandi lóð. Af þessu má ætla að sá grunur íbúanna við Kveldúlfsgötu var réttur að tilgangur aðalskipulagsbreytinga væri að gera mögulegt að stækka viðkomandi blokk og fjölga íbúðum til hagsbótar fyrir viðkomandi lóðarhafa en á kostnað núverandi íbúa við götuna.

Hvað varðar Borgarbraut 57-59 væri rétt fyrir formanninn að athuga að úrskurður Úrskurðarnefndar umhverfis- og skipulagsmála var í tvígang sá, að sveitafélagið undir hennar forystu, fór ekki að lögum og reglum um skipulagsmál og þess vegna gert afturreka með deiliskipulag og byggingarleyfi.  Þar sem sveitarfélagið gaf út byggingarleyfi, þó svo að deiliskipulag og byggingarleyfi við Borgarbraut 57-59 væru í kærumeðferð, þá stendur nú á sveitarfélaginu Borgarbyggð 150-200 milljóna króna tjónakrafa frá byggingarverktanum.  E.t.v. væri rétt fyrir formann umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar sem búin er að klúðra málum með þeim hætti sem fyrir liggur, að athuga með stöðu sína og hæfi til að hafa forystu í þessu málaflokki.

Það er lítil afsökun að sú deild sveitarfélagsins sem sér um þessi mál sé fáliðuð og starfsmennavelta mikil. Það er nefnilega líka á ábyrgð stjórnenda sveitarfélagsins að tryggja að starfsmannamálin séu í lagi.

 

Borgarnesi, 20. janúar 2018

Guðsteinn Einarsson.