Borgarbyggð segir pass!

Guðsteinn Einarsson

Á nýjasta álagningarseðli fasteignagjalda sést að sveitarstjórn Borgarbyggðar gefur ekkert eftir í hækkun skatta og gjalda á íbúa sveitarfélagsins.

Fasteignaskattur á íbúðarhús okkar hjóna hækkaði um 17,3% eða um það bil tvöfalda verðlagshækkun, fer úr 413 þúsund krónum í 485 þúsund krónur.

Fasteignagjöld og fasteignatengdir skattar í Borgarnesi eru með þeim hæstu sem þekkjast á landinu.

Ef borin eru saman tvö hús, annað við Kveldúlfsgötu, hitt í Grafarvogi, svipuð að stærð þá kemur eftirfarandi í ljós:

Fasteignamat hússins í Grafarvogi er 65% hærra en hússins við Kveldúlfsgötu, en fasteignatengd gjöld eru 51% hærri á húsið við Kveldúlfsgötu.

Íbúum Borgarbyggðar er með þessu íþyngt verulega með háum sköttum og gjöldum, því vatn- og fráveita eru líka langtum hærri hér en í Reykjavík.

En lauslega reiknað, og þá miðað við annað skattþrep, þá þarf brúttó tekjur upp á tæplega 1,2 milljónir króna til þess að greiða þessi gjöld.

Og með þessum hækkunum þá kyndir sveitarstjórn Borgarbyggðar undir verðbólguna og segir pass við þeirri viðleitni að ná niður verðbólgu í landinu.

 

Borgarnesi, 30. janúar 2024.

Guðsteinn Einarsson