
Borgarbyggð best fyrir heilsuna
Guðveig Lind Eyglóardóttir
Betri umgjörð um heilsueflingu eldra fólks
Ein besta og skemmtilegasta leiðin til þess að varðveita eigin heilsu er hreyfing. Mikilvægt er að sveitarfélagið taki virkan þátt í því að stuðla enn betur að heilsueflingu með því að koma á fót markvissri heilsueflingu og forvörnum fyrir eldra fólk ásamt því að efla vitund og vilja til þess að viðhalda heilbrigði. Um 25% íbúa Borgarbyggðar eru 60 ára og eldri. Mikill auður er í þessum hópi íbúa og mikilvægt að líta til þeirra þátta sem lúta að því að bæta heilsu og lífsgæði. Við viljum bjóða upp á fjölbreytt tækifæri fyrir íbúa til að efla þekkingu sína á leiðum til þess að viðhalda góðri heilsu til framtíðar. Borgarbyggð stefnir nú á að taka mikilvægt skref í átt að betri umgjörð um heilsueflingu eldra fólks í samstarfi við Janus heilsueflingu. Við trúum því að markmið um heilsueflingu sé góð fjárfesting sem muni skila ávinningi fyrir samfélagið í heild sinni.
Janus heilsuefling fyrir eldra fólk
Verkefnið mun bera heitið Fjölþætt heilsuefling 60+ í Borgarbyggð – Leið að farsælum efri árum. Fyrirmyndin að verkefninu er doktorsverkefni dr. Janusar Guðlaugssonar, íþrótta- og heilsufræðings. Niðurstöður rannsóknar hans sýndu fram á að með markvissri þátttöku í fyrirbyggjandi heilsueflingu eldri aldurshópa má bæta hreyfigetu 70–90 ára einstaklinga, auka afkastagetu þeirra, sér í lagi þol, styrk og hreyfigetu, bæta lífsgæði hinna eldri og koma í veg fyrir hreyfiskerðingu. Þá sýndi verkefnið einnig fram á mjög jákvæð áhrif við að draga úr áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma. Janus heilsuefling hefur með góðum árangri verið í samstarfi við nokkur sveitarfélög á landinu frá árinu 2017 og hafa heilsutengd lífsgæði þátttakenda færst til betri vegar þrátt fyrir hækkandi aldur.
Í ljósi mikilvægi heilsugæslunnar og breyttu hlutverki hennar, m.a. í tengslum við heilsuvernd, verður kappkostað að fá heilsugæsluna í Borgarbyggð að verkefninu. Hér er sérstaklega verið að huga að blóðmælingum og greiningu á efnaskiptavillu og sykursýki. Eitt helsta markmið verkefnisins er að bjóða íbúum í Borgarbyggð 60 ára og eldri uppá markvissa heilsueflingu í formi daglegrar hreyfingar með áherslu á þol- og styrktarþjálfun auk fræðslu um næringu og aðra heilsutengda þætti undir faglegri leiðsögn. Langtíma markmið verkefnisins er að gera einstaklingum í sveitarfélaginu kleift að auka hreysti og skapa tækifæri til búa lengur í sjálfstæðri búsetu og jafnvel starfa lengur á vinnumarkaði. Verkefnið miðar að þeim íbúum 60 ára og eldri sem eru sjálfstætt búandi í Borgarbyggð með lögheimili í sveitarfélaginu.
Stefnt er að því að kynna verkefnið fyrir íbúum á haustmánuðum en verkefnið er skipulagt til tveggja ára og er skipulagið sett upp í þrepum. Á tveimur árum er stefnt að því að gera þátttakendur að mestu sjálfbæra á eigin heilsueflingu þannig að þeir geti í kjölfarið sinnt sinni eigin heilsueflingu áfram á eigin forsendum
Frekari upplýsingar um verkefnið má finna á www.janusheilsuefling.is
Ég er bjartsýn á að eldri íbúar í Borgarbyggð muni vera öðrum fyrirmynd með því að taka þátt í heilsueflingu og gefa sér tíma til að huga að líkama og sál. Heilsan er það dýrmætasta sem við eigum.
Guðveig Lind Eyglóardóttir
Höf. er forseti sveitarstjórnar Borgarbyggðar