Bókasafn Akraness 160 ára

Dagný og Haraldur skrifa

Þann 6. nóvember 1864 var á Görðum á Akranesi stofnað lestrarfélag. Lestrarfélagið varð síðar að Bókasafni Akraness og hefur því starfað óslitið í 160 ár. Bókasafn Akraness er ein af elstu stofnunum Akraneskaupstaðar.

Stofnun lestrarfélaga á Íslandi má tengja með beinum hætti sem framhald upplýsingaaldarinnar, sem svo hefur verið nefnd.  Prentsmiðjur, sem í upphafi prentuðu fyrst og fremst guðsorðabækur, voru í vaxandi mæli að eflast í útgáfu á bókum fyrir alþýðu manna.  Aðgengi að bókum var ekki almennt og því svöruðu lestarfélögin vaxandi eftirspurn eftir bókum.  Bókaeign heimila var langt frá því almenn, bækur voru munaðarvara og helst í eigu efnameiri heimila.  Lestrarfélögin voru vísir að bókasöfnum og með nokkurri einföldum má segja þau vera „internet“ þess tíma.  Þar leitaði fólk fróðleiks og margir menn og konur eiga lestarfélögum að þakka að þau gátu sótt sér menntun og þekkingu sem bæði bætti hag þess og auðgaði lífið.

Bókasafn Akraness er því hornsteinn upplýsinga, fræðslu, menningar og afþreyingar á Akranesi í rúmlega eina og hálfa öld.

Bókin og bókasöfn hafa lifað af margháttaðar breytingar í samfélaginu.  Illa var spáð fyrir bókinni þegar útvarpið kom, aftur þegar sjónvarpið hélt innreið sína.  Myndbandaleigur og nú síðast internetið og snjallsíminn.  Það er í sjálfum sér ákveðið afrek.  Enda erum við bókaþjóð og bækur veita okkur enn mikil lífsgæði.

Bókasafn Akraness hefur í langri sögu sinni tekist á við allar þessar breytingar.  Það hefur tekist á við endurreisn eftir bruna, þegar allar bækur safnsins brunnu nema þær sem voru útláni. Á stundum búið við bágan húsakost, en líka verið sýndur verðugur sómi með því að reisa sérhannaða bókhlöðu sem hús safnsins við Heiðarbraut var nefnt.  Í dag er húsnæði þess við Dalbraut og starfsemi þess aldrei blómlegri.  Bókasöfn eru í eðli sínu menningar- og samfélagshús sem taka breytingum í takt við tíðarandann og þarfir samfélagsins hverju sinni. Þangað eru öll velkomin og geta fundið eitthvað við sitt hæfi í fjölbreyttri og lifandi starfsemi. Bókasafnið er athvarf margra og lengi mætti telja upp.  Allt frá lestarstundum fyrir börn, fjölskyldusamveru á laugardögum, foreldramorgnum, skólahópum sem þangað koma, kallakaffi, handavinnu og ýmsum nýjungum eins og fataskiptislá, aðgengi að saumavél og plöntuskipti svo dæmi séu tekin. Ekki má gleyma námsverinu Svöfusal sem kalla mætti háskólann á Akranesi.  En þar hefur verið aðstaða menntunar og lærdóms fyrir íbúa bæjarins sem stunda háskólanám. Allt saman undir styrkri handleiðslu og stýrt af framsýni starfsfólks safnsins.

Um langan tíma hafa myndlistarsýningar verið á bókasafninu og nú í vaxandi mæli aðrir listviðburðir og menningarstarfsemi. Hérðaskjalasafn Akranes hefur þar einnig sitt aðsetur og hafa myndafundir úr ljósmyndasafni Akraness verið fjölsóttir og mikilvægur hluti starfseminnar.

Við getum með stolti sagt að Bókasafn Akranes sé eitt helsta menningarhús Akraneskaupstaðar og ástæða til að færa starfsfólki þess þakkir fyrir gott starf um leið og öllum bæjarbúum er óskað til hamingju með 160 ára afmæli bókasafnsins.

 

Dagný Hauksdóttir, sviðstjóri mennta- og menningarsviðs

Haraldur Benediktsson bæjarstjóri