Boð og bönn

Finnbogi Rögnvaldsson

Nýverið sá ég að mál ríkisins á hendur nokkrum Akureyringum er komið fyrir dómara. Málið varðar meint brot hinna ákærðu þegar Holuhraun rann, það var talið hættulegt að fólk færi að skoða gosið og það því bannað! Nú sjö árum síðar er málareksturinn semsagt á enda og kemur til kasta dómara að kveða upp um sekt eða sakleysi. Mér varð hugsað til þessa sérkennilega máls þegar ég fékk sjálfur að kenna á refsivendinum vegna glæfraaksturs á Borgarbraut, náðist á myndavél á hraðanum 37 km/klst og skal greiða 10.000 kr í sekt, fæ afslátt ef ég greiði hratt og örugglega. Við þessi óvæntu tíðindi reikaði hugurinn um samfélagið og þær tilraunir sem við gerum til þess að stjórna hvert öðru, oftast eftir regluverki sem flestir eru sammála um og á sér nokkra sögu en inn á milli rísa upp menn sem vilja okkur hinum ofur vel og reyna að koma vitinu fyrir okkur með skýrum reglum um það hvernig við skulum haga tilveru okkar.

Samfélagsbreytingar

Samfélagið tekur breytingum í tímans rás og því kann að vera að það sem viðgekkst áður eigi ekki lengur við. Eins hafa opnast möguleikar á að gera í dag það sem fæstir gátu látið sér til hugar koma fyrir einni öld. Í umróti samfélagsbreytinga reyna embættismenn og stjórnmálamenn, trúarleiðtogar og leikmenn að hafa vit fyrir fjöldanum. Það má ekki dansa á tilteknum dögum, ekki kaupa áfengi á tilteknum stöðum, alls ekki kaupa, eiga eða drekka áfengi o.s.fv.

Eldgos

Á 20. öld hafa orðið þau umskipti á högum þjóðarinnar að menn geta ferðast um hraðar og víðar en áður og þegar eldfjöll gjósa fara menn og virða fyrir sér dýrðina. Gengur svo fram á þá öld er við nú lifum. En þá ber svo við að það er búið að koma á laggir kerfi, menn settir til verka og eiga að tryggja að gos og jarðskjálftar séu eftir lögum og reglum. Þetta fólk er ekki allt sérfrótt um hegðan hnígandi efna en því fróðara um það hvernig á að hafa stjórn á fólki með góðu eða illu. Þó er svo að skilja að menn ráði ráðum sínum, hópur sérfræðinga á hinum ýmsu sviðum og því erfitt að malda í móinn.

Nú er vegum lokað þegar veðurspáin er slæm og þýðir lítið að þykjast kunna að ráða í veður og færð.

Á síðasta ári breiddist út farsótt, enn ný ógn. Og henni fylgdi enn meiri stjórnun á daglegum athöfnum fólks en áður hafði sést.

Samfélag manna og dýra er flókið fyrirbæri. Sumt er til bölvunar sem þar er á sveimi, ekki bara tóbak og brennivín. En það getur verið snúið að byggja réttlátt samfélag. Það ætti að vera orðið ljóst þeim sem láta sig dreyma um slíkt. Bannárin fyrir einni öld voru skemmtileg tilraun til þess að fegra mannlífið. Nú glíma menn við að banna hass og maríuana og allra handa pillur og duft. Og framkvæmdavaldið sem fyrir öld var ætlað að passa að engin drykki áfengi á nú að sjá um að selja mönnum það vín sem þeir þurfa.

Starf „þefara“ er skítadjobb… þykist ég vita. Vinna við að segja öðrum til syndanna og vísa þeim veginn til eilífs lífs í sæluríkinu. Það ætti þó að vera mönnum sem slíkt taka að sér leiðarstef að gæta hófs, þó ekki væri nema meðalhófs sbr. meðalhófsregluna góðu. Stundum ættu menn að fá að ráða sér sjálfir – fremja sín axarsköft á eigin ábyrgð. Ég spái því (og vona) að ríkið tapi málinu gegn norðanmönnum.

 

Finnbogi Rögnvaldsson