Blússandi stuð í rafmagninu

Trausti Gylfason

Í ágúst síðastliðnum mættu tæplega 60 nemendur til náms við rafiðnadeildina í FVA. Öll þrjú árin í rafvirkjun eru kennd við deildina og dreifast nemendur býsna jafnt á árin þrjú.

Sex rafiðnaðarkennarar kenndu sl. vetur við skólann en þau eru í stafrófsröð: Davíð Reynir Steingrímsson, Guðmundur Þór Þorsteinsson, Sævar Berg Sigurðsson, Trausti Gylfason (deildarstjóri), Vera Pálsdóttir og Viktor Ýmir Elísson. Öll hafa þau réttindi til að kenna eða eru að ljúka réttindanámi.

Kennt er eftir námskrá menntamálaráðuneytisins eins og lög gera ráð fyrir. Námið hefur verið stytt og þjappað og núna er fyrsti veturinn sem sjöunda önnin er ekki kennd. Námsefni hennar var dreift á fimmtu og sjöttu annirnar. Því var kennt á fyrstu, þriðju og fimmtu önnum rafvirkjunar á þessari önn sem er að líða.

 

Myndin sýnir dæmi um merkingar og útlit á Bluetooth hátölurum nemenda.

 

Nýjar áherslur

Námið í rafiðnaðardeildinni tekur sífelldum breytingum milli ára. Áherslur breytast og kapp lagt á að gera námið eins nútímalegt og framast er unnt. Síðustu ár hefur stefna deildarinnar verið að steypa fagbóklegum þáttum meira inn í verklega þætti sem verða á vegi nemandans í vegferðinni í gegnum námið. Margir nemendur sem ljúka grunnskólanámi hafa lengi þráð að komast í verknám og fá allskonar spennandi að fást við í FVA.

Kennarar rafiðnðardeildarinnar hafa síðustu annir tekið þátt í stefnumótun skólans af miklum móð. Stefnumótunin hefur sýnt okkur kennurum hversu hollt og gott það er að fara í naflaskoðun, hugsa út fyrir „boxið“ og prófa nýjar leiðir í kennsluaðferðum. Á haustönninni voru áherslubreytingar t.d. á:

–          verkefnaskilum úr verklegum áföngum. Munnleg próf í verklegum áföngum hafa verið innleidd

–          fjölgun vettvangsferða/heimsókna nemenda á vinnustaði

–          góða vinnuaðstöðu, góð kennslutæki, góð verkefni fyrir nemendur

–          jákvætt og skapandi umhverfi sem kennarar skapa sjálfir

–          innleiða snjalltækni í tækjum og verkefnum sem nemendur vinna að

Í tengslum við snjallvæðinguna þá voru töluverðar fjárfestingar á haustönninni í tæknibúnaði fyrir rafiðnaðardeildina þar sem keyptur var hermibúnaður fyrir lýsingartækni og stýringar á ýmsum búnaði sem snjalltæki bjóða uppá, svo sem hitastýringar o.fl. RARIK styrkti skólann myndarlega til að gera þetta kleift, eða um 1,4 milljónir króna.

Frábær aðstaða

Kennarar rafiðnaðardeildarinnar fengu á haustdögum endurnýjað athvarfið sitt í þeim hluta skólans þar sem rafvirkjun er kennd. Athvarfið sem var endurnýjað hýsti áður útvarpið Blómið og er nú hið vistlegasta rými með góðum húsbúnaði sem þarf til að virkja hugvit og gott starfsfólk.

Bæði er hið hefðbundna skólastarf stundað í samblandi við nýjungar en þannig komum við inn nýjum hugsunum og þankagangi um námið sem fleytir okkur áfram á þeim hraða sem tækniheimurinn er á inn í framtíðina.

Vettvangsferðir

Nemendur á fyrstu önn fengu góða heimsókn í september en Rafmennt, sem er endurmenntunardeild Rafiðnaðarsambandsins, kom færandi hendi með vinnubuxur sem eru óspart notaðar af nemendum í verklegum greinum. Jafnframt fengu nemendurnir stutta kynningu á því hvað Rafiðnaðarsambandið og Rafmennt standa fyrir.

Á önninni voru fyrirtæki heimsótt. Nemendur á þriðju önn heimsóttu fiskafurðafyrirtækið Akraborg á Akranesi. Fyrirtækið er í fremstu röð við að sjálfvirknivæða framleiðsluferlið hjá sér frá upphafi til enda. Mikil upplifun er fyrir nemendur að sjá slíkt.

Þá fóru nemendur af fimmtu önn í heildagsferð þar sem gufuaflsvikjunin á Hellisheiði var heimsótt en hún er í eigu Orku náttúrunnar. Þar var vel tekið á móti nemendum og fengu þeir góða kynningu á fyrirtækinu og framleiðsluferlinu. Eins fengu þeir að sjá vélasalinn en allur vélbúnaður virkjunarinnar er innandyra. Eftir hádegisverð á KFC sem er vinsælasti veitingastaður þessa hóps, voru Veitur á Akranesi heimsóttar. Þar var farið yfir veitukerfi Akurnesinga með nemendum auk þess sem aðveitustöð Skagamanna var heimsótt ásamt dreifistöð.

Heimsóknir sem þessar eru nauðsynlegar nemendum svo þeir geti áttað sig á þeim möguleikum og tækifærum sem framundan eru þegar þeir hafa lokið sínu námi.

FabLab

Kennarar og nemendur rafiðnaðardeildar FVA eru sífellt meira farin að nýta sér tæknina sem FABLAB á Akranesi býður uppá en FVA er í samstarfi við Þróunarfélagið Breið um rekstur þess. Í áfanganum um verktækni eru smíðaðar allskonar rafeindarásir og kassar utan um rásirnar eru hannaðar og smíðaðar með það í huga að sú tækni og tækjabúnaður sem er að finna hjá FABLAB-inu er nýttur eins og kostur er. Meðal annars voru nemendur að smíða bluetooth hátalara í vetur. Þeir eru smíðaðir inn í box þar sem útlitið er hannað og framkvæmt í smiðju FABLAB (sjá mynd). Reyndar er FABLAB-ið ekki staðsett hér við Fjölbrautaskólann en væri líklega meira notað af nemendum ef svo væri.

Íslandsmeistaramót 2025

Síðla annar voru rafiðnaðarkennara á landinu öllu boðaðir á TEAMS fund með Rafiðnaðarsambandinu til undirbúnings Íslandsmeistaramóti iðnnema sem haldið verður lok mars 2025. Búið er að útnefna þátttakendur fyrir hönd FVA sem keppa en í rafvirkjun keppa þau Íris Arna Ingvarsdóttir af þriðju önninni, og Elvar Ingi Kristjánsson af fimmtu önn. Fulltrúi skólans í húsasmíði keppr Mattías Bjarmi Ómarsson. Vegleg verðlaun eru í boði, bæði í formi vinnufatnaðar og verkfæra auk þess sem efstu nemendur keppninnar fá þátttöku í Evrópukeppni iðnnema sem að þessu sinni verður haldin í París í Frakklandi.  Undirbúningur þessara tveggja nema fyrir keppnina hefst strax í upphafi næsta árs.

Nemendur og kennarar rafiðnaðardeildarinnar og skólans alls eru ánægð með önnina sem er að líða og hlakka til ævintýra sem bíða á vorönn 2025.

 

Trausti Gylfason