Blómlegt skátastarf í Borgarbyggð

Eva Hlín Alfreðsdóttir

Nú rennur senn í garð tími rútínu hjá fjölskyldufólki þar sem börnin flykkjast aftur í skólann og tómstundastarf hefur aftur göngu sína. Mikilvægi tómstundastarfs er þekkt, þar myndast vinátta sem endist oft lífið. Byggður er sterkur grunnur, líkamlega og ekki síður andlega. Það er hollt að æfa færni sem fellur innan áhugasviðs barnsins. Það er hinsvegar líka stundum snúið að finna það sem hentar hverju barni. Þegar þau stálpast verður erfiðara að komast inn í hópinn þar sem færni vantar ef ekki hefur verið æft frá unga aldri. Tómstundastarf er hins vegar ekki aðeins skipulögð íþróttaiðkun. Skátahreyfingin eru fjölmennasta æskulýðshreyfing í heiminum og starfar eftir sömu gildum í nánast öllum löndum heims. Skátarnir hafa það meginmarkmið að stuðla að þroska og uppeldi ungmenna með því að efla einstaklinginn til sjálfstæðis, virkni og ábyrgðar í samfélagi. Samfélagsþegnar sem taka þátt í bæta umhverfi sitt, huga að náttúrunni og samfélaginu. Skátinn sjálfur er lykilpersóna á vegferðinni til þroska og sjálfseflingar sem miðar að einstaklingurinn sé fær um sjálfstæð vinnubrögð og fær um að veita öðrum stuðning og verið hluti af heild.

Skátastarfið byggir á þeim gildum sem felast í skátalögum og skátaheiti og skátar skemmta sér á vegferðinni. Það er mikið lagt upp úr því að viðfangsefnin séu fjölbreytt og áhugaverð. Farið er í útilegur og ferðalög, sungið, tálgað, spáð og spekúlerað. Skátarnir sjálfir ákveða hvernig þeir vilja að skátastarfið sé.

Með skátastarfinu viljum við stuðla að því að skátar:

  • Sýni sjálfum sér, öðrum og umhverfinu virðingu.
  • Taki tillit til skoðana og tilfinninga annarra.
  • Séu skapandi og sjálfstæðir í hugsun, orði og verki.
  • Geri ávallt sitt besta og hræðist ekki að gera mistök.
  • Lifi heilbrigðu lífi og séu traustir félagar og vinir.

Skátafélag Borgarness skipuleggur starf fyrir 10 – 18 ára skáta og hefur opnað fyrir umsóknir. Öll börn frá 5. bekk eru velkomin að vera með í vetur. Vel verður tekið á móti nýjum skátum, laugardaginn 8. september, í skála félagsins sem nefnist Fluga og er í fólkvanginum Einkunnum. Í fyrra var fundarformi breytt og var mikil ánægja með að hafa fundina lengri en sjaldnar, á laugardögum í 3 – 4 tíma í senn einu sinni til tvisvar í mánuði. Með lengri fundum gefst okkur tækifæri til að efla útiveru og búa til vettvang þar sem skátarnir læra að taka ábyrgð á og skipuleggja útiveru út frá aldri og getu.

 

Eva Hlín Alfreðsdóttir, gjaldkeri Skátafélags Borgarness