Blásið til sóknar í matvælavinnslu og vöruþróun á Vesturlandi

Margrét Björk Björnsdóttir

Matvælaframleiðsla hefur um árabil verið ein af undirstöðu atvinnugreinum Vestlendinga og hefur því verið fólki ofarlega í huga í stefnumótun fyrir Sóknaráætlun Vesturlands. Í þeirri stefnumótun hafa matvælavinnsla og ferðaþjónusta verið skilgreindar sem lykil atvinnugreinar á Vesturlandi sem leggja beri áherslu á að efla.

Því var sett upp áhersluverkefni Sóknaráætlunar 2016 um eflingu menntunar í  matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu á Vesturlandi.  Þetta áhersluverkefni hafði þann tilgang að greina framboð, þörf og eftirspurn eftir námi sem nýttist til að efla umræddar atvinnugreinar á Vesturlandi. Þar kom í ljós að margvíslegt nám var í boði, en einnig að eftirspurnin var eftir stuttu, hnitmiðuðu og notadrjúgu námi sem kallar ekki á að þátttakendur fari að heiman eða frá sínum vinnustað til lengri tíma.

Hvað varðar matvælaframleiðslu þá var áhersla þátttakenda á námskeið sem myndu styðja sérstaklega við frumkvöðla í heimavinnslu og vöruframleiðendur í smærri framleiðslu.  Þá kom glöggt fram í viðtölum við fólk í greininni að eftirspurn var eftir námi sem væri blanda af stað- og fjarnámi með áherslu á verk- og starfsþjálfun. Niðurstaðan var að stefnt yrði á að setja upp námskeiðaröð sem gæti stutt við og leitt fólk í gegnum vöruþróun allt frá hugmynd til söluvöru.

Matvælavinnsla og vöruþróun frá A-Ö

Þessi ósk er nú að verða að veruleika því Sóknaráætlun Vesturlands og Símenntunarmiðstöðin, í samstarfi við Vesturlandsstofu og Svæðisgarðinn Snæfellsnes, eru að undirbúa heildstætt námskeið; „Matvælavinnsla og vöruþróun frá A-Ö“.  Námskeiðið verður kennt bæði í fjar- og staðnámi, þar sem markmiðið er að leiða þátttakendur í gegnum þann feril sem þarf að fara í til að koma hráefni og/eða hugmynd að matvöru í framleiðslu og söluhæft form. Þar verður bæði unnið með vöruþróun, vinnsluaðferðir, verkferla, gæðamál, leyfi og fleira.  Gerður verður samningur við MATÍS um að kaupa af þeim kennslu í ákveðnum þáttum námskeiðsins, bæði fjarnámskeið og verknám, auk þess sem fleiri fyrirlesarar verða fengnir til að kenna á námskeiðinu. Einnig er stefnt að því að halda utan um þátttakendur á Snæfellsnesi og í Dölum í gegnum vöruþróunarverkefni sem þar eru í gangi. Öll verkleg kennsla verður í matarsmiðjunni Matarlind í Borgarnesi.

Það er von okkar að Vestlendingar nýti sér þetta tækifæri og taki þátt í námskeiði sem er sérstaklega sniðið að því að efla heimavinnslu matvæla og minni framleiðendur. Stefnt er að því að kennsla hefjist um miðjan janúar 2020.

Nánari upplýsingar veitir Inga Dóra Halldórsdóttir hjá Símenntunarmiðstöð Vesturlands, netfang: ingadora@simenntun.is og/eða Margrét Björk Björnsdóttir hjá Vesturlandsstofu, netfang: maggy@west.is.

 

Margrét Björk Björnsdóttir.