Bláland hið mikla og kynþáttafordómar

Geir Konráð Theódórsson

Við ákváðum að gelda varðhundinn okkar og fengum í heimsókn eina dýralækninn í borginni, mögulega landinu öllu. Dýralæknirinn, sem er mjög sérstök rússnesk kona sem hefur búið hérna í Níger í 40 ár, kom í heimsókn og blessaði rakkinn Rex fór í aðgerð á stofuborðinu okkar. Það var mjög erfitt að skilja sterka rússneska hreiminn hennar, en á endanum skildi ég að hundurinn yrði að vera undir okkar eftirliti í viku á meðan hann væri að jafna sig. Ég er búinn að sitja með greyinu síðustu daga og passa að hann borði, drekki og festi ekki lampaskerminn sem hann hefur um hálsinn í grindverkinu.

Þessi hundapössun hefur gefið mér nægan tíma til að lesa mér til um hitt og þetta á netinu. Ég hef verið sérstaklega forvitinn um hvað Íslendingar til forna vissu um Afríku, og í stuttu máli virðist vitneskjan ekkert sérstaklega mikil eða djúp. Í fornum íslenskum sagnaritum er talað um Bláland, með tilvísun til líklegast Eþíópíu, og svo Bláland hið mikla fyrir löndin í kring og mögulega heimsálfuna alla. Ef við skoðum til dæmis riddarasöguna af Dínusi Drambláta, sem skrifuð er af Jóni Gissurarsyni á Íslandi einhvern tímann á milli 1610 og 1648, þá er Blálandi hinu mikla lýst svona:

„Þar sem hafið vellur af sólarhita. Þar eru margir staðir sviðnir og brunnir af sólarhitanum. Þar fæðast mjög jötnar ýmislegir og blámenn bannsettir og alls kyns skessilegar skepnur.“

Ég get svo sem verið sammála því að hér í Níger velli allt af sólarhita, þar sem það er um 44°C hiti úti hérna í jaðri Sahara eyðimerkurinnar, en lýsingin á íbúum þessa lands er frekar fordómafull, þó að þetta sé bara ævintýrasaga. Því miður voru fordómar í garð íbúa þessarar heimsálfu auðvitað algengir í Evrópu á þessum tímum, heimsmynd fólks var öðruvísi en í dag. Ég hugsaðu um þetta og tók þessi skrif ekki of nærri mér. Ég hélt áfram að lesa og var frekar stoltur þegar ég rambaði á skrif Magnúsar Stephensen.

Magnús var mjög merkilegur Vestlendingur. Hann var fæddur á Leirá í Leirársveit árið 1762 og var einn öflugasti liðsmaður Upplýsingarinnar á Íslandi. Hann gekkst meðal annars fyrir stofnun Hins íslenska landsuppfræðingarfélags árið 1794 og það félag festi kaup á Hrappseyjarprentsmiðju í Breiðafirði og flutti hana að Leirárgörðum. Þaðan hóf Landsuppfræðingarfélagið mikla bókaútgáfu í anda upplýsingarstefnunnar og henni var tekið vel af almenningi á Íslandi, sem í fyrsta sinn átti nú kost á fræðsluefni um málefni hins daglega lífs, beint frá Vesturlandi.

Mér fannst magnað að lesa um hann Magnús en því miður brast stoltið í mér þegar ég las sumt af því sem hann skrifaði. Þó að hann hafi verið að mörgu leyti frjálslyndur skynsemishyggjumaður sem vildi stuðla að framförum, þá var hann samt með fordómafullt hugarfar. Til dæmis skrifar Magnús árið 1797, þremur árum eftir að Frakkar banna allt þrælahald, eftirfarandi í tímaritinu sínu Skemmtileg vinagleði:

„Þessi Frílönd smánudu alla vora upplýstu nordurálfu, med því ad verda lángfyrst til ad veita Negrum, er ádur þrælkudu í þeirra veldi, manneskiu-rétt og frelsi.”

Ég vildi óska þess að geta sagt ykkur að þetta fordómafulla hugarfar hafi lognast út af á Íslandi með árunum og öldunum sem leið, en því miður er saga Íslands stráð smánarblettum sem ná vel að okkar tímum í dag. Í bókinni Uppgjör við umheiminn – Samskiptin við Bandaríkin og NATO, 1960-1974, eftir Val Ingimundarson frá árinu 2001, er greint frá því að það var lengi vel stefna íslenskra stjórnvalda að í varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli mættu ekki starfa svartir hermenn. Hermann Jónasson forsætisráðherra setti fram slíka ósk árið 1941 þegar herverndarsamningur var gerður við Bandaríkin, og þessari stefnu var fylgt eftir allt fram á sjöunda áratuginn.

Rétt eins og í dag þá var á þessum tíma mikil umræða um kynþáttamisrétti í bandarísku samfélagi. Sjálfur John F. Kennedy Bandaríkjaforseti setti á fót sérstaka forsetanefnd til að vinna gegn kynþáttahyggju og mismunun á grundvelli litarháttar. Kennedy furðaði sig á Íslandsmálinu, eins og það var kallað, og óskaði eftir að fá allar upplýsingar um það hvers konar heiðursmannasamkomulag væri í gildi milli bandarískra og íslenskra stjórnvalda um að svartir hermenn yrðu ekki sendir til Íslands. Eftir þetta var brugðist skjótt við og nokkrir svartir hermenn voru sendir til Íslands. En Íslendingar drógu samt lappirnar og mótmæltu þessu eins og sést í þessum skrifum í Mánudagsblaðinu frá 10. maí 1965:

„Blökkumönnum fjölgar á Íslandi – Yfirvöld varnarhersins ,,gleyma” samningnum. Það eru mikil mistök hjá bandaríska varnarliðinu að brjóta samninga lútandi að því, að ekki yrðu negrar fluttir hingað á vegum hersins. Íslendingar hafa ekki haft af kynþáttavandamálum að segja og ætla sér ekki að fá þessa innflutningsvöru að vestan.”

Ég er fæddur árið 1986 og þegar ég var að alast upp voru Eddie Murphy og Michael Jordan algjörar hetjur í mínum augum. Ég hef aldrei verið mikill áhugamaður um körfubolta en ég man vel að ég vildi nota skósvertu til að líta út eins og Michael Jordan á Öskudeginu, hann var bara svo frábær. Ég myndi auðvitað ekki klæða mig í „blackface“ búning í dag, en það sem ég meina með þessu er að börn fæðast ekki með fordóma. Fordómar koma úr samfélaginu í kringum okkur. Blessunarlega er mun minna af fordómum í íslensku samfélagi í dag miðað við fyrri tíma en þetta hugarfar er ekki sjálfsagður hlutur. Ég er alls ekki saklaus af fordómum, en ég reyni mitt besta að vera gagnrýninn á hugarfar mitt og samfélagsins í kringum mig.

Það sem veldur mér áhyggjum er að skoða samfélagsmiðlana í dag og lesa hvað sumt fólk sem er „virkt í athugasemdum“ er að skrifa við fréttirnar frá Bandaríkjunum. Ég vil ekki hafa eftir þeirra skrif hérna, en ég get sagt að það er eins og sumir heima á Íslandi séu enn með hugarfarið sitt fast lengst aftur í fornöld.

Treystið mér, það eru engar skessilegar skepnur frá Blálandi, ég bý hérna og er umkringdur dásamlegu fólki, já og hundi sem er að hressast. Árið er 2020, allt fólk er mannfólk og við eigum öll að berjast saman gegn kynþáttafordómum og hatri.

 

Geir Konráð Theódórsson í Níger