Björgum sveitinni

Ólafur Óskarsson

Opið bréf til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar

Við undirrituð viljum eftir að hafa skoðað hugmyndir og tillögur VSÓ fyrir Vegagerðina, sem unnar voru fyrir tilstuðlan sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar, um vegarlagningar um sveitarfélagið, mótmæla þessum tillögum harðlega. Við teljum þær engan veginn fullnægja þeim væntingum eða kröfum sem gera má til slíkra framkvæmda í dag. Einnig þarf að horfa til þess að þær verða óafturkræfar og munu notast til næstu 100 ára hið minnsta.

Við getum séð fyrir okkur og höfum þá trú að mikil uppbygging geti átt sér stað í þessu friðsæla og fallega sveitarfélagi, ef það verður ekki skaðað verulega, ekki síst í- og kringum Melahverfið og einnig í Leirár- og Melasveitinni. Þá er ekki gott ef búið verður að leggja hraðbraut einmitt þar sem íbúðabyggðin gæti verið þéttust. Tökum sem dæmi Lambhaganesið, þangað gæti Melahverfið stækkað eða það orðið útivistarsvæði, þá væri ekki gott að vera með hraðbraut í gegnum mitt hverfið með þeim hættum og ónæði sem því fylgir.

Þessar fjórar leiðir sem boðið er upp í tillögum VSÓ, eru að okkar mati engan veginn ásættanlegar, vafalaust hafa þær allar einhverja kosti, hver með sínu sniði, en allar eru þær stórgallaðar. Tillögurnar kalla á mikið af hliðarvegum með ýmisskonar tengingum og undirgöngum, smíði nokkurra brúa, takmarka íbúum aðgang að eigin landi, nálægð vega við íbúðabyggð og frístundabyggð, gerir fólki jafnvel dvöl í eigin húsum illmögulega.

Nú í dag er mikið talað um kolefnisspor, verndun votlendis og náttúru. Það er ekkert tillit tekið til þess í þessum hugmyndum, akstursleiðir lengdar, skurðir grafnir með vegum og ræst fram, þurrkað upp votlendi, fjöldi undirganga sem einnig þarf að framræsa, byggðar brýr á veiðiárnar Laxá og Leirá. Hitaveitulagnir sem nýbúið er að endurnýja svo og raf- og ljósleiðarlagnir sem einnig eru nýlega lagðar í jörðu til hliðar við þjóðveg eitt, þurfa þá væntanlega að færast eða hliðarvegur samkvæmt valinni tillögu (tillaga 1c) færast enn meira til hliðar.

Mikið hefur verið rætt um að ekki megi snerta við Grunnafirðinum vegna Ramsarsáttmála en það er einmitt gert samkvæmt þessari tillögu. Sjávarfalla gætir upp undir Laxárbakka, undir brúna við Laxá, einnig er það við lækinn milli bæjanna Lækjar og Lyngholts, þar fellur alveg að þjóðvegi 1 og reyndar aðeins lengra á stórstreymi. Það þarf að taka inn í dæmið að friðun Grunnafjarðar nær allan hringinn. Þetta tel ég þó ekki vandamál, má leysa með stærra ræsi og brú. Þess skal einnig getið að lagning hliðarvega og akstursleiða er einnig á teikniborðinu hvað varðar veginn frá Grundartanga að Hvalfjarðargöngum en ég mun ekki fara nánar út í það hér.

Ekki gengur að vera með ábendingar og athugasemdir nema koma með einhverjar tillögur og lausnir á móti. Legg ég til að Grunnafjarðarleiðin verði fyrir valinu, það er að leggja veginn með brú fyrir mynni Grunnafjarðar, það er leið sem búið er að skoða mjög vel af sérfræðingum Vegagerðarinnar m.a. í skýrslu sem var unninn af VSÓ 2009. Niðurstaða þeirrar skýrslu var sú að þetta væri álitlegur kostur og vel framkvæmanlegur að uppfylltum þeim kröfum sem til þess væru gerðar. Eins og vel sést á meðfylgjandi korti af hugsanlegri veglínu, þá er þetta þægileg, bein leið með mjúkum sveigum, lítill halli og gott sjónsvið. Þessi leið er fjarri allri íbúðabyggð og skerðir lítið aðgang svæða. Einhver röskun verður á grónu landi en það er óhjákvæmilegt hvar sem vegurinn verður lagður. Mjög lítið er af tengingum inn á veginn, aðeins 7-8 frá Hvalfjarðargöngum að Borgarfjarðarbrú og eykur það öryggi vegfaranda enn frekar. Í dag eru tengingar um 40 talsins og í hinum tillögunum fjórum sem liggja fyrir líklega 12-15. Þá er einnig vert að taka fram að þennan veg er hægt að leggja að mestu án þessa að trufla aðra umferð eða leggja bráðabirgðarvegi meðan á vegarlagningu stendur. Bendi á framkvæmdir á Kjalarnesinu og austan við Hveragerði því til stuðnings. Það sem er mikilvægast er að röskunin verði sem allra minnst, tekið tillit til náttúrunnar og öryggis vegfaranda.

Eftir að hafa átt samtal við ýmsa ráðamenn og aðila sem þetta mál varðar þá virðast flestir vera sammála því að vegur yfir Grunnafjörð sé besti kosturinn, fyrir öll sveitarfélögin hér á Vesturlandi, einnig alla þá sem leið eiga um veginn bæði suður og norður, auk þess að þetta er augljóslega besti kosturinn fyrir sveitarfjélagið Hvalfjarðarsveit. Það virðist vera aðeins sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar sem þetta strandar á og finnst hún þurfi að gefa skýringar á því. Ég vil benda á að líklega sparast svona 6-7 þúsund km. akstur á dag ef Grunnafjarðarleiðin er valin. Það má reikna það yfir í krónur eða kolefnisspor.

Við förum fram á að Grunnafjarðarleiðinni verði bætt inn sem valkosti við þær fjórar leiðir sem nefndar hafa verið sem valkostir í tillögum Vegagerðarinnar. Einnig óskum við eftir að haldinn verði kynningarfundur um málið. Þá óskum við eftir að sveitarstjórnin svari þessu erindi hér á sama vettvangi auk þess sem hægt er að hafa samband við undirritaðan eftir öðrum leiðum einnig.

 

Fyrir hönd eigenda sumarhúsasvæðis í landi Beitistaða,

Ólafur Óskarsson

„Við förum fram á að Grunnafjarðarleiðinni verði bætt inn sem valkosti við þær fjórar leiðir sem nefndar hafa verið sem valkostir í tillögum Vegagerðarinnar.“ Hér má sjá frumhönnun veglínu frá Akranesi, yfir Grunnafjörð og inn á þjóðveginn í Melasveit. Teikning: Hnit.