Bindindi borgar sig

Björn Sævar Einarsson

Meðfylgjandi er opið bréf frá formanni IOGT á Íslandi sem sent er á Háskóla Íslands, Rektor Háskóla Íslands, Háskólaráð, Menntamálaráðherra og fjölmiðla í dag, 6. september.

Nú um þessa helgi eins og undanfarin haust boðar Stúdentaráð til Októberfest;  bjór-fylleríshátíðar innfluttrar frá Suður-Þýskalandi. Fylleríið er haldið á lóð Háskóla Íslands, skóla allra landsmanna, þá væntanlega með leyfi rektors og Háskólaráðs. Drykkjuhátíðin er þó ekki haldin í október eins og búast má við samkvæmt nafninu heldur nú snemma í september í lok nýnemaviku. Væntanlega til auka líkurnar á að þeir nemendur sem eru veikir fyrir víni falli sem fyrst úr skóla. Svona eins konar númerus clausus? Það má færa rök fyrir því að það sé brot á jafnrétti að Háskólinn skuli svona gróflega vinna að því að fella ákveðinn hóp fólks.

Annar hópur stúdenta og nýstúdenta sem fer sístækkandi er nú aldeilis ekki boðinn velkominn í Háskólann í byrjun skólaárs. Það eru bindindismenn. Samkvæmt nýjustu könnunum Rannsóknar og greiningar þá neyta 46 % framhaldskólanema ekki áfengis. En þessi hópur eru hvattur til að hefja drykkju þegar Stúdentaráð stendur svona með áfengisiðnaðinum og heldur Októberfest með þeim óbeinu skilaboðum að þú sért ekki alvöru-háskólastúdent nema þú neytir eiturlyfja og helst mikið af þeim.  Minnka skattbyrði? Því áfengisiðnaðurinn (eins og aðrir eiturlyfjaframleiðendur) leggur alla áherslu á að allir smakki eitrið því það hámarkar fjöldann sem verður fíkninni að bráð og þannig græða þeir mest. T.d. í Bretlandi þá eru það 4 % sem drekka 25 % af áfenginu. Já, viðskiptamódelið byggir á að græða sem mest á fárveiku fólki.

Áfengisauglýsingar eru bannaðar á Íslandi. Stúdentaráð auglýsir samt grimmt, t.d. á Facebook síðu sinni, fyllrerísveisluna sína og auglýsir sérstök magnafsláttar-bjórkort til að hvetja til sem mestrar drykkju. Boðið er upp á bjór í lítrakönnum – en áfengismagn í einum lítra af 5-6 % bjór er álíka og 5 til 6 skot af vodka. Þetta er það sem á ensku er kallað binge drinking, þýtt á íslensku sem lotudrykkja en á kjarnyrtri íslensku fyllerí. Átti ekki innleiðing bjórsins að draga úr fylleríi? Ekki hefur bjórinn dregið úr neyslu áfengis, hún hefur aukist úr 4,3 lítrum á mann í næstum þvi 8 lítra.

Ef til vill lítur Stúdentaráð (og Háskólaráð) á fíkniefnaneyslu, þar á meðal áfengisneyslu, sem atvinnuskapandi fyrir háskólamenntað fólk? Meira að gera t.d. hjá félagsfræðingum, sálfræðingum, lögfræðingum, dómurum, hjúkrunarfræðingum og læknum. Og ef til vill greiðari leið inn á þing með stuðningi áfengisiðnaðarins? Það er ekki einleikið að æ ofan í æ að þingmenn nýskriðnir á þing sem hafa ekki minnst einu orði á áfengi í kosningabaráttu  sinni skuli gera að sínu fyrsta máli frumvarp til að veikja áfengisforvarnir í landinu.

Tóbak er líka löglegt fíkniefni eins og áfengi en það er ekki í tísku og Stúdentaráð gerir því ekki hátt undir höfði en hvað ef svo hörmulega færi að önnur fíkniefni yrðu gerð lögleg? Myndi Stúdentaráð þá hampa kannabis með grasveislu? Halda kókaín- og alsælureif?  Setja upp Xanex- og ritalínbása á prófatíma? Eða ópíumbæli í Stúdentakjallaranum? Háskóli Íslands hefur lýst yfir metnaði sínum að standa í fremstu röð í heiminum – er það kannski sem partí-háskóli?

Um 3 milljónir dauðsfalla í heiminum á hverju ári má rekja til áfengisneyslu, 5,9 % allra dauðsfalla  – og er hún helsta dánarorsök fólks á aldrinum 15 til 49 ára. Normið er samt að drekka ekki áfengi, því takið eftir: 62 % fullorðinna í heiminum neytir ekki áfengis og því er þessi dánartíðni mun hærri hjá þeim sem drekka. Áfengi er krabbameinsvaldur –  tengt 9 mismunandi tegundum, þar á meðal brjóstakrabbameini. Áfengi er orsakavaldur í yfir meira en 200 sjúkdóma- og slysaflokkum. 30 til 40 % af dauðsföllum í umferðinni á Íslandi eru tengd áfengisneyslu. Áfengisneysla er þáttur í yfir 40 %  af heimilisofbeldi hér á landi. Langflest morð á Íslandi frá stofnun lýðveldis hafa verið framin undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna.

Ef þjáningar, sjúkdómar og dauði hnika ekki dálæti Stúdentsráðs á áfengi, ef til peningar? Árleg byrði samfélagsins vegna áfengis og annarra vímuefna er yfir 120 milljarðar og fer hækkandi. Landlæknisembættið áætlar að aukin neysla á áfengi gæti aukið þjóðfélagslegan kostnað um allt 30 milljarða á ári! Vill Stúdentaráð  minnka álagið og minnka kostnað í heilbrigðiskerfinu, lögreglunni, dómskerfinu, fangelsiskerfinu? Auka framleiðni og gæði hjá fyrirtækjum? Minnka skattbyrði?

Vill Stúdentaráð vinna að því að Ísland og já, heimurinn allur nái Heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna um sjálfbæra þróun fyrir árið 2030? Meginmarkmiðin eru 17 og 13 af þeim eru tálmuð af áfengi:

1  Engin fátækt

2  Ekkert hungur

3  Heilsa og vellíðan

4  Menntun fyrir alla

5  Jafnrétti kynjanna

6  Hreint vatn og hreinlætisaðstaða

8  Góð atvinna og hagvöxtur

10 Aukinn jöfnuður

11 Sjálfbærar borgir & samfélög

12 Ábyrg neysla og framleiðsla

13 Aðgerðir í loftslagsmálum

16 Friður og réttlæti

17 Samvinna um markmiðin

 

Þarna er mikið verk að vinna og Stúdentaráð gæti hafið það með því að hætta að þjónka áfengisiðnaðinum. Ef ekki, þá hafa Stúdentaráð, rektor, Háskólaráð Háskóla Íslands og menntamálaráðherra margt að svara fyrir með þessum spellvirkjum á íslensku samfélagi og árásum á íslensk ungmenni.

Áfengi er engin venjuleg neysluvara. Bindindi borgar sig.

Björn Sævar Einarsson, formaður IOGT á Íslandi.