Betra og öflugra samfélag á sunnanverðu Snæfellsnesi, núna ekki seinna

Eggert Kjartansson

Mikil breyting hefur orðið á fjölda sveitarfélaga á landinu í gegnum tíðina. Á Vesturlandi voru 39 sveitarfélög árið 1969 þegar SSV var stofnað og 13.200 íbúar. Núna eru tíu sveitarfélög og 16.700 íbúar. Umhverfi sveitarfélaga hefur einnig tekið miklum breytingum og mun gera áfram. Hlutverk þeirra orðin viðameiri sem og allt þeirra umhverfi orðið erfiðara með nýjum og viðameiri verkefnum. Ljóst er að ekki hafa orðið breytingar á sveitarfélögum frá 2006 þegar Borgarbyggð varð til í núverandi mynd. Færa má rök fyrir því að verkefni sveitarfélaga séu orðin það viðamikil að lágmarks íbúafjöldi hvers sveitarfélags ætti að vera yfir 10 þúsund íbúar.

Það hefur verið skoðun undirritaðs síðan haustið 2006 að Vesturland ætti að vera eitt öflugt sveitarfélag, þá myndi skapast sterkt sveitarfélag með fjölbreyttum og sterkum stoðum. Jafnframt vil ég meina að það ættu ekki að vera nema 8 til 12 sveitarfélög á landinu. Þýðir þessi skoðun mín að ég skuli þar með vera á móti öllum öðrum hugmyndum að sameiningum? Og þar með frekari framþróun sveitarfélaga meðan ég bíð eftir að allir verði mér sammála? Það væri óábyrg afstaða af minni hálfu. Stundum verður bara að taka fleiri skref að markmiðinu heldur en maður vill.

Um leið og rekstur sveitarfélaga verður erfiðari á dreifbýli allt í kringum landið undir högg að sækja, en engin einhlít skýring er nú á því. Fólki fækkar og erfiðara verður að halda uppi þjónustu á dreifbýlum svæðum. Margt hefur verið gert til að sporna við þessari þróun m.a. lagðir ljósleiðarar í dreifbýli, skipulagðar íbúðarbyggðir og verkefnið Brothættar byggðir hefur skilað sínu.

Þegar hugað er að sameiningu sveitarfélaga er mikilvægt að huga að mörgu. Það sem er undirrituðum ofarlega í huga er að reyna að búa til sterka heild á sunnanverðu Snæfellsnesi. Skoðun undirritaðs hefur allt frá 2006 verið að Eyja- og Miklaholtshreppur ætti ekki að fara í sameiningarviðræður, nema að annað hvort Snæfellsbær eða Borgarbyggð tæki einnig þátt. Það verður til þess að íbúar hér myndi sameiginlega heild með öðrum sambærilegum svæðum og þar með sköpuð sterkari eining innan stærra sveitarfélags í framtíðinni.

Ljóst var að þegar Snæfellsbær leitaði til Eyja- og Miklaholtshrepps um sameiningaviðræður síðastliðið sumar, þurfti ég að hugsa mig lengi um hvort þetta væri eitthvað sem við ættum að fara í. Í upphafi samtalsins var efi í mínum huga um hvort þetta væri rétta skrefið að taka núna. Efinn hvarf þó fljótlega, því undirritaður hefur aldrei áður verið í samtali við önnur sveitarfélög þar sem allir tala af áhuga um styrkingu dreifbýlis og hvernig megi gera það betra.

Það sem undirritaður er samfærður um að gerist við sameiningu Snæfellsbæjar og Eyja- og Miklaholtshrepps er eftirfarandi:

  • Stærra samfélag á sunnaverðu Nesi vinnur betur saman. Í staðinn fyrir tvö um 100 manna samfélög að vinna að sínum málum verður til yfir 200 manna eining sem með samhentu átaki getur skapað þau skilyrði að samfélagið vaxi og verði á bilinu 250 til 300 manna.
  • Öflugri félög á svæðinu. Félög á svæðinu verða sterkari með því að vinna enn betur saman en gert er í dag.
  • Frekari sameiningar. Sunnanvert Snæfellsnes verður sterk eining þegar kemur til frekari sameiningar.
  • Öflugur skóli. Það liggur fyrir að báðir skólarnir hafa verið að veikjast undanfarin ár og margir á svæðinu vilja grunnskóla og leikskóla á svæðinu. Með samfélagi yfir 200 íbúa, svo ég tali ekki um 250 til 300, þá verður enn frekari möguleiki á að hafa öflugan leik- og grunnskóla á svæðinu sem nýtir þau tækifæri sem eru til staðar til að hlúa að nemendum. Ef ekki verður hægt að vera með skóla á sunnanverðu Snæfellsnesi er hætt við að samfélagið muni halda áfram að veikjast og yngra fólk muni síður vilja koma og setjast hér að.
  • Fjárhagslega sterkt sveitarfélag. Þegar verið er að sameina sveitarfélög er það venjan að það fari mikill tími í umræður um fjármálin, en í okkar tilviki hefur lítil umræða verið um fjármál. Er það til marks um hversu nýtt sveitarfélag verður fjárhagslega sterkt, sem skiptir máli fyrir íbúa Eyja- og Miklaholtshrepps að fara inn í slíkt sveitarfélag.

Það að ákveða að búa í dreifbýli hefur alltaf kosti og galla en það verður að hver og einn að finna það hjá sér hvort það henti hverjum og einum. Það sem mikilvægast er í svona samfélögum er sú samkennd sem hefur alla tíð einkennt slík svæði og er mjög mikilvæg. Reynsla okkar nágranna til beggja handa er sú að samfélagið gleymir sér síður í arga þrasi sem gjarnan tilheyrir þegar um litla stjórnsýslu er að ræða.

Þó svo að ég vilji að Vesturlend verði sem fyrst að einu sveitarfélagi mæli ég með því að við tökum þetta skref núna til þess að styrkja samfélögin á sunnanverðu Snæfellsnesi og hrista okkur enn frekar saman.

Betra og öflugra samfélag á sunnanverðu Snæfellsnesi, núna ekki seinna!

 

Eggert Kjartansson

Höf. er oddviti Eyja- og Miklaholtshrepps og formaður samstarfsnefndar um sameiningu Eyja- og Miklaholtshrepps og Snæfellsbæjar.