Besti ungbarnaróló á landinu

Tinna Steindórsdóttir

Undanfarna daga hefur dásamleg vetrarblíða ríkt hérna á Skaganum. Góða veðrið léttir lundina í skammdeginu og útivera ennþá meira. Ég pakka smá nesti og heitu kakói í tösku, dúða litla stubbinn minn í útigallann sinn og lambhúshettu (afhverju heitir það eiginlega lambhúshetta?) og eldri börnin mín klæða sig vel og svo skundum við út á ungbarnarólóinn sem er þarna á milli Brekkubrautar og Heiðarbrautar. Dóttir mín kallar þennan róló Bangsaróló, en ég man ekki eftir því að hann hafi heitið neitt þegar ég þvældist hérna um með vinkonum mínum í gamla daga. Ég veit líka að tengdamamma mín lék sér mikið á þessum róló sem barn. Hann hefur einhvern veginn alltaf verið hérna en samt ekki svo margir sem vita af honum.

Ég fæ mér sæti þarna við eitt af yfirbyggðu útiborðunum á meðan krakkarnir mínir leika við litla bróður sinn. Þau eru í búðarleik í litríkum litlum kofum sem standa þarna hlið við hlið. „Hver vill kom‘og kaupa, þrjá litla lauka?!“ Litli bleyjubossinn minn staulast þarna um á bomsunum sínum og reynir að halda í við systkini sín, en ég þarf ekki að hafa áhyggjur af því að hann detti og slasi sig á litla kollinum sínum því það er mjúkt undirlag hérna á öllum leikvellinum, ekki möl eða steypa eins og á flestum öðrum leikvöllum. Ég þarf heldur ekki að hafa áhyggjur af því að hann stingi af ef ég lít niður í bókina mína, því ungbarnarólóinn er girtur af, maður þarf bara að passa að loka hliðinu á eftir sér.

Eldri sonur minn fer eina sallýbunu á hnjánum niður litlu rennibrautina við mikinn fögnuð litla bróður. Litli bróðir er enn pínulítið smeykur að fara sjálfur í rennibrautina þó hún sé lítil. Því næst fara bræðurnir rúnt á brunabílnum og kalla „babú, babú!“ og bruna systur sinni til bjargar sem hrópar eftir hjálp úr rennibrautinni. Björgunaraðgerðirnar eru ekkert síður spennandi þó svo að bíllinn standi þarna grafkyrr, trénaður á sínum stað. Þau eldri leiða svo þann minnsta á milli sín að rólunum og svo troða systkinin sér öll í kóngulóarróluna og hlægja kát upp í himininn á meðan rólan sveiflast fram og aftur. Innan stundar koma þau öll sælleg með rauða nebba og kinnar og fá sér heitt kakó til að hlýja sér og drífa sig svo aftur að leika. Ánægjutilfinning fer um mig þar sem ég sit þarna með kakóbollann minn og hlátur barnanna minna bergmálar í köldu, kyrru loftinu. Lífið gæti ekki verið betra!

Þetta er afskaplega notalegur róló, þarna í góðu skjóli inn á milli húsanna og alveg passlega stór þannig að maður hefur góða yfirsýn yfir allt svæðið. Hér eru líka ótrúlega skemmtileg og sniðug leiktæki sem henta mjög vel fyrir ponsulitla orkubolta sem eru að taka sín fyrstu skref í því að kanna heiminn af eigin rammleik. Það er afar hentugt fyrir okkur vinkonur mínar að hittast hérna með krílin okkar, þau skemmta sér konunglega við að eyða orkunni sinni á meðan við fáum dágóðan skammt af spjalli og samveru. Þetta er líka alveg fullkomin aðstaða fyrir dagforeldrana sem eru hérna í kring, því hér eru þeir á öruggu svæði og geta leyft sér að sleppa börnunum á kreik þó þeir séu kannski bara einir með 4-5 börn í einu. Mikið erum við Skagamenn heppnir með þessa frábæru aðstöðu! Ég hugsa að þetta sé flottasti ungbarnaróló á öllu landinu!

Nei. Grín! Það er enginn ungbarnaróló á Akranesi. Á Bangsaróló er ekkert nema þúfótt, óslegið gras, niðurníddar rólur og körfuboltakarfa.

En maður getur látið sig dreyma.

 

Tinna Steindórsdóttir