Besta niðurstaðan, betra Akranes

Ragnar Sæmundsson

Síðastliðnar vikur höfum við frambjóðendur Framsóknar og frjálsra farið um víðan völl og eigum þó eftir að fara enn víðar. Við vorum með sex opna málefnafundi um málefnasvið bæjarins. Þangað mætti fólk sem þekkti vel til málaflokkanna, gaf okkur upplýsingar um hvað væri gott og við hverju ætti að bregðast til að gera hlutina enn betri. Við höfum mætt á fundi, kynningar, inn í fyrirtæki, stofnanir og farið í heimsóknir, svo að eitthvað sé nefnt. Með þessu reynum við að vinna traust kjósenda með því að kynna okkur sjálf, sjónarmið okkar og koma því á framfæri fyrir hvað við stöndum. Í öllu þessu starfi hef ég áttað mig á mikilvægi þess að gefa sér tíma til að hlusta á þá sem við hittum og læra af mismunandi reynslu og þekkingu fólks. Allt þetta gerum við til að fá upplýsingar um málefni okkar góða samfélags því við í Framsókn og frjálsum brennum fyrir því að gera góðan bæ að enn betra Akranesi.

Það skiptir miklu máli að kynna sér sjónarmið sem flestra og öðlast þannig getu til að taka góðar ákvarðanir. Margir sem við höfum hitt eru sérfræðingar í málefnum sem standa þeim næst. Hér er ég að tala um starfsmenn og notendur þjónustu stofnana og fyrirtækja. Upplýsingar frá öllum þessum aðilum er mikilvægt nesti inn í vinnuna sem er að gera gott Akranes að enn betra Akranesi. Það er það sem við í Framsókn og frjálsum leggjum áherslu á.

Bæjarfulltrúar fá að takast á við mörg og mismunandi mál. Það er augljóst í mínum huga, að því fleiri sjónarmið sem hlustað er á, því betri niðurstöðu fáum við. Þá er einnig líklegt að betri sátt náist um niðurstöðuna. Því verða bæjarfulltrúar að sýna pólitíska forystu, hlusta á öll sjónarmið og taka síðan ákvarðanir út frá eigin sannfæringu.

Á undanförnum vikum hef ég lært mikið um ýmiss málefni sem ég hafði litla sem enga þekkingu á. Þessar vikur hafa verið afar skemmtilegur tími og ég hlakka til að halda baráttunni áfram. Ég vonast til að hitta þig og alla þá sem búa yfir ýmiss konar þekkingu. Þekkingin þín er mikilvæg til að gera góðan bæ að enn betra Akranesi.

Ég hlakka til kosninganna og hvet þig til að kynna þér stefnumál okkar. Við munum kynna þau nk. laugardag kl. 11 – 13 í kosningamiðstöð okkar að Kirkjubraut 54 – 56. Við munum bjóða upp á léttan „bröns“ og áhugaverð stefnumál. Áherslur okkar eru byggðar upp á samtali við ykkur og mismunandi þekkingu og reynslu liðsmanna Framsóknar og frjálsra.

Ég hvet þig til að mæta!

XB fyrir betra Akranes!

 

Ragnar Sæmundsson

Höf. skipar 2. sæti á lista Framsóknar og frjálsra á Akranesi.