
Baulárvellir eru í eigu Stykkishólmskirkju
Magndís Alexandersdóttir
Nú liggur fyrir úrskurður Hæstaréttar á því að Baulárvellir eru í eigu Stykkishólmskirkju. Eftir miklar rannsóknir á skjölum sem til voru er það ekki lengur neinn vafi, búið að fara í gegnum þrjú dómsstig.
Jörðin er gefin kirkjunni 9. september 1882. Afsals- og gjafabréf þinglesið að Stykkishólms þingstað 13. júní 1883. Jörðin er gefin með öllum þeim réttindum sem henni fylgja og fylgja ber að fornu og nýju, til lands og vatns hverju nafni sem það nefnist, en áskilið að sóknarnefnd Stykkishólmssóknar gjöri hana svo arðsama sem frekast má, en fremur að jörð þessi aldrei verði frá kirkjunni seld og aldrei veðsett hvorki í kirkjunar þarfir né annarra, eins og segir í gjafabréfi.
Núverandi sóknarnefnd hefur í mörg ár unnið að því að fá eignarréttinn sannaðan, eftir að hann var dreginn í efa af eigendum Múlavirkjunar, og nú er það í höfn.
Standa nú yfir viðræður við eigendur Múlavirkjunar um samning vegna nýtingu lands- og vatnsréttinda jarðarinnar Baulárvalla. Vonir standa því til að kirkjan hafi nokkrar tekjur af þessari jörð sinni, svo sem vonir stóðu frá upphafi hjá gefanda jarðarinnar.
Stykkishólmi 31.08.2025
F.h. Sóknarnefndar Stykkishólmskirkju
Magndís Alexandersdóttir