Baulárvallamálið fyrr og nú

Eggert Kjartansson

Baulárvallamálið er merkilegt mál þar sem það hefur verið undirliggjandi á svæðinu kringum Baulárvallavatn á Snæfellsnesi í um 200 ár. Unnin hefur verið mikil vinna við gagnaöflun í tengslum við málsmeðferð Óbyggðanefndar sem og fyrir dómstólum undanfarin ár en við það hefur öll þekking á svæðinu aukist sem og hvernig háttaði til á þeim tíma sem um ræðir.

Á 18. öld var mikið harðindatímabil í sögu Íslands og fjöldi jarða lagðist þá í eyði. Það var við þær aðstæður sem svonefnd nýbýlatilskipun var gefin út 15. apríl 1776. Í nýbýlatilskipun fólst heimild til að byggja býli jafnt á óbyggðum svæðum sem eignarlöndum. Tilgangurinn var að vinna gegn fólksfækkun og eyðingu jarða með því að hvetja ungt fólk til að stofna heimili og byggja upp býli. Samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar var skylt að taka í notkun „útlendi“ jarða sem lá notalaust og átti jarðeigandinn að hafa forgangsrétt til að byggja þar upp nýbýli. Ef hann gerði það ekki var öðrum látið það eftir. Á öðrum óbyggðum landsvæðum, þar á meðal „afréttaralmenningum“ höfðu allir jafnan rétt til að stofna nýbýli samkvæmt tilteknum reglum. Þetta gilti einnig um lönd og jarðir sem forðum voru í byggð en höfðu um langan aldur legið í eyði. Nýbýlatilskipunin var í gildi í rúm hundrað ár.

Á grundvelli amtskipunar frá 20. maí 1823 var veitt heimild til að útmæla prófasti Grími Pálssyni á Helgafelli „land til nýbýlis í eyðibyggðinni Baulárvöllum“. Hinn 7. júlí 1823 fór útmælingin fram og var hún framkvæmd af sýslumanninum Ólafi Guðmundssyni. Af efni útmælingar er ljóst að nærliggjandi bændur héldu uppi mótmælum gegn gerðinni.

Þær jarðir sem hagsmuna áttu að gæta voru flestar svokallaðar umboðsjarðir í eigu konungs. Ekki verður séð að fulltrúi eiganda hafi verið boðið að vera viðstaddur útmælinguna sem þýðir að fulltrúi flestra jarða á svæðinu var ekki viðstaddur útmælinguna. Allar götur síðan hafa verið uppi deildar meiningar um réttmæti hennar ekki síst vegna þess að umræddur Grímur Pálsson var einungis prófastur um tveggja ára skeið, þ.e. frá 1822 til 1824. Hann fluttist aldrei að Baulárvöllum. Heimildir herma að árið 1824 hafi hann flutt frá Helgafelli til Þingvalla í sömu sveit. Hann þurfti að segja sig frá prestskap 1936 vegna óánægju sóknarbarna sinna með embættisverk hans. Í íslenskum æviskrám segir að Grímur hafi verið mjög gefinn fyrir kaupskap og gróða. Grímur virðist fljótlega hafa farið að ráðstafa réttindum til Baulárvalla m.a. til Guðmundar Sumarliðasonar. Það var svo árið 1844 að að Grímur framseldi öll réttindi sín að Baulárvöllum til Arnfinns Arnfinnssonar sem bjó á Ytra-Lágafelli. Í nýbýlatilskipunni er skýrt kveðið á um það að þeir sem stofna nýbýli verða að sitja á býlinu og rækta það og sinna með búsetu sem ekki var gert þegar Grímur stofnaði býlið Baulárvelli.

Sóknarnefnd Stykkishólmskirkju telur sig vera eiganda Baulárvalla samkvæmt afsali útgefnu 9. september 1882, en jörðin hafi verið gjöf Egils Sveinbjörns Egilssonar til kirkjunnar. Segja má að þetta hafi verið einhverskonar leið út úr þeim deilum sem alla tíð voru um stofnun býlisins og hafa raunar verið til dagsins í dag.

Allar götur síðan hefur verið vitað af þessum deilum en sátt, að því maður taldi, um nýtingu á svæðinu. Hef ég t.d. smalað sunnanvert við vötnin síðan ég var 13 ára og verið fjallkóngur síðan upp úr árinu 1990 og þar með borið ábyrgð á smölun sunnanvert við vötnin. Það var svo 2003 að farið var að undirbúa virkjun á svæðinu með öllu því opna ferli sem tíðkast í slíkum verkefnum, var ég einn af þeim sem það gerðu og á ég nú einn virkjunina. Minn tilgangur með þessu verkefni var að styðja við mína búsetu á Hofsstöðum í Eyja- og Miklaholtshreppi en þar er ég alinn upp og hef verið með sauðfjárbúskap á minni könnu síðan árið 1994. Hef ég því alla tíð verið með umsjón og nýtt svæðið til að stuðla og styrkja mína búsetu að Hofsstöðum.

Það var svo árið 2015 að sóknarnefnd Stykkishólmskirkju lagði upp í ákveðna vegferð með að fara í staðfestingamál vegna landamerkja Baulárvalla. Í ferlinu varð snemma ljóst að sú starfsemi sem ég var með til fjalla var sóknarnefnd til ama allt í einu en hafði ég nú ekkert verið að fela það á árum áður hvað verið var að gera. Við bentum sóknarnefnd strax á að útmælingin 1823 hafi ekki verið gerð með réttum hætti og margs konar aðra ágalla á málinu. Málið var tekið fyrir í héraðsdómi síðasta sumar og tapaði sóknarnefnd málinu vegna jarðanna Horns og Selvalla enda skrifuðu fulltrúar sóknarnefndar undir landamerkjabréf þessara jarða árið 1889. Sóknarnefnd áfrýjaði þeirri niðurstöðu ekki til Landsréttar en ætlaði sér hins vegar að gagnstefna en virðist ekki hafa áttað sig á að þegar ekki er áfrýjað gengur ekki að gagnstefna. Vann sóknarnefnd málið gagnvart öðrum landeigendum sem eru 5 talsins sem áfrýjuðu málinu til Landsréttar en ég á 2 af þeim 5 jörðum.

Landsréttur ákvað að vera með sérstaka yfirferð á formsatriðum málsins og kom úrskurður réttarins 3. maí 2024 og þar var staðfest að málinu gagnvart Horni og Selvöllum er lokið en öðru var vísað frá dómi vegna mikilla ágalla á málinu frá hendi sóknarnefndar.

Sóknarnefnd ákvað síðan að skjóta úrskurði Landsréttar til Hæstaréttar sem dæmdi í málinu 19. júní 2024. Hæstiréttur telur að Landsréttur eigi að taka málið til efnislegrar meðferðar og fellir því úrskurð Landsréttar úr gildi. Hins vegar staðfestir Hæstiréttur endanlega að málinu sé lokið gagnvart Horni og Selvöllum og kirkjan eigi að greiða dæmdan málskostnað í héraði.

Eins og áður sagði hóf sóknarnefnd þessa vegferð 2015 og hefur haldið henni til streitu þrátt fyrir að við eigendur jarða á svæðinu höfum bent á marga ágalla á málinu. Myndi ég áætla að sóknarnefndin væri búin að eyða milli 10-20 milljónum í þessa vegferð vitandi af þeim miklu ágöllum sem voru á málinu við stofnun 1823. Hvað gengur sóknarnefnd til er erfitt að átta sig á en varla er það fyrir umhyggju fyrir okkur þeim sem eru að nýta þetta svæði til að styrkja okkar búsetu í dreifbýli sem oft á tíðum er full þörf á. Hvaðan sóknarnefnd hefur fengið fjármagnið til að standa straum af þessari vegferð veit ég ekki en væntanlega ekki greitt úr eigin vasa sóknarnefndarfólks en það höfum við landeigendur sem tóku til varna þurft að gera og telur slíkt eðlilega.

Eins og við þekkjum búnaðist kirkjunnar fólki fyrri alda oft vel á almúganum þannig að vart var þeim sómi að sem það gerðu oft á tíðum. Þessi vinnubrögð virðist sóknarnefnd Stykkishólmskirkju taka sér til fyrirmyndar í staðinn fyrir að viðurkenna að rangt hafi verið staðið að stofnun útmælingar 1823 og fara frekar í vegferð sanngirni og láta gott heita og virða þannig rétt landeigenda á svæðinu.

Það er að vísu þannig að þegar uppi er ágreiningur er eðlilegt að leita til dómstóla með úrlausn á slíkum málum. Það er hins vegar umhugsunarefni að sóknarnefnd sem sækir sitt umboð til sóknarbarna hverrar sóknar gangi þennan veg miðað við hvernig stofnað var til 1823, eyði umtalsverðum fjármunum til að halda málinu gangandi og við landeigendur sem í mínu tilfelli er að nýta mínar jarðir til þess að geta verið með búsetu að Hofsstöðum þarf að eyða talsverðum fjármagni úr eigin vösum til að taka til varna. Slík framkoma vekur alltaf upp spurningar um hvert hlutverk kirkjunnar fólks er en þekkt hefur verið gegnum tíðina að kirkjur og sóknarnefndir sæki hart að eiga meira en góðu hófi gegnir og eyða í það miklu fjármagni. Er svo sem ekki að væla yfir að þurfa að taka á móti en óneitanlega leiðir maður hugann að því til hvert sé hlutverk þjóðkirkjunnar. Hvernig vinnur hennar umhverfi, er hún að vinna að sanngirni og hófsemi eða eftir forskrift fyrri alda í þeim efnum? Einnig er eftirtektarvert að miðað við fréttir í vetur af rekstri í umhverfi kirkjunnar að sóknarnefndin hafi þetta miklu fjármagni úr að moða til að geta staðið fyrir deilum sem slíkum sem gera ekkert annað en ganga á rétt landeigenda eins og ég hef rakið.

Nú verður málið væntanlega tekið aftur fyrir í Landsrétt seint í haust með áframhaldandi kostnaði fyrir báða aðila.

Að sjálfsögðu höldum við landeigendur áfram að gæta okkar hagsmuna í málinu og tökum til áframhaldandi varna gerist þörf á því enda í mínu tilfelli grundvöllur fyrir minni búsetu á svæðinu að ég geti áfram nýtt mér svæðið til sauðfjárræktar sem og raforkuframleiðslu.

 

Eggert Kjartansson

Höf. er sauðfjár- og raforkubóndi á Hofsstöðum í Eyja- og Miklaholtshreppi

Baulárvallavatn. Ljósm. úr safni: Mats Wibe Lund