Bárujárn, tjörudúkur eða torf, lekur allt á Íslandi?

Geir Konráð Theódórsson

Hlíðartúnshúsin í Borgarnesi.

Það var fyrir nokkru að ég var í stórhættulegum labbitúr innanbæjar. Líkt og vanalega var þetta sjálfsköpuð hætta vegna þess að ég var heltekinn af snjallsímanum, með fréttahljóðvarp í eyrunum og augun á athugasemdum á einhverjum samfélagsmiðli. Ég var svo niðursokkinn í þetta að þó að trukkur með lúðrasveit spilandi á pallinum hefði ekið upp á gangstétt og í átt að mér þá hefði ég ekki tekið eftir neinu. Ég bara las og las, og hlustaði og hlustaði, þessar fréttir af vandræðagangi í íslenskum byggingariðnaði voru bara eitthvað svo skelfilega heillandi.

Þegar ég loksins leit upp þá var ég staddur fyrir framan Hlíðartúnshúsin, torfbæinn sem leynist í miðjunni á Borgarnesi, og mér varð hugsað til þess hve magnað það er að svona hafi húsakynni okkar verið hér á landi fyrir ekki svo löngu síðan. Á kvöldin hef ég verið að lesa mér til um gamla tíma fyrir listrænt verkefni sem ég er að vinna að, og því var mér það ferskt í minni að þó torfhúsin og baðstofurnar virðast oft voða kósí og krúttleg fyrir okkur í dag, þá var í raun frekar ömurlegt að búa undir torfinu.

„Bærinn var nokkuð stór og vel byggður. Þar var búið tvíbýli, um 12-15 manns. Baðstofan var stór og var þiljuð að innan og þar sváfu allir nema hjónin, þau sváfu í herbergi þar innan við sem var nokkuð stórt. […] Upphitun olli vandræðum í torfbæjum. Þeir betri voru með mjög þykkum veggjum og á vetrum gegnfrusu þeir og þegar hlýnaði að vorlagi tók mjög langan tíma að hitna í gegn því hélst kuldinn fram á sumar. Gler var einfalt og hélaði. Þrifnaður var misjafn. Sumstaðar var mikill sóðaskapur. Á bænum sem ég var á var var mikill þrifnaður. Sumsstaðar voru byggð framhús við torfbæina úr timbri, óeinangruð og héldu hvorki vatni né vindi en þótti fínt. Menn kunnu ekki að byggja timburhús þá. Voru þessi framhús undanfari timburhúsanna sem leystu torfbæina af hólmi. […] Moldargólf var allsstaðar á bænum nema í baðstofunni og í hjónaherberginu. Búrið var klætt að innan með gömlum dagblöðum og var nokkuð stórt. En mikil mygla var á veggjum og gólfi og raki og kuldi innandyra. Á þessum bæ var svokölluð framhús sem var gestastofa þiljuð. Í henni var alltaf skítkalt.“

Svona lýsir Friðrik Stefánsson, í viðtali við Rakeli Jónasardóttur árið 2003, minningu sinni frá því hann var barn og bjó á torfbænum Miklagarði í Saurbæjarhreppi í kringum 1930. Þetta hljómar illa á fyrri hluta síðustu aldar, en það þarf ekki að fara svo langt aftur í tímann hérna á Íslandi til að komast á þá tíma þegar fólk bjó við bókstaflega hinn versta húsakost. „I can not conceive of more wretched abodes for human beings,“ skrifar írski ferðabókahöfundurinn John Ross Browne eftir að hann heimsótti prestsbústaðinn á Þingvöllum um 1860. Eftirfarandi er þýðing af vefsíðu Magnúsar Sigurðssonar úr ferðabók Browne:

„Þessi litlu ömurlegu hreysi eru í sannleika furðuleg. Þau eru fimmtán fet á hæð og er hrúgað saman án nokkurs tillits til breiddar og lengdar og minna helst á fjárhóp í hríðarveðri. Sum þeirra hafa glugga á þakinu, og önnur reykháfa. Þau eru öll vaxin grasi og illgresi, og göng og rangalar liggi í gegnum þau og milli þeirra. Neðst eru kofarnir hlaðnir úr grjóti, og tveir kofar hafa bæjarburst úr svartmáluðum borðum, en hinu er öllu saman tildrað upp úr torfi og allra handar rusli og minnir einna helst á storkshreiður.

Þegar inn kemur í þessi undarlegu híbýli, er umhverfið jafnvel enn þá furðulegra en úti fyrir. Þegar maður er kominn inn fyrir dyrnar á einu hreysinu, sem eru svo lágar og hrörlegar, að vart er hægt að hugsa sér, að þær séu aðalinngangur, er fyrir langur dimmur, gangur með steinveggjum og moldarþaki. Gangurinn er í laginu eins og hann hafi verið byggður ofan á slóð blindrar kyrkislöngu.

Úr ganginum, sem er ýmist breiður eða þröngur, beinn eða boginn, liggja svo dyr inn í hin ýmsu herbergi. Besta herbergið, eða húsið, því hvert herbergi er einskonar hús, er ætlað gestum. Í öðru húsi býr fjölskylda prestsins í einni kös eins og kanínur. Eldhúsið er einnig notað sem hundaherbergi og stundum sem fjárhús. […] Gólfið er ekki annað en sjálfur hraunflöturinn, en ofan á hann hefur myndast hart lag úr skólpi og allra handa úrgangi. Reykur fyllir loftið, sem þegar er spillt af óþef, og allt innan húss, bitar, stoðir og tíningur af húsgögnum, er gagnþrungið af þykku fúlu loftinu.“

Ég endurtek að þetta er PRESTSBÚSTAÐURINN. Þetta er ekki eitthvað afdalakot með fátæklingum og niðursetningum, nei þessi maður sem ferðast hafði vítt um heiminn tók svona til orða við að upplifa heimili hjá efristéttarfólki á Íslandi, að hann gæti ekki hugsað sér aumlegri bústaði fyrir manneskjur en íslensku torfbæina. Reynum bara þá að ímynda okkur heimilin hjá fátæka fólkinu á þessum tíma. Þessi ferðabók er satt að segja svo mögnuð innsýn í Ísland fyrri tíma að ég hvet sem flesta bara til að lesa hana. Með því að fara inn á eftirfarandi slóð má nálgast frítt stafrænt eintak af bókinni: www.tinyurl.com/LandOfThor

Ísland var á þessum tímum eitt fátækasta ríki í heimi, illa farin nýlenda þar sem almenningur var enn í þrældómi vistarbandsins, og því alveg skiljanlegt að byggingar þess tíma hafi verið lélegar. Ísland í dag er allt öðruvísi, jökulfljótin sem hömluðu för forfeðranna hafa verið brúuð og virkjuð, við erum hætt að brenna taði og spreki og hlýjum okkur frekar með beintengingu við hitann úr iðrum jarðar – og þegar hraun fer að flæða mæta engir eldklerkar með krossa heldur frekar snjallsímakynslóð með steikarpönnu. Ísland er í toppsætum á hinum og þessum listum hjá alþjóðastofnunum þegar kemur að friðsæld, menntun, lífsgæðum og tækni – allt virðist hér vera gott og blessað, nema að hér er enn ekki hægt að byggja almennilegt hús!

Hvernig myndi Browne nútímans lýsa höfuðstöðvum Orkuveitu Reykjavíkur í dag? Hús sem byggt var 2003 en er núna nánast ónýtt vegna raka, myglu og leka? Af hverju er hægt  að skjóta upp geimflaug frá Íslandi en ekki byggja hús sem heldur vatni?

Jú jú, ég er kannski að ýkja og alhæfa, en erum við ekki alltaf að heyra sömu söguna um húsin á Íslandi? Í samræðum í heita pottinum, í stafrænu fermingaveislunni á Zoom eða eins og ég þarna með hljóðvarpið beint í eyrunum, sögurnar bergmálandi í enn einni fréttinni?

Þakið lekur, rakaskemmdir, mygla, slæmur frágangur, hönnun stenst ekki íslenskar aðstæður, fasteignagallar, handverk óvandað, ekki næst í byggingastjórann, gluggar óþéttir, ekki næst í byggingafulltrúann, kærur, kennitöluflakk, astmi, heilsutjón, húsið verður að vera rifið…

Þessi labbitúr hjá mér breyttist, ég setti símann í vasann og tók heyrnartólin úr eyrunum. Ég gekk frá torfbænum, af túninu og yfir á malbikið og steypuna – ég virti fyrir mér allar þessar nútímabyggingar í kringum mig. Ég svo sem veit að það hafa verið vandamál í byggingariðnaði hér á landi, en ég hafði aldrei hugsað sérstaklega um hversu nálægt okkar daglega lífi hérna á Vesturlandi þessi vandamál eru í raun og veru, og ég varð forvitinn. Síðustu vikur hef ég markvisst verið að skoða hús í einkaeigu og opinberar byggingar. Ég hef verið að ræða við arkitekta, pólitíkusa, lögfræðinga og iðnaðarmenn – og það ætti ekki að koma neinum meðalmanni á Íslandi á óvart að þegar spurt var um ábyrgð voru allir auðvitað blásaklausir og snöggir að kenna einhverjum öðrum um vandamálin.

Í næsta pistli mun ég ræða um þá bölvuðu áráttu sem skýtur reglulega upp kollinum hér á landi, að byggja hús með flötu þaki, og við munum kanna hvort hægt sé að réttlæta það að öll verk arkitekta séu höfundarréttavarin – en glæsileg verk pípara, rafvirkja og verkfræðinga  séu það hins vegar ekki.

 

Geir Konráð Theódórsson.