Barnsminni

Finnbogi Rögnvaldsson

Undanfarið hefur eldgos ógnað byggð í Grindavík. Aurflóð og snjóflóð hafa fallið á vegi og byggð ból, bæði fyrir austan og vestan. Hlaup koma reglulega í ár sem flæða þá yfir allar koppagrundir og tjón verður reglulega á jarðskjálftasvæðunum á Suðurlandi og á Tjörnesbrotabeltinu fyrir norðan. Það ætti því að vera forgangsatriði þeirra sem skipuleggja byggð og samgöngumannvirki að haga skipulaginu þannig að sem minnstar líkur verði á að tjón hljótist af náttúruhamförum. Sérlega þar sem þekking okkar á umhverfinu vex með auknum rannsóknum og bættri tækni til að fylgjast með náttúrunni og sífellt meiri vinna er lögð í skipulagsgerð hverskonar.

Básendaflóðið

Margt er manni í bernskuminni enda bar ýmislegt við hér í den eins og gengur. Þó ég ætli ekki að þykjast muna Básendaflóðið 1799 man ég þó að það bar oft á góma þegar ég var krakki vestur í Staðarsveit enda gekk mikið á þegar ósköpin dundu þar yfir. Sjór gekk þá meira en kílómetra á land upp við ósa Staðarár og Björnsár. Þegar flóðinu slotaði hafði sjór rofið skörð í jarðvegsþekjuna við ströndina. Vatnsflóinn í Staðará varð til í þessu flóði og Björnsá færðist úr farvegi sínu og rennur nú til sjávar mun austar en áður var. Enn sér þessa flóðs stað ofan við Vatnsflóann.

Í sama flóði varð tjón á bátum og húsum víða við suðvestur- og vestur ströndina. Sjór gekk yfir Seltjarnarnes við Lambastaði. Í Borgarfjarðar- og Mýrasýslum skemmdust eða eyðilögðust um 50 bátar. Til eru lýsingar á glímu Akurnesinga við flóðið sem braut hús á Breið.

Íþróttahús á landfyllingu

Nú virðist sveitarstjórn Borgarbyggðar hafa einsett sér að láta byggja hús fyrir tvo milljarða á lágri landfyllingu í utanverðum Borgarvogi. Í miklu brimi þegar sjór gengur á land eru setlög það sem skolast til, sjávarrof verður sjaldnast með svo miklum ósköpum að berglög láti undan. Þó getur það gerst þar sem strönd er fyrir opnu hafi. Hér er vissulega vörn í grynningum í Borgarfirði og djúpum firðinum. Engu að síður er djarft teflt að byggja á þessum stað þar sem landleysi er sýnilega ekki yfirþyrmandi í sveitarfélaginu.

Auðvitað má segja að menn hafi ekki vítin til að varast þar sem engin íþróttahús hafa farið í sjóinn á Íslandi svo vitað sé, bara fokið. Þó verð ég að viðurkenna að mér finnst með miklum ólíkindum hvað menn eiga erfitt með að horfa til baka og skoða hvar læra megi af sögunni. Vonandi er það ekki um seinan í þessu tilviki.

 

Finnbogi Rögnvaldsson