Barnó 2025 er lokið!

Sigursteinn Sigurðsson

Þann 14. nóvember síðastliðinn lauk formlega Barnó – Best Mest Vest! – Barnamenningarhátíð Vesturlands. Þetta er í fyrsta skipti sem barnamenningarhátíð er haldin samtímis um allt Vesturland. Þannig fylgdum við fordæmum svipaðra hátíða í öðrum landshlutum, en á Vestfjörðum er Púkinn og á Austurlandi er Bras. Barnó er eitt af áhersluverkefnum Sóknaráætlunnar Vesturlands og var einnig stutt rausnarlega með styrk úr Barnamenningarsjóði Íslands.

Hátíðin gekk vonum framar og vonandi hefur börnum á öllum aldri gefist tækifæri til að njóta menningarefnis að þeirra smekk, en fjölmargir viðburðir fóru fram um allan landshlutann frá byrjun október. Til dæmis má nefna fjölbreyttar listasmiðjur í Þorpinu á Akranesi, Húlladúllan bæði sýndi listir sínar og kenndi réttu handbrögðin við að skapa húllahringi, Handbendi frá Hvammstanga var með tröllasmiðjur, hrekkjavökusund í sundlauginni í Ólafsvík í boði Svæðisgarðsins Snæfellsness, Taktur og texti tónsmiðja í Grundarfirði, Þykjó dúkkulísusmiðjur í Borgarnesi og Akranesi, viðburðir fyrir grunnskólana í Borgarfirði og Hvalfjarðarsveit í Landbúnaðarsafni Íslands, Shówmenn, glæný sýning sirkuslistahópsins Hringleiks, hestafimleikar í Dölum, listasmiðja í Amtsbókasafninu í Stykkishólmi, sundlaugardiskó í Borgarnesi og svona má lengi telja.

Markmið Barnó er að börn skapi, njóti og taki þátt í listviðburðum í sinni heimabyggð. Önnur markmið hátíðarinnar eru að hátíðin sé hvatning fyrir listafólk og menningarstofnanir í landshlutanum að sýna barnamenningu aukna athygli. Það tókst svo um munar og er ljóst að á Vesturlandi er mikill mannauður og afar frjór jarðvegur til listsköpunar. Verkefnastjórar menningarmála hjá sveitarfélögunum í landshlutanum voru sérstakir tengiliðir Barnó og var það samstarf til mikills sóma. Er þeim færðar sérstakar þakkir fyrir gott og farsælt samstarf.

Metnaður var lagður í gæði viðburðanna sem voru á Barnó enda er markhópurinn – þau yngstu sem búa á Vesturlandi okkar besta og mikilvægasta fólk! Það var því ánægjulegt að sjá aðstandendur viðburðanna leggja alúð í listsköpunina og hugsa út fyrir boxið með það að markmiði að gleðja börnin og fylla þau innblæstri. Til að ná þeim markmiðum var sterkur bakhjarl í samstarfinu List fyrir alla, sem er verkefni á vegum menningar-, háskóla- og nýsköpunarráðuneytisins sem hefur það hlutverk að bjóða börnum gæða menningarstarf óháð bakgrunni, búsetu eða efnahag. Af gefnu tilefni bendi ég á heimasíðuna listfyriralla.is þar sem má sjá þau góðu verkefni sem standa til boða um allt land.

En til hvers barnamenning? Stutta og mjög einfaldaða svarið er til þess að auka heilbrigði samfélags. Það hefur sýnt sig að þátttaka barna í listum eykur samkennd, nýsköpun, styrkir sjálfsmynd, eflir félagslegan þroska, dregur úr einangrun og gerir börnin hamingjusamari. Fjárfesting í menningarstarfi barna er þannig grunnur að sterkari og (ný)skapandi samfélögum sem kemur jafnframt fram í aukinni verðmætasköpun. Það þarf því engan að undra að listir hafa ratað sem grein í Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna, en í 31. grein sáttmálans segir að; „aðildarríki skulu virða og efla rétt barns til að taka fullan þátt í menningar- og listalífi, og skulu stuðla að því að viðeigandi og jöfn tækifæri séu veitt til að stunda menningarlíf, listir og tómstundaiðju.“

Í tilefni að Barnó – Best Mest Vest var blásið til ráðstefnu í samstarfi SSV, Listar fyrir alla, Miðstöðvar barnamenningar og Akraneskaupstaðar. Ráðstefnan fór fram á Akranesi 13. nóvember síðastliðinn undir heitinu „Öll börn með“. Þar voru samankomnir lykilaðilar sem starfa að barnamenningu á Íslandi og var mikill kraftur í fundargestum. Eftirminnileg eru orð Vigdísar Jakobsdóttur frá miðstöð barnamenningar sem minntist á í erindi sínu að börnin séu ekki framtíðin – þau séu núna!

Á Vesturlandi eru fjölmargar stofnanir, listafólk og fyrirtæki sem sinna barnamenningu með einum eða öðrum hætti. Tónlistar- og listaskólanir eru þar afar mikilvægur hlekkur í virðiskeðjunni og hafa alið af sér fólk sem skipar sér í raðir fremstu listamanna þjóðarinnar – ef ekki heimsins. Af gefnu tilefni óska ég Tónlistarskóla Akraness innilega til hamingju með 70 ára afmælið! Það er mikilvægt nú sem aldrei fyrr að hlúa vel að grasrótinni í listum og skapa listafólki viðunandi starfsaðstæður um land allt.

En það er ekki síst við foreldrarnir sem eru mikilvæg í því að kynna börnin okkar fyrir fjölbreyttu menningarstarfi og í raun og veru erum við mörg þegar byrjuð. Að lesa fyrir börnin er augljóst dæmi – en líka að horfa á nærsamfélagið. Kíkja á söfnin eins og til dæmis Norska húsið í Stykkishólmi, Landbúnaðarsafnið á Hvanneyri eða Byggðasafnið í Görðum – fara á tónlistarhátíðirnar eins og Sátuna og Reykholtshátíð, heimsækja Landnámssetrið, Vatnasafnið, Sjóminjasafnið á Hellissandi eða Vínlandssetur í Búðardal! Eða einfaldlega að taka fram hvítt blað og liti og sjá hvernig nýr heimur sprettur fram.

Að lokum viljum við hjá SSV koma á framfæri innilegu þakklæti til þeirra sem tóku þátt í Barnó 2025 með einum eða öðrum hætti. Ykkar aðkoma var ómetanleg – en mest af öll þökkum við börnunum sem gerðu Barnó – Best Mest Vest að veruleika!

 

Sigursteinn Sigurðsson

Höf. er menningar- og velferðarfulltrúi SSV