Barnafjölskyldur í forgrunni

Þórður Guðjónsson

Málefni fjölskyldna með börn sem eru yngri en 6 ára hafa verið mikið í umræðunni á Akranesi á síðustu misserum og hefur umræðan þá að mestu snúið að börnum sem eru á svokölluðum dagforeldra aldri. Á þessu kjörtímabili hefur þjónusta til handa þessum börnum og foreldrum þeirra verið bætt. Á síðasta ári var gerður þríhliða samningur á milli foreldra, dagforeldra og Akraneskaupstaðar, með það fyrir augum að bæta þjónustu og auka framboð á dagvistunarúrræðum. Eftir tilkomu samningsins er yfirsýn á stöðu mála hjá dagforeldum og upplýsingagjöf til handa foreldrum nú mun betri en áður var. Samhliða þessu hefur niðurgreiðsla Akraneskaupstaðar vegna dvalar ungbarna hjá dagforeldum verið hækkuð úr 40 þúsund krónum í 55 þúsund á mánuði og í 63 þúsund fyrir fjölbura.

Á miðju sumri 2017 varð ófyrirséð brotthvarf úr hópi dagforeldra og var útlit fyrir að einhver börn fengju ekki pláss hjá dagforeldrum. Skóla- og frístundaráð vann hratt og örugglega að lausn á verkefninu í nánu samstarfi við foreldra, dagforeldra og leikskóla bæjarins.  Með samstilltu átaki voru málin leyst með farsælum hætti. Í þessum aðstæðum kom það enn og aftur í ljós hversu mikinn mannauð við eigum á leikskólum kaupstaðarins og hversu hæfir stjórnendur eru þar innanborðs. Samningurinn og yfirsýnin hefur jafnframt stuðlað að því að börn voru tekin inn á leikskóla í byrjun þessa árs en ekki eingöngu í ágúst eins og tíðkast hefur. Ennfremur er frábært að segja frá því að börnum sem fædd eru í janúar til maí 2017 hefur öllum verið boðið leikskólapláss nú í haust.

Við í Sjálfstæðisflokknum á Akranesi erum hvergi nærri hætt og ætlum að halda áfram að bæta þjónustu við fjölskyldur með ung börn á Akranesi. Við ætlum að tryggja dagvistunarúrræði að loknu foreldraorlofi. Í því samhengi erum við farin að huga að byggingu á nýjum leikskóla, með það að leiðarljósi að tryggja hið minnsta öllum tveggja ára börnum á Akranesi leikskólavist.

Höldum áfram að hugsa í lausnum, höldum áfram að gera góðan bæ enn betri.

 

Þórður Guðjónsson.

Höf. er formaður skóla- og frístunaráðs og er í 5. sæti á lista Sjálfstæðismanna í komandi sveitastjórnarkosningum.

 

 

 

Fleiri aðsendar greinar