Baráttujaxlinn í bæjarstjórn

Halldór Jónsson

Sumir þættir stjórnmálabaráttunnar fara ekki fram á hinum sýnilega pólitíska velli. Stór hagsmunamál geta verið lengi að þróast og um þau er oft tekist á enda miklir hagsmunir að veði.  Því er stundum hætta á því að stjórnmálamenn verði ekki metnir til fulls að verðleikum sínum.

Baráttujaxlinn Ólaf Adolfsson þarf ekki að kynna fyrir Skagamönnum eftir áratuga kynni þeirra af honum sem farsælum íþróttamanni og síðar sem baráttumanni fyrir jafnræði og lögmætum viðskiptaháttum.

Stjórnmálamanninum Ólafi  kynntust bæjarbúar hins vegar ekki fyrr en á líðandi kjörtímabili. Hann hefur leitt farsælan og vel mannaðan meirihluta bæjarstjórnar en einnig  staðið í stafni baráttunnar í mörgum stórum málum. Má þar nefna áframhaldandi uppbyggingu á Grundartanga, fjölbreyttara atvinnulífi á Akranesi, endurbætur í samgöngum og síðast en ekki síst samningum við ríkisvaldið um uppgjör lífeyrisskuldbindinga Akraneskaupstaðar. Ég veit að keppnismaðurinn Ólafur hefði viljað sjá skjótari árangur í atvinnu- og samgöngumálum og þar bíða áframhaldandi verkefni. Niðurstaðan í uppgjöri lífeyrisskuldbindinga er afar hagfelld bæjarfélaginu og leggur grunninn að stóraukinni sókn bæjarfélagsins til betra mannlífs á næstu árum.

Á laugardaginn gefst kjósendum á Akranesi kostur á því að framlengja ráðningarsamninginn við Ólaf um fjögur ár, svo  notuð sé alþekkt samlíking úr íþróttunum.  Við þurfum enda á þrautseigju og stefnufestu hans að halda. Til þess að svo verði þarf hann að hljóta kosningu sem fjórði maður á lista Sjálfstæðisflokksins.

Ég trúi því að svo verði, okkar allra vegna.

 

Halldór Jónsson

Fleiri aðsendar greinar