Baráttan fyrir Sundabraut

Bergþór Ólason

Síðan samgönguáætlun var samþykkt í liðinni viku hef ég verið spurður út í það til hvers Miðflokkurinn stóð í þeim slag sem snérist um Borgarlínu-þátt samgönguáætlunar og tengdra mála. Hvert var markmiðið?

Í stuttu máli, þá var samningurinn sem undirritaður var þann 26.9.2019, svokallaður „Samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins“ svo illa útfærður hvað nokkra þætti varðar að svo virtist sem samgönguráðherra hefði verið rað-plataður í samskiptum sínum við borgarstjóra.

Það er afrek í sjálfu sér að ramma inn framkvæmdir upp á 120 milljarða – 120 þúsund milljónir! – án þess að tryggð sé heimild til framkvæmda við ein einustu mislæg gatnamót, þar sem slík lausn gæti tryggt verulega bætt umferðarflæði.

Það er afrek að ganga frá samkomulagi sem þessu án þess að tryggt sé að nútímavæðing ljósastýringa sé í algerum forgangi, enda mat sérfræðinga að biðtími á ljósum geti styst um 30-40% við slíka uppfærslu.

Það er sömuleiðis afrek hjá ráðherra að ramma inn samkomulag sem þetta, til 15 ára, án þess að málefni Sundabrautar séu rækilega afmörkuð og sett í farveg hvað skipulagsmál og heimildir til framkvæmda varðar.

Í framhaldsnefndaráliti við lög um stofnun opinbers hlutafélags um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu, sem voru viðbrögð við Borgarlínu-baráttu Miðflokksins á Alþingi, eru reistar girðingar til varnar ríkissjóði þannig að ekki verði opinn krani þaðan inn í verkefnið og jafnframt er uppfærsla ljósastýringa sett í algeran forgang.

Það sem mestu skiptir þó fyrir okkur Vestlendinga og þá sem koma enn lengra að, er að skipulagsmál Sundabrautar eru tengd við svokallaðan Sæbrautarstokk, sem er eitt af fyrstu verkefnum Borgarlínuhluta sáttmálans. Meirihluti borgarstjórnar stendur því frammi fyrir þeirri stöðu að verða að sleppa Sundabraut úr þeirri gíslingu sem hún hefur verið í kjörtímabilum saman.  Staðan er: Engin Sundabraut = Engin Borgarlína!

Þrátt fyrir að margt mikilvægt hafi áunnist í þeim viðræðum sem áttu sér stað, fleira en ég hef nefnt hér að ofan, þá tel ég mikilvægasta atriðið að Sundabrautin losni loksins úr skipulagslegri gíslingu Reykjavíkurborgar. Eins og segir í framhaldsnefndarálitinu: „Við útfærslu verkefna framkvæmdaáætlunarinnar verði sérstaklega hugað að greiðri tengingu aðliggjandi stofnbrauta, svo sem Sundabrautar, inn á stofnbrautir höfuðborgarsvæðisins. Hvað tengingu við Sundabraut varðar þarf að vinna skipulag hennar og Sæbrautarstokks í samhengi, enda má líta á Sæbrautarstokk sem fyrsta áfanga Sundabrautar.“

Þessi nálgun færir Vegagerðinni, samgönguráðuneyti og eftir atvikum fjármálaráðherra verkfæri til að tryggja forsvaranlegan frágang málefna Sundabrautar, mislægra gatnamóta, ljósastýringa og fleiri þátta, enda stendur í framhaldsnefndarálitinu: „Nauðsynlegt er að hafa það í huga að heildarsamkomulagið verður því að ganga upp til að markmið samkomulagsins náist.“ Þetta þýðir í raun að skipulagsyfirvöld á höfuðborgarsvæðinu geta ekki valið úr verkefni sem eru þeim þóknanleg, heldur þurfi heildarsýnin að ganga upp.  Hættan var sú að verkefni Borgarlínu hefðu mun hraðari framgang en uppbygging stofnbrautakerfisins, sem er annar þáttur samgöngusáttmálans.

Það var því til einhvers barist!

 

Bergþór Ólason

Höf. er þingmaður Miðflokksins í NV kjördæmi