Bara ef það hentar mér?

Aníta Eir Einarsdóttir og Liv Åse Skarstad

Undanfarin ár hefur Akraneskaupstaður ítrekað talað fyrir mikilvægi samvinnu, heildar sýnar og lausnamiðaðrar nálgunar í velferðarmálum. Í því ljósi vekur það bæði undrun og áhyggjur að meirihluti velferðar- og mannréttindaráðs, Einar Brandsson og Kristinn Hallur Sveinsson, hafi hafnað undirritun viljayfirlýsingar um samstarf sveitarfélaga á Vesturlandi og Þroskahjálpar á Vesturlandi, um uppbyggingu skammtímadvalar.

Viljayfirlýsing er ekki skuldbindandi samningur heldur yfirlýsing um vilja til samráðs, sameiginlegrar greiningar og áframhaldandi vinnu. Sú staðsetning sem lögð hefur verið til í ferlinu getur jafnframt komið skjólstæðingum Akraneskaupstaðar vel og styrkt þjónustu við þá hópa sem þurfa á skammtímadvöl að halda, án þess að það útiloki uppbyggingu sambærilegs úrræðis á Akranesi síðar, hvort sem er samhliða eða í framhaldi af svæðisbundnu samstarfi. Sameiginleg uppbygging skammtímadvalar býður upp á marga kosti, þar á meðal styrkara faglegt bakland, betri nýtingu á sérhæfðu fagfólki og fleiri og sveigjanlegri þjónustuleiðir fyrir fólk með ólíkar þarfir. Þetta snýst ekki um að fórna þjónustu á Akranesi, heldur um að bæta við valkostum og tryggja að þjónustan þróist í takt við raunverulegar þarfir skjólstæðinga, og teljum við því þetta vera stórt og mikilvægt tækifæri.

Það er einföld staðreynd að við getum ekki ætlast til þess að hafa áhrif á niðurstöðu ferlis sem við kjósum að standa utan við. Þátttaka hefst ekki þegar allt er komið í fastar skorður, heldur þegar forsendur eru mótaðar. Að hafna viljayfirlýsingu er því ekki hlutlaus ákvörðun, heldur meðvituð ákvörðun um að draga sig út úr samtalinu.

Í þessu samhengi skýtur þó ákveðin þversögn skýrt upp kollinum. Á sama tíma og Akraneskaupstaður ræðir opinberlega kosti samstarfs eða jafnvel sameiningar við Hvalfjarðarsveit, er hafnað samstarfi við sveitarfélögin á Vesturlandi. Ekki vegna efnislegrar andstöðu við verkefnið, heldur vegna þess að fyrirhuguð staðsetning hugnast ekki meirihluta velferðarráðs, að svo stöddu. Sú afstaða er ekki aðeins ósamræmanleg, heldur sendir hún óheppileg skilaboð um vilja okkar til samstarfs.

Samstarf byggist á trausti, þátttöku og gagnkvæmri ábyrgð. Það er ekki til þess fallið að efla samstarfsvilja annarra sveitarfélaga að Akranes taki þátt í umræðum þegar þær henta, en stígi til hliðar þegar forsendur eru ekki fullmótaðar að okkar skapi.

Mikilvægt er að árétta að undirritun viljayfirlýsingar hefði ekki lokað neinum dyrum fyrir uppbyggingu skammtímadvalar á Akranesi. Eitt útilokar ekki annað. Þvert á móti hefði hún styrkt stöðu Akraness í ferlinu og tryggt að sjónarmið bæjarins væru hluti af heildarmyndinni.

Ef Akraneskaupstaður ætlar að vera virkur þátttakandi í mótun velferðarþjónustu á Vesturlandi, þarf hann að mæta í samráðið. Samstarf hefst ekki með fyrirvara, heldur með þátttöku.

 

Aníta Eir Einarsdóttir og Liv Åse Skarstad

Höf. eru fulltrúar Framsóknar og frjálsra í velferðar- og mannréttindaráði Akraneskaupstaðar