Bætum innviðina

Sigurjón Helgason

Stöðugt er verið að hagræða í landbúnaði og tækninni flýgur fram. Mikil uppbygging hefur orðið í mjólkurframleiðslu í Borgarbyggð á undanförnum árum. Samhliða slíkri uppbyggingu er mikilvægt að rekstraröryggi sé tryggt. Allur nútíma rafbúnaður í landbúnaði er gerður fyrir þriggja fasa rafmagn til að mynda mjaltatæki, fóðurkerfi og haughrærur. Þriggja fasa rafmagn er því einn af grunnþáttunum sem veitir meira rekstrar- og afhendingaröryggi. Bændur sem hafa ekki aðgang að þriggja fasa rafmagni verða að taka á sig auka kostnað til þess að geta notað þessi tæki sem felst m.a. í því að fjárfesta í tíðnibreytum við rafmótora sem gerir það að verkum að þeir endast mun skemur. Það má því segja að staðan eins og hún er í dag, þar sem víðs vegar er vöntun á þriggja fasa rafmagni í sveitarfélaginu, hafi hamlandi áhrif á atvinnuuppbyggingu á svæðinu og skerði atvinnumöguleika fyrirtækja í dreifbýlinu. Rarik hefur gefið það út að lagning þriggja fasa rafmagns á Mýrunum sem dæmi sé ekki í farvatninu fyrr en árið 2025 í fyrsta lagi. Við þurfum að beita okkur fyrir því að hraðað verði lagningu þriggja fasa rafmagns sem allra fyrst í öllu sveitarfélaginu svo íbúar sitji við sama borð og aðrir en ekki mismunað út frá búsetu.

Annað mikilvægt búsetuskilyrði er góður netaðgangur. Því er algert forgangsmál að klára að ljósleiðaravæða allt sveitarfélagið sem fyrst. Leggjum við upp með að því verki verði lokið ekki seinna en árið 2020. Þá skal þrýsta á að sú vinna verði nýtt til að flýta lagningu þriggja fasa rafmagns með öllum mögulegum leiðum og þar með styrkja grunninn að atvinnustarfssemi í dreifbýli. Eiginfjárstaða Rarik er sterk og full ástæða til að hvetja ríkisvaldið í að beita sér fyrir lagningu þriggja fasa rafmagns um landið allt í þeim anda sem ljósleiðaraverkefnið, Ísland ljóstengt, starfaði.

Malarvegir í sveitarfélaginu eru margir og misgóðir. Við þurfum að leggja mikla áherslu á uppbyggingu og lagningu slitlags á vegi. Bú fara stækkandi og með aukinni framleiðslugetu eykst líka þungaflutningur á svæðinu þ.e. á mjólk, fóðri og áburði. Bættar samgöngur auka búsetuskilyrði og hafa jákvæða þróun á atvinnuuppbyggingu og ferðaþjónustu. Við Sjálfæðismenn munum auka samtal og samstarf við þingmenn kjördæmisins og markvisst leita leiða til að flýta uppbyggingu á vegum í sveitarfélaginu. Sækjum fram með nýja hugsun og nýja nálgun.

Við viljum gera þjónustukönnun á tómstundaakstur úr dreifbýli og bæta þannig að hann henti notendum sem best. Einnig þarf að finna aðstöðu fyrir börn sem ekki hafa stað á meðan þau eru að bíða eftir tómstundum. Þetta á við hvort sem beðið er eftir íþróttaæfingu, öðrum tómstundum eða heimferðinni. Í þessu samhengi má m.a. skoða það að samnýta skólabíla fyrir menntaskóla og grunnskóla og ná þannig yfir alla sem á þjónustunni þurfa að halda. Sú tilhögun hvetur mögulega framhaldsskólanemendur til að sækja sér menntun í heimabyggð og búa lengur heima. Með þessu næst mikill ávinningurinn og við gerum lífið betra.

Sigurjón Helgason

Höf. skipar 5. sæti á lista Sjálfstæðismanna í Borgarbyggð.

Fleiri aðsendar greinar