Bætum búsetuskilyrðin í dreifbýlinu

Kristján og Sigurjón

Lengi hefur verið stundaður öflugur landbúnaður í Borgarbyggð þó svo á seinni árum hafi hann breyst mikið, búin hafa stækkað og þeim fækkað. Með breyttri heimsmynd á síðustu árum og vikum, eiga klárlega eftir að verða enn meiri breytingar t.d. meiri krafa um sjálfbærni þ.e.a.s með aukinni framleiðslu á korni, höfrum, repju, grænmeti og ávöxtum. Með öllum þeim jarðgæðum (hita og landi) sem í sveitarfélaginu er þá eru mörg tækifæri á þessum sviðum.

Áhugi ungs fólks á því að flytja aftur heim eftir nám hefur aukist, þetta fólk sækir síðan vinnu annað. Til þess að við getum boðið þessu fólki að grípa öll þau tækifæri sem dreifbýlið býður upp á þurfa innviðir samfélagsins að vera í lagi og þjónustan að vera þar sem hennar er þörf.

Góðir grunn- og leikskólar eru lykillinn að því að barnafjölskyldur sækist eftir að flytja í sveitarfélagið okkar. Við erum mjög lánsöm að vera með mjög hátt menntunarstig kennara sem kenna við okkar skóla, bæði á grunn- og leikskólastigi en þar megum við hvergi slaka á. Á síðasta kjörtímabili hefur verið framkvæmt mikið við skólabyggingarnar, bæði byggt nýtt og bætt við. Þar erum við á réttri leið og ætlum okkur að halda því áfram á næstu árum. Þetta er gríðarlega mikilvægt til þess að bæði nemendum og starfsfólki líði vel í leik og starfi. Einnig eru tómstundir barna og unglinga mikilvægur þáttur og hefur sveitarfélagið í samstarfi við Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og Menntaskóla Borgarfjarðar gert samning við strætó um tómstundaakstur í Borgarfjarðarhéraði sem tryggir mjög bætta þjónustu við þá sem þar búa. Annars staðar í sveitarfélaginu er unnið að lausnum til þess að koma til móts við börn og foreldra. Við í Sjálfstæðisflokknum viljum gera þeim foreldrum sem þurfa að keyra börn sín i tómstundir langt að og geta ekki nýtt tómstundaakstur, kost á því að sækja um fjárstyrk til sveitarfélagsins. Er þetta gert til að jafna stöðu og aðgengi barna sveitarfélagsins að íþrótta- og tómstundastarfi.

Í mörgum verkefnum sem þarf að keyra áfram í dreifbýlinu hefur sveitarfélagið ekki öll spil á hendi og því er mikilvægt að horfa áfram til samstarfsverkefna og að nýta samlegð með t.d. Rarik og Vegagerð þar sem það er mögulegt.

Síðastliðin fjögur ár hafa jákvæðir hlutir gerst, sveitarfélagið er að leggja ljósleiðara og á það verkefni að klárast þessu ári. Þetta gjörbreytir möguleikum fólks að geta unnið meira heima við. Eins þá að stunda nám og allt það sem alnetið býður uppá. Árið 2021 var farið í að leggja þriggja fasa rafmagn í hluta af sveitarfélaginu og nýtt ákveðin samlegð með verkefni sveitarfélagsins með lagningu ljósleiðara og getum við tekið þetta verkefni sem fyrirmynd um hvernig við getum bætt samfélagið. Þó svo að þetta hafi verið mikill áfangi, þá verðum við að halda áfram að þrýsta á Rarik að halda þessu verkefni áfram. Við vitum að þarna eru mikil tækifæri fyrir alls konar uppbyggingu í dreifbýlinu t.d. smáiðnað í dreifbýlinu. Það er klárlega víða þekking og reynsla til að stofna smáfyrirtæki en eitt af því sem staðið hefur þeirri uppbyggingu til þrifa er að þriggja fasa rafmagn hefur ekki verið til staðar. Einnig er uppbygging í ferðaþjónustu og tala nú ekki um þá framtíðarsýn að við munum öll keyra á rafmagnsbílum eftir nokkur ár, og til þess þurfum við að fjölga hleðslustöðvum.

Ferðaþjónusta í Borgarbyggð hefur á síðustu árum aukist gríðarlega mikið og enn eru mörg tækifæri þar. Eitt mikilvægasta í því að fá ferðamenn í héraðið er að bæta samgöngur og til þess þurfum við að tala einni röddu og pressa á ríkið að auka fjármagn til okkar. Við erum með mikið magn tengivega í sveitarfélaginu og hefur undanfarin ár verið sett meira fjármagn í þá, en það þarf að auka það enn meir t.d. á Mýrunum, þar sem við erum með mörg stór kúabú og þar af leiðandi mikla þungaflutninga. Náttúruperlur eru margar á þessu svæði og saga landsins á hverju strái sem gerir þessar slóðir vinsælar. Að síðustu er ekki hjá því komist að fjöldi barna sem eru búsett á svæðinu þurfa að hossast í skólabílum alla daga á ónýtum vegum. Þetta viljum við bæta.

Fjarskipti eru víða í ólestri í sveitarfélaginu og nú síðast í mars voru lagðar niður gömlu kopar símalínurnar. Þetta þýðir að víða til sveita eru menn háðir því að standa og sitja á á réttum stað þegar þarf að grípa símann til að hringja t.d. í 112 þegar slys, eldur eða eitthvað enn verra dynur á, vegna þess að gsm samband er mjög dapurt og jafnvel ekkert. Þar af leiðandi er öryggi við íbúa og ferðamenn víða mjög ábótavant. Þarna er verk að vinna og taka þarf samtalið við fjarskiptafélögin og ríkið.

Við viljum sjá að vegur um Uxahryggi verði kláraður og með því bætt vegtenging við Suðurland, koma nýjum vegi og brú á Hvítá við Stafholtsey á vegaáætlun og með því verði enn betri tenging innan sveitarfélagsins og þannig getum við nýtt innviði sveitarfélagsins betur í nánustu framtíð. Við ætlum að þrýsta á að Heydalsvegur verði lagaður og lagt á hann slitlag. Þessi vegur er og verður gríðarlega mikilvægur fyrir tengingu við Dalina, Vestfirði og ekki síst Norðurland. Þetta kom berlega í ljós í vetur þegar bæði Holtavörðuheiði og Brattabrekka voru illfær, þá er þessi vegur fær.

Við erum gott samfélag og við viljum öll gera það betra, horfum til framtíðar og nýtum þau tækifæri sem klárlega eru til staðar fyrir Borgarbyggð. Tækifæri til framtíðar.

 

Kristján Ágúst Magnússon, í fimmta sæti fyrir Sjálfstæðismenn í Borgarbyggð

Sigurjón Helgason, í þrettánda sæti fyrir Sjálfstæðismenn í Borgarbyggð