Bæta þarf heilbrigðisþjónustuna á Snæfellsnesi

Teitur Björn Einarsson

Ekki tókst að manna stöður lækna á Snæfellsnesi í samtals 23 daga árið 2023. Þar af voru 10 dagar í Snæfellsbæ og 13 dagar í Grundarfirði. Á sama tíma hafði einungis einn læknir fasta búsetu á Snæfellsnesi, sá læknir bjó í Ólafsvík og starfaði á heilsugæslustöðinni þar.

Þetta kemur fram í skriflegu svari heilbrigðisráðherra nýlega við fyrirspurn minni um stöðu læknaþjónustu á Snæfellsnesi sem ég lagði fram á Alþingi fyrr á árinu. Svar ráðherrans ber með sér að mikill vilji er til að bæta ástandið en betur má ef duga skal.

Óánægja íbúa og ákall um breytingar

Aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu er mikið hagsmunamál fyrir hvert byggðarlag. Í íbúakönnun landshlutanna sem framkvæmd var veturinn 2023-2024 kemur skýrt fram mikill munur á afstöðu íbúa á Snæfellsnesi til heilsugæslu og heilbrigðisþjónustu samanborið við íbúa annarra svæða innan umdæmis Heilbrigðisstofnunar Vesturlands (HVE).

Íbúar Snæfellsness voru hvað óánægðastir með þjónustuna en almenna ánægju mátti merkja til að mynda á Akranesi, í Dölum og í Húnaþingi vestra. Undirskriftarsöfnun Grundfirðinga síðasta vor vegna bágrar læknisþjónustu þar í bæ er annað skýrt merki um að staðan er óviðunandi og við henni verður að bregðast.

Samtal um lausnir

Í liðinni viku funduðum við þingmenn kjördæmisins með Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi og var staða heilbrigðismála rædd nokkuð. Sveitarfélögin á Snæfellsnesi hafa undanfarið verið í fararbroddi við að leiða samtal við stjórnendur HVE áfram til að ná fram viðunandi lausn. Í fyrrgreindu svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn minni er jafnframt ekki lokað fyrir að setja á fót þróunarverkefni um bætta læknisþjónustu sem yrði byggð á samvinnu heilbrigðisstofnana og sveitarfélaga um þjónustuna. Mögulegar ívilnanir í gegnum Menntasjóð námsmanna til tryggja fagmönnun á landsbyggðinni gætu verið hluti af þeirri lausn.

Hugmyndir sveitarfélaganna á Snæfellsnesi um nýtt skipulag læknisþjónustu eru góðra gjalda verðar og byggja á því að komið verði á fót ákveðnu þjónustufyrirkomulagi um læknateymi fyrir Snæfellsnes. Það væri þá teymi lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna sem flyttist á milli staða eftir ákveðnu kerfi með það að markmiði að þjónustan yrði ávallt í boði fyrir íbúa og læknar á svæðinu þyrftu ekki að starfa sem einyrkjar hver í sínu horni, enda þykir það ekki lengur eftirsóknarvert starfsumhverfi. Samhliða yrðu mótaðar leiðir til að nýta tæknina í formi fjarlækninga til að bæta þjónustuna enn frekar, til að mynda aðgengi íbúa að sérgreinalæknum.

Breytt viðhorf og nálgun

Læknaskortur er vandamál sem einskorðast ekki við Ísland, heldur standa lönd víða um heim í sambærilegum sporum. Læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk eru eftirsóttir sérfræðingar sem gera kröfur um starfsumhverfi sem stenst kröfur nútímans. En staða þjónustunnar á Snæfellsnesi, samanborið við önnur svæði innan umdæmis HVE, er slíkt frávik að böndin berast einna helst að viðhorfi stjórnenda HVE og skipulagi þjónustunnar á svæðinu. Það þarf breytt viðhorf og nýja nálgun til að leysa málið.

Til að veita góða heilbrigðisþjónustu þarf hæft starfsfólk með stöðuga viðveru bæði lækna  og annað heilbrigðisstarfsfólk. Eins þarf aðstaða eins og húsnæði og tækjabúnaður að standast allar kröfur og aðgengi íbúa að þjónustunni verður að vera fyrirsjáanlegt og einfalt. Hugmyndir sveitarfélaganna á Snæfellsnesi miða að því að ná öllum þessum markmiðum fram og er mikilvægt að styðja við þau með öllum ráðum svo heilbrigðisyfirvöld breyti viðhorfi sínu til málsins og grípi til lausnarmiðaðra aðgerða fyrir íbúa á Snæfellsnesi.

 

Teitur Björn Einarsson

Höf. er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi