Bærinn okkar Akranes

Elsa Lára Arnardóttir

Framboð Framsóknar og frjálsra er skipað öflugum og jákvæðum einstaklingum sem vilja láta gott af sér leiða fyrir bæinn okkar Akranes. Við komum úr hinum ýmsu áttum og höfum áhuga á margvíslegu málum. Öll brennum við fyrir því að gera góðan bæ enn betri. Við leggjum áherslu á Akranes sem fjölskylduvænt samfélag og í því samhengi ætlum við að tryggja fjölskyldum dagvistunarúrræði að loknu fæðingarorlofi. Við ætlum að efla góðu skólana okkar með því að auka stuðning og bæta vinnuaðstæður. Auk þessa leggjum við mikla áherslu á sveigjanleika milli skóla – og íþrótta og æskulýðsstarfs. Allt þetta er sett fram til að bæta líf þeirra sem hér búa.

Við viljum gera börnum mögulegt að kynnast ýmsu íþrótta – og æskulýðsstarfi eins og t.d. með haust- og vornámskeiðum þar sem börnin fara m.a. á milli íþróttagreina og finna hvar áhugasvið sitt liggur. Þetta er hægt en til þess þarf samtal milli bæjarfulltrúa og íþrótta- og æskulýðshreyfingarinnar. Það er nauðsynlegt til að gera bæinn okkar að fjölskylduvænna samfélagi. Einnig þarf að gera verulega úrbætur á ræktaraðstöðu almennings. Sú aðstaða sem er í boði er barn síns tíma, m.a. vegna þessa er uppbygging íþróttamannvirkja mikið hagsmunamál fyrir fólk á öllum aldri. Stefnumótun í æskulýðsmálum er jafnframt mál sem vinna þarf að. Það þarf m.a. að gera í samvinnu við þá sem vinna í greininni.

Velferðarmálin eru okkur ofarlega í huga. Standa þarf vörð um okkar öflugu stofnanir eins og Heilbrigðisstofnun Vesturlands og dvalarheimilið Höfða. Kjörnir bæjarfulltrúar þurfa að sýna pólitíska forystu og hjálpa þessum stofnunum í að sækja fram. Sú þjónusta sem þessar stofnanir veita eru mikilvægur hlekkur í samfélaginu okkar, fyrir unga sem aldna.

Atvinnumöguleikar eru okkur hugleiknir. Við erum með frábærar stofnanir og öflug fyrirtæki, bæði hér á Skaganum og á Grundatangasvæðinu. Hins vegar þurfa bæjarfulltrúar að vera vel vakandi fyrir atvinnutækifærum eins og störfum án staðsetningar og sækja þau hingað á Skagann. Við teljum einnig að við eigum sóknarfæri í að skapa okkur sérstöðu sem ferðamannabær en til þess þarf stefnumótun og markaðsáætlun. Menningar- og safnamál geta m.a. skipað stóran sess í að laða hingað ferðamenn og aðra áhugasama sem vilja njóta listar og umhverfisins.

Umhverfismálin eru stór þáttur í okkar huga. Við gerum miklar kröfur um bætta umhverfisvitund og leggjum það því til að settar verði upp grenndarstöðvar í bænum og að við bætum við þriðju tunninni sem væri fyrir lífrænan úrgang. Þessar kröfur eru í takt við þá samfélagslegu ábyrgð sem við stöndum frammi fyrir sem þjóðfélag.

Samgöngumálin eru okkur Skagamönnum mikilvæg en á hverjum degi fara um 25% bæjarbúa í skóla eða til vinnu í Reykjavík. Því gerum við þá kröfu að samgönguráðherra leggi áherslu á bættar samgöngur um Vesturlandsveg hið fyrsta. Einnig þarf að vinna að bættum samgöngum innanbæjar, minnka umferðahraða í íbúagötum og bæta umferðaröryggi gangandi vegfarenda.

Þetta er eingöngu brot af því sem fram hefur komið á opnum málefnafundum Framsóknar og frjálsra. Við hvetjum þig kæri Skagamaður að fylgjast með okkur á Facebook (Framsókn og frjálsir Akranesi). Þar er nóg um að vera, vertu með.

 

Elsa Lára Arnardóttir

Höf. er oddviti Framsóknar og frjálsra á Akranesi.