Bær fyrir fólkið

Líf Lárusdóttir

Því fylgir mikil ábyrgð að bjóða sig fram til starfa í pólitík. Með þeirri ákvörðun sendum við íbúum þau skilaboð að við séum tilbúin að vinna fyrir bæinn okkar, nánar tiltekið fyrir fólkið sem býr í bænum. En hvert er hlutverk þeirra sem vinna fyrir bæinn? Ég tel mikilvægt að við skoðum hvernig við byggjum best upp samfélag og innviði sem styðja við og eru fyrir íbúa, bæ sem virkar. Mig langar í því sambandi að nefna dæmi frá Barcelona þar sem ég bjó í eitt ár. Gerðar voru breytingar á lestarkerfi borgarinnar sem taldar voru vel heppnaðar. Ég las grein eftir einn þeirra aðila sem höfðu komið að breytingunum og hann taldi lykilinn að vel heppnuðum breytingum vera virkt samtal við íbúa borgarinnar um hvernig og hvenær þeir vildu nota lestarnar. Stefnan sem var mótuð byggði á þessu samtali. Íbúar vildu nýta lestina til og frá vinnu á virkum dögum og um helgar vildu þau geta treyst á lestarferð heim eftir gleðskap næturinnar. Því varð úr að lestarkerfið var aðlagað að þörfum íbúa sem gátu þá frekar nýtt sér lestina til að komast heim, jafnvel seint um nætur og fram undir morgun.

Hvernig getum við heimfært þessa hugmyndafræði hér? Tökum eitt dæmi; sundlaugarnar okkar. Þær eru í eigu sveitarfélagins og notendur þeirra eru íbúar bæjarins, sem og ferðamenn auðvitað líka. Þegar kemur að því að ákveða hvenær þær eiga að vera opnar, er ekki eðlilegt að við byggjum slíkar ákvarðanir á samtali við notendur? Bjarnalaug, sem dæmi – upphituð innilaug sem í dag er opin yfir vetrartímann í örfáar klukkustundir fyrir almenning. Annað dæmi sem ég er viss um að margir tengja við er opnunartími endurvinnslustöðvarinnar. Hér á Akranesi sækja margir sína atvinnu út fyrir bæjarmörkin og ég hef átt ófá samtöl við fólk sem þarf hreinlega að taka sér frí í vinnu til að geta farið með hluti sem falla til meðal annars við framkvæmdir eða tiltekt. Þar er einnig lokað á rauðum dögum. En það að auka þjónustuna, þýðir það ekki bara aukinn kostnaður? Ég verð seint talsmaður þess að auka kostnað hins opinbera en það að aðlaga þjónustuna að þörfum íbúa þarf ekki endilega að þýða hærri útgjöld af hálfu bæjarins. Okkar hlutverk ætti nefnilega að vera það að vera með þjónustuna til staðar þegar íbúarnir okkar, notendurnir vilja nýta þjónustuna. Þannig virkar bær fyrir fólk, en ekki öfugt.

Við eigum að vera ófeimin við að auka samtalið við íbúana, gera viðhorfskannanir og fáum raddirnar upp á borðið. Tökum svo ákvarðanir út frá því og verum bær sem virkar – fyrir fólkið en ekki öfugt.

Látum verkin tala – Fyrir Akranes.

 

Líf Lárusdóttir

Höf. er oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akranesi