„Bændur kusu að halda í kvótann“

Þorgrímur Einar Guðbjartsson

Það kostar um 150 milljónir í dag að byggja 70 kúa fjós, sem framleitt getur um 450-500 þúsund lítra af mjólk á ári.

Fyrir um það bil ári síðan var verið að ræða um kosningu um hvort að kvótinn yrði áfram eða ekki. Bændur áttu að kjósa um það. Landssamband kúabænda fór um héruð og hvatti til þátttöku og taldi upp kosti og galla við að hafa kvótann eða hætta með kvótann.

Þegar spurt var, ef kvótinn verður kosinn, hvað þá? Hvaða kerfi tekur við? Hvernig verður honum útdeilt eða færður á milli framleiðenda? Svarið var einfalt: Ef bændur kjósa að halda í kvótann, þá tökum við umræðuna um hvaða fyrikomulag verðu haft á því.

Á dögunum var á borð borin uppfærsla á gildandi búvörusamningi, þar sem fyrirkomulag kvótaútdeilingar og færsu milli aðila var komið í útfærslu. Áhveðið var að fara aftur í kvótamarkað, líkt og verið hafði fyrir nokkrum árum.

Einhvern veginn þá tókst mér algerlega að missa af þeirri umræðu, þ.e. hvaða leið skyldi valin við að útdeila kvóta – færa milli aðila. Hvenær átti sú umræða sér stað? Var gerð skoðanakönnun á því hvernig menn vildu sjá útfærsluna? Hvað kom út úr henni? Sem áður segir, hafi svo verið, þá missti ég allveg af þeirri umræðu.

En af hverju var áhveðið að taka aftur upp kvótamarkað? Hvað var að þessari leið sem verið hefur í notkun síðustu misserin? Leið sem leiddi til þess að allir voru jafnir fyrir útedeilingunni, þ.e. fengu kvóta á sömu kjörum. Leið sem búið var að vera að reyna að lagfæra og snúa af agnúa sem sumir bændur höfðu séð glufu í og misnotað/ eða ekki misnotað, kerfið bauð uppá þetta (t.d. kaupa jarðir og færa kvóta á milli lögbýla).

Ef eini gallin var að enginn vildi selja kvóta, var það þá svo slæmt? Var það ekki bara vegna þess að okkur er búið að fækka svo mikið, að komið er svolítið stopp í bili?  Eða var það vegna þess að beðið var eftir því að kvótaverð yrði hækkað svo þeir sem vilja úr greininni geti fengið hærra verð fyrir kvótann? Eða var það vegna þess að flestir sem eftir standa, vilja byggja upp og halda áfram búrekstri, einmitt vegna þess að nú er ekki svo hátt verð fyrir kvótann og allir fá kvóta, þó ekki endilega það magn sem þeir vilja?

Eru þau nýju fjós sem byggð hafa veið síðustu ár, orðin það mörg og stór að eigendur þeirra eru farnir að bíða eftir að þeir hinir minni framleiðendur gefist upp og hætti? Er þá ekki um að gera að koma þeirri skriðu af stað og koma verði á kvóta eitthvað uppá við svo við, sem teljum okkur vera í stærri kantinum, fáum kvóta til að fullnýta okkar fjárfestingu? Er það ekki kallað frekja? Eða er það græðgi? Er það ekki frekja/græðgi, þegar einhver ásælist eign annarra til að koma sér áfram?

Ef þetta verður niðurstaðan, að kvótamarkaður verði reyndin, þá eigum við eftir að upplifa á allra næstu misserum, stórfellda samþjöppun í mjólkurframleiðslu. Það er fjöldinn allur af kúabændum, t.d. hér á Vesturlandi, sem nú standa í þeim sporum að þurfa að breyta eða byggja fjós. Þeir fá ekki lánafyrirgreiðslu nema vera búnir að tryggja sér kvóta. Og þegar þeir hafa keypt kvótann, geta þeir ekki nýtt hann, þar sem þeir hafa ekki aðstöðu fyrr en eftir 1-2 ár því þeir þurfa að fjárfesta í búnaði/húsnæði.

En stóra spurning er kannski þessi; af hverju eigum við mjólkurframleiðendur að vera að keppa um ríkisstuðninginn? Ef við getum eytt tugum milljóna í að kaupa stuðninginn, af hverju erum við þá með þennan stuðning? Er þörf fyrir eitthvað sem við fáum ekki notið fyrr en eftir 5-8 ár, eftir því hvað lánið til kaupa á kvótanum er langt?

Ég er ekki einn um það að aðhyllast það kvóta útdeilingarkerfi sem verið hefur við lýði síðustu misseri. Það er einfallt í rekstri. Það ríkir jafnræði. Það er greitt sanngirnisverð fyrir. Það veitir greininni staðfestu. Þeir sem ætla í framkvæmdir vita að hverju þeir ganga og þeir sem ætla út úr greininni, fá sanngirnisverð fyrir það.

Ég held að með því að viðhalda núverandi fyrirkomulagi og snýða betur að greininni, ef þess er þörf, þá skiptir ekki máli hvort að greitt er 100 eða 200 kr fyrir lítrann. Það má alveg færa fyrir því rök að greitt sé eitthvert lágmarksgjald fyrir afnot af auðlindum, eins og fiskimiðum, en að greiða hátt verð fyrir aðgang að ríkisstuðningi, það getur í besta falli kallast samherjaviðskiptatækni.

 

Þorgrímur Einar Guðbjartsson

Höf. er kúabóndi að Erpsstöðum í Dölum.

Fleiri aðsendar greinar