Bændur – Fellum sauðfjársamninginn!

Þóra Sif Kópsdóttir

Núna eru sauðfjábændur að fara að greiða atkvæði um endurskoðun á sauðfjársamningi. Ég reikna með að bændur hafi farið ítarlega í gegnum tillögurnar og mætt á kynningafundi. Það er mikil mismunun gerð á milli bænda í þessum tillögum og kemur það einna best í ljós í þeirri framkvæmd að minnka ríkisstuðninginn við þá bændur sem hafa hvað minnstan stuðning og auka stuðning við þá bændur sem hafa mestan stuðning fyrir. En þar kemur vel í ljós að allir þeir sem hafa færri ærgildi í sauðfé munu tapa á þessum samningi og þeir sem fá greitt samkvæmt 0,7 reglunni munu hagnast mest. Mig langar aðeins að fara hérna í gegnum tillögunar.

Í 2. grein fyrsta lið samningsins kemur fram að aðlögunarsamningur er bara hagstæður fyrir þá bændur sem eru með greiðslumark. En ef bóndi með lítið eða ekkert greiðslumark, og myndi vilja fækka um 100-300 kindur og gera aðlögunarsamning, fær miklu minni stuðning til þess en sá sem er með greiðslumark. Þetta yrði því ekki hagstætt fyrir hann nema ef hann ætlaði að hætta alveg. Ég trúið því ekki að það sé það sem við viljum. Þá er sett takmark fyrir hvað margir fá að fara þessa leið þar sem fækkun á fé má ekki vera nema 10% af vetrarfóðruðum kindum miðað við fjárfjölda 1. janúar 2017, en fé hefur verið að fækka síðastliðin tvö ár.

Í 2. lið er tillaga sem miðar bara að því að minnka ríkisstuðningin við þá sem hafa minnstan stuðning og auka hann hjá þeim sem sem hafa mestan stuðning (þá sem eru í 0,7). Við gerðum 10 ára sauðfjársaming en með svona langan samning átti að auðvelda okkur að gera okkar rekstraráætlanar en þessi kúvending núna kemur harðast niður á þeim sem hafa minnstan ríkisstuðning. Er það eðlileg framkvæmd að minnka stuðninginn við þá sem standa verst?

Í 3. lið er fjallað um markað með greiðslumark. Það er nú nóg að horfa til kúabænda með mjólkurkvótann til að sjá hversu gáfulegt þetta er. En það mun aldrei koma þarna inn það magn af greiðslumarki sem þarf miðað við eftirspurn til að þetta dæmi gangi upp. En þetta hljómar vel í eyrum og loforðið um forgangshópa hljómar líka vel og allir telja sig vera í forgangshópi. Og ekki vitum við hverjar reglur markaðarins verða, okkur hafa eingöngu verið kynntar hugmyndir okkar fólks um það hvernig þær skuli vera, ekkert um hugmyndir viðsemjanda eða niðurstöður Búnaðarstofu sem á að sjá um þennan markað. Eins er það dapurlegt að þessir skattpeningar fólksins í landinu, sem eiga að koma sem ríkisstuðningur og niðurgreiðsla á matvælum fyrir fólkið í landinu, skuli ganga kaupum og sölu á milli bænda og það er þá bankinn sem fær mikinn hluta að ríkisstuðningnum þegar upp er staðið.

Í fjórða lið er rætt um framleiðslujafnvægi. Það er flottur liður en spurning er hvort það verði eitthvað af ónýttu greiðslumarki eftir í þennan lið?

Fimmti liður er einnig flottur og kannski er lausnin þarna hvernig á að greiða ríkisstuðninginn út til bænda með því að búa til svokallaða innanlandsvog og greiða allan ríkisstuðning út á hana. En þá þarf að sjálfsögðu að setja eðlilegt hámark á ríkisstuðning á bú en þakið á ríkisstuðning á bú í dag er alveg fáránlega hátt.

Varðandi 6. lið á ég bara ekki orð yfir dugleysi núverandi ráðherra og ráðherra síðustu ára, því þarna er ástæðan komin fyrir því að stuðningi til sauðfjárbænda er svona misskipt og sundrar okkur sem einni heild. En í dag eru einungis 364.000 ærgildi sem hljóta greiðslur og á bak við þær eru 435.000 kindur, það eru 1,19 kindur á ærgildi. Bændur eru nú þegar byrjaðir að undirbúa sig og kaupa greiðslumark til að vera 0,6 og með því að viðhalda þessu 0,7 (sem verður 0,6) kerfi býður það bara áfram upp á enn meiri misskiptingu á ríkisstuðningi en hann er í dag.

Núverandi sauðfjársamingur miðar að því að eyða út greiðslumarkinu og jafna ríkisstuðninginn á mill bænda en þessar tillögur miða að því að stoppa það ferli fram að næstu endurskoðun og mun það líka auka bilið á milli bænda hvað varðar stuðning.

Það er í lagi að segja NEI við þessum samningi. Þá höldum við bara áfram með núverandi samning sem við erum öll soldið óánægð með, en í lok hans eru við þó öll orðin sem ein heild varðandi ríkisstuðning og getum þá sett alla orku okkar saman sem ein heild í að vinna að markaðsmálum og berjast fyrir hækkun á afurðaverði. Það ætti að vera aðal málið hjá okkur en ekki að slást um ríkisstuðninginn.

Svona í lokin: Hvað haldið þið að hefði skeð ef forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar hefðu mætt á fundi hjá sínum félagsmönnum og boðað það að samið yrði um lækkun launa hjá þeim lægstlaunuðu og hækkun hjá þeim hjá þeim hæstlaunuðu? Það er akkúrat það sem þessar tillögur boða.

 

Þóra Sif Kópsdóttir

Höf. er sauðfjárbóndi á Ystu-Görðum.

 

Sjá nánar í Skessuhorni vikunnar.