Bæjarstjórn sem ekkert hlustar eða gerir

Daníel Guðrúnarson Hrafnkelsson

Nú fóru fram mótmæli þann 15. desember 2022 og bæjarstjórn Akraneskaupstaðar hefur ekki ennþá hlustað á okkur. Bæjarstjórnin er föst á því að byggja Samfélagsmiðstöð sem verður á neðstu hæð íbúðarblokkar. Í samfélagsmiðstöðinni verður frístundamiðstöðin Þorpið sem er tómstundastarf fyrir börn og ungmenni. Hvað eiga börn og fatlaðir sameiginlegt? Ekki neitt. Fötluðum hefur oft á tíðum verið strítt af börnum og hefur það marg oft sýnt sig að börn og fatlaðir eiga ekkert sameiginlegt. Áður en fyrrum húsnæði Fjöliðjunnar brann voru teikningar gerðar af tilvonandi stækkun á húsnæðinu. Hvers vegna eru þær teikningar ekki notaðar við byggingu á nýja húsnæðinu? Bæjarstjórn hefur ennþá tíma til að endurskoða ákvörðun sína varðandi húsnæði fyrir Fjöliðjuna og framkvæma frekar upprunalega ákvörðun um stækkun á Dalbrautinni. Önnur lausn er að Akraneskaupstaður kaupi allt húsnæðið á Smiðjuvöllum 28, þar sem starfsemi Fjöliðjunnar er að hluta til í núna. Flöskumóttakan og Búkolla yrðu þá vel staðsettar með gott aðgengi fyrir íbúa bæjarins. Með þessu fyrirkomulagi gætu allir starfsmenn Fjöliðjunnar starfað saman undir sama þaki og allir væru glaðir. Það særir okkur að það standi til að slíta okkur samstarfsfélagana í sundur. Væri það ekki frábær lausn að bærinn keypti Smiðjuvelli 28? Ég myndi segja það, en bæjarstjórnin þykist vita betur og meira en við sem vinnum í Fjöliðjunni.

Mér var sagt að fulltrúar bæjarstjórnar sinni einnig öðrum störfum en ég legg til að þeir kynni sér almennilega starfsemi Fjöliðjunnar með því að vinna í 2-3 daga hjá okkur. Eins og staðan er núna er starfsemi Fjöliðjunnar í tveimur húsnæðum sem hefur verið okkur virkilega erfitt. Til stóð að það fyrirkomulag yrði tímabundið en miðað við áætlun bæjarstjórnar verður það varanlegt. Hvernig er kostnaðurinn við að vera í tveimur húsnæðum minni en að leyfa okkur að vera öllum saman í einu húsnæði? Hvernig væri að við Skagamenn færum að sýna samstöðu og láta í okkur heyra? Eða er ykkur alveg sama um starfsemina okkar?

Daníel Guðrúnarson Hrafnkelsson

Höf. er starfsmaður Fjöliðjunnar á Akranesi.