Bæjarins batnandi götur

Einar Brandsson

Misjafnt ástand gatnakerfis bæjarins hefur að vonum verið vinsælt umræðuefni á liðnum árum. Fjárhagur bæjarins hefur ráðið að forgangsraða hefur þurft vandlega verkefnum og endurnýjun gatna hefur setið á hakanum lengi.

Á líðandi kjörtímabili var ráðist í mat á ástandi gatnakerfisins og lagnakerfinu undir þeim. Þá hafa þær einnig verið metnar út frá öryggissjónarmiði, sem er nýlunda. Í kjölfarið varð til umferðaröryggisáætlun Akraneskaupstaðar. Á grundvelli hennar var mótuð áætlun um hver verða næstu skref í viðhaldi gatnakerfisins.

Með stórbættri fjárhagsstöðu bæjarins, í kjölfar samninga við ríkið um uppgjör lífeyrisskuldbindinga Höfða og aðhaldssamrar fjármálastjórnar, hefur myndast svigrúm til þess að blása til sóknar og verja umtalsverðum upphæðum til þessara löngu tímabæru framkvæmda.

Nú þegar standa yfir framkvæmdir við Vesturgötu og síðar á þessu ári verður ráðist í endurbætur á Esjubraut og Ketilsflöt. Esjubraut er samkvæmt öryggismati hættulegasta gata bæjarins og Ketilsflötin er ónýt á kafla. Á verkefnalista næstu ára eru m.a. Suðurgata, Garðagrund, gatnamót Kirkjubrautar og Stillholts, Jörundarholt og Smiðjuvellir, svo einhverjar götur séu nefndar.

Veldur hver á heldur og því óskum við Sjálfstæðismenn eftir umboði kjósenda til þess að gera þessar áætlanir að veruleika.

 

Einar Brandsson

Höfundur skipar 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins á Akranesi við bæjarstjórnarkosningarnar í vor.