Auðlindagjald eða landsbyggðarskattur?

Lilja Sigurðardóttir

Í febrúar síðastliðnum lagði undirrituð fram fyrirspurn á Alþingi til umhverfis- og auðlindaráðherra sem sneri að skilgreiningu á auðlindum Íslands og hvaða auðlindir borga auðlindagjald. Það kom ekki á óvart að af sex skilgreindum náttúruauðlindum er auðlindagjald í formi skattlagningar eingöngu lagt á auðlindir sjávar, sbr. lög um veiðigjöld, nr. 74/2012. Í svarinu kom svo fram að náttúruauðlindir landsins eru flokkaðar í sex yfirflokka, eða náttúruauðlindir a) lands, b) hafs, c) stranda, d) vatns, e) orkuauðlindir og f) villt dýr, þ.m.t. fiskar, fuglar og spendýr. Þessum flokkum er síðan skipt í fjölmarga undirflokka.

Að mínu mati er sjálfsagt að skattleggja, í hófi, þær atvinnugreinar sem nýta sér náttúruauðlindir Íslands, og þá sérstaklega þær auðlindir sem liggja til grundvallar helstu útflutningsatvinnuvegum þjóðarinnar, eins og auðlindir sjávar, stórbrotin náttúra og orkuauðlindir. Þó heyrir maður lítið um að skatt skuli leggja á aðrar auðlindir, en á sama tíma heyrast stöðugt raddir um að hækka skuli veiðigjöldin ennþá frekar. Nú þegar fiskeldi er að ryðja sér rúms sem stór atvinnugrein á Íslandi, og þá sérstaklega á Vestfjörðum og Austfjörðum þar sem ekki hefur verið lokað fyrir möguleikann á eldi á þeim landssvæðum, þá hafa bæði umhverfis- og auðlindaráðherra og sjávarútvegsráðherra sagt að þeim finnist eðlilegt að ríkið taki auðlindagjald fyrir þessi takmörkuðu gæði sem örfáir firðir við Íslandsstrendur bjóða upp á, þ.e. að vera það djúpir að þeir geti borið fiskeldi.

Ég er ekki ósammála því að skoða þurfi skattlagningu á eldi en ég held að það sé kominn tími til að ráðumenn þessa lands fari að opna augun fyrir því hversu landið okkar er ríkt af náttúruauðlindum og endurskoða stefnur varðandi auðlindagjöld, því ef stefnan er sú að einungis sé horft til skattlagningar á sjávarútvegsfyrirtæki og fiskeldisfyrirtæki, þá er alveg eins gott að kalla þessa skattlagningu því nafni sem það er; landsbyggðarskattur.

 

Lilja Sigurðardóttir.

Höf. er 2. varaþingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi og býður sig fram í 2.-3. sæti á lista flokksins í sama kjördæmi fyrir komandi kosningar.

Fleiri aðsendar greinar