Atvinnumál og atvinnulóðir á Akranesi

Stefán Skafti Steinólfsson

Góðir lesendur! Það er mikilvægt hverju bæjarfélagi að hafa byggðina blandaða og tryggja að næg atvinna sé innanbæjar, að sem flestir geti stundað vinnu sem næst heimili sínu og geti gengið, hjólað eða keyrt sem stystar vegalengdir til vinnu. Í þessu greinarkorni vil ég benda á það sem er hægt að gera með góðum vilja og samtakamætti.

Á Akranesi hefur verið ófremdarástand um nokkur misseri. Samkvæmt könnun aka um 30% atvinnubærra 18 ára og eldri til vinnu langt utan Akraness. Vissulega velja margir það og svæðið á Grundartanga er mikilvægt atvinnusvæði og verður áfram ekki síst vegna þeirrar góðu hafnar og atvinnulóða sem eru milljarða virði. En við verðum að gera betur innanbæjar og ekki síst í kvennastörfum. Þessi svefnbæjarbragur er í hrópandi andstöðu við það blómlega öfluga sjávarþorp sem hér var áratugum saman.  Í þessu ljósi er mikilvægt að vernda og hlúa að atvinnulóðum og atvinnu innanbæjar.

Ég minntist á verðmæti iðnaðarlóða. Við eigum einnig atvinnulóðir og atvinnusvæði sem eru milljarðavirði. Nægir þar að nefna Breiðarsvæðið þar sem varhugaverðar hugmyndir eru uppi um breytingar á. Við þurfum að varðveita og gæta þess að breyta ekki skipulagi né lóðum þannig að skaði verði af. Varðandi Sementsreitinn t.d. er góðra gjalda vert að ætla að setja þarna upp íbúðabyggð. En hvaða atvinnu ætlum við að fá í staðinn? Þarna var fyrirtæki sem veitti 100 fjölskyldum atvinnu áratugum saman. Mikil áhrif og afleidd störf. Það er mikið högg að hafa misst það. Eflaust væri hægt að setja verðmiða á svona stóra iðnaðarlóð í dag og myndi hún skifta milljörðum.

Síðan verður annað slys þegar fiskveiðiheimildir eru seldar frá okkur, með sölu HB til Granda og síðan með sölu HB granda til Brims. Þessi ráðstöfun og sá sannleikur að ekki er unninn bolfiskur á Skipaskaga er vægast sagt sorglegur. Segja má að þetta sé afleiðing af vægast sagt umdeildu fiskveiðistjórnunarkerfi sem áður hefur verið drepið á í mínum skrifum.  Störfin sem tapast og þau afleiddu störf einnig sem horfið hafa eru mikið reiðarslag fyrir bæinn. En mikilvægt er að spyrna við fótum og eru kaup heimamanna á Norðanfiski ljósið í myrkrinu og einnig stofnun Nýsköpunarseturs. Það má hinsvega ekki éta börnin sín eða verða einhver allherjar lausn.  Ekki býst ég við að 100 fjölskyldur hafi af því lifibrauð. En óska því alls hins besta með eftirfarandi tillögum. Nú verðum við að standa saman þvert á pólitískar skoðanir og þvergirðingshátt. Hér eru nokkrar tillögur til að sækja fram:

Nr. 1. Höfnina verður að stækka og dýpkva. Í gangi er samningur við Faxaflóahafnir að Akraneshöfn verði efld sem stærri fiskihöfn. Vægast sagt hefur allt fallið á hinn veginn. Stöðugt hefur verið barátta að standa vörð um fiskmarkaðinn og þær fáu fiskveiðiheimildir sem hér eru enn. Þó eru hér skráð 16.000 tonn sem aldrei koma hér að landi. Efna þarf þann samning eða segja upp, og vinna á eigin forsendum. Bæði þarf að fara strax í fyrirhugaðar framkvæmdir um stækkun og dýpkvun hafnarinnar svo hún geti þjónað nýjustu fiskiskipum og ekki síst uppsjávarskipum. Við verðum að fá fiskinn okkar heim til að skapa störf og verðmæti, útsvar.

Nr. 2. Standa vörð um Breiðarsvæðið sem atvinnu- og fiskvinnslu/hátæknisvæði. Laða að fyrirtæki sem vilja vinna fisk með nýjustu tækni. Tímaspursmál er hvenær Brim yfirgefur Reykjavíkurhöfn, þar sem breytt skipulag borgarinnar mylur allt undir sig. Nú þurfum við bjóða þá velkomna „heim.“

Óskastaðan væri að Brim (tilvalið verkefni nýsköpunarseturs) myndi byggja nýtísku verksmiðju fyrir uppsjávarfisk líkt og reist var hjá Eskju á Eskifirði með tæknibúnaði frá Skaginn 3X. Það er til skammar að ekki sé fullkomin uppsjávarverksmiðja á Akranesi. Fiskar hafa sporð og eru oft miklu nærri Akranesi en Austurlandi og ekki lengra frá kolmunnamiðum við Skotland og Írland. Það væri til sóma og framsóknar að Skaginn 3X / Baader myndi leggja til allan tæknibúnað og einnig hátækniverksmiðju fyrir allar hliðarafurðir sem í ríkari mæli eru verðmætari. Það er nú aldeilis nýsköpun í því.  Ekki má gleyma því að Skaginn/Þ&E var ætíð í góðri samvinnu við HB heitið og með þeirra samvinnu varð til ómetanleg þekking og tækni sem nú er útflutningsvara. Það væri aldeilis sóknarfæri í því að hafa hér „kennsluverksmiðju“ á víðum grunni í fiskvinnslu byggða á þekkingu og stöðugum tækniframförum.  Fiskvinnsluskóli Akraness og nágrennis.

Nr. 3. Standa vörð um Fiskimjölsverksmiðjuna (þá stærri) því við megum ekki gleyma því að hér er öflug fiskimjölsverksmiðja. Það eru vonbrigði að stjórnendur Brims skuli ekki hafa ákveðið að halda áfram með lagningu jarðstrengs að verksmiðjunni. Ekki síst í ljósi framkvæmda við Faxabraut og Þjóðbraut. Segja má að lagnaleiðin sé greið, stærstan hluta þess kafla sem er eftir.  Ég vil skora á stjórnendur Brims og bæjarstjórn að gefa þessu gaum og nýta tækifærið að skifta úr svartolíu yfir í rafmagn. Nýverið auglýsti Orkusjóður styrki til orkuskifta þ.e. verkefni sem minnka verulega eða skipta alveg út jarðefnaeldsneyti í framleiðslugreinum. Nú er lag.  Fiskimjölsverksmiðjan er mikilvæg tenging við áður nefndar vinnslur og ætíð verður hráefni til að þurrka og þróa, ekki síst gera okkur sjálfbær með framleiðslu á fóðri fyrir laxeldi og skepnufóður í landbúnaði. Þar ætti að gera stórátak með bændum og Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og Þörungaverksmiðjunni á Reykhólum. Veljum íslenskt fóður.

Nr. 4. Nú eru uppi hugmyndir um breytingu og nú þegar eru breytingar á Hafbjargarhúsinu á Breið, ég geld varhug við þeirri breytingu. Við verðum að standa vörð um atvinnulóðir.  Svæðið er iðnaðarsvæði en getur vel farið saman með skoðunarferðum í þeirri atvinnustarfsemi sem yrði þar.

Í þessu sambandi er vert að huga að því hvar við viljum byggja upp ferðamennsku og móttöku hópa. Vitinn verður alltaf þarna og ekkert að því að taka á móti fólki en farsælla er að hlúa aftur að Safnasvæðinu varðandi móttöku á ferðamönnum. Fyrir tæplega tuttugu árum var góð og markviss uppbygging á Safnasvæðinu í Görðum. Það komu um 25-27.000 heimsóknir þá sem var þó fyrir stóru ferðamannasprengjuna.  Við vorum með myndarlegt steinasafn, íþróttasafn ásamt okkar góða byggðasafni sem gengur nú í endurnýjun.  Hversvegna misstum við fókusinn á svæðið? Er það úthaldsleysi eða áhugaleysi kjörinna fulltrúa? Það er vissulega gaman að byggja upp og opna nýja staði, en síðan koma timburmennirnir… Hver á að borga brúsann? Það verður að vera stefna og stefnufesta. Því það eru bæjarbúar og útsvarsgreiðendur sem borga brúsann þegar „sveimað“ er á milli svæða.  Vegalengdir á Akranesi eru stuttar og betra að byggja afþreyingu fjarri iðnaðarlóðum en ekki sækja í þær.

Nr. 5.  Við verðum að stöðva þá þróun að íbúðabyggð „mylji“ undir sig iðnaðarlóðir líkt og er að gerast á Dalbrautarreit og víðar um bæinn. Þarna er sami háttur á og á höfuðborgarsvæðinu. Við skattgreiðendur keyptum ágætis hús á 200 milljónir, sem var svo stuttu seinna jafnað við jörðu. Ekki er öll vitleysan eins, sagði gamla konan.

Einnig þarf að hlúa að iðnaðargötum; Ægisbraut, Akursbraut, Dalbraut og fleirum, því ef við ætlum að hafa „jakkafata“ iðngarða inn í flóa verða að vera þróttmiklar lóðir fyrir drullukallana og verkstæðin.  Það voru jú sjómenn og harðduglegt fólk sem byggði þjóðfélagið upp. Blönduð byggð er eftirsóknarverð.

Búa þarf þannig um hnúta að eftirsóknarvert sé að sækja um og kaupa iðnaðarlóðir eða lóðir undir atvinnustarfsemi. Við verðum að standa nágrannasveitarfélögum á sporði og helst gera betur til að laða að atvinnu. Einnig allt er snýr að frágangi lóða til kaups, tengingum og þess háttar. Það gengur ekki að henda í umsækjendur einhverjum lóðum og láta þá um að ganga frá þeim svo að hægt sé að hefjast handa. Og síðast en ekki síst að hlúa vandlega að þeim fyrirtækjum sem eru til staðar í dag því hvert starf er dýrmætt. Við bæjarbúar, starfsmenn og kjörnir fulltrúar, ættum að spyrja okkur hvernig getum við staðið okkur betur í að vernda störfin okkar og skapa ný? Þetta er ekki eins flókið og við höldum.

Að síðustu vil ég minna á að skifta um fiskveiðistjórn sem allra allra fyrst. Kvótakerfið er upphaf ógæfu þessarar þjóðar og ekki síst Akraness.

Með baráttukveðju.

 

Stefán Skafti Steinólfsson.

Höf. er áhugamaður um atvinnumál.

 

Fleiri aðsendar greinar