Atvinnulíf sem blómstrar á Akranesi

Sandra Margrét Sigurjónsdóttir

Akranes byggðist upp í kringum sjávarútveg og landbúnað en hefur þróast í áranna rás. Öflugt atvinnulíf er grunnstoð í hverju samfélagi og starf frumkvöðla er mikilvægt.  Það er nauðsynlegt að atvinnuþróun sé ekki bara sjálfsprottin heldur einnig stefnumiðuð, þ.e. að sveitarfélagið marki sér stefnu um uppbyggingu í atvinnumálum og fylgi henni eftir. Á Akranesi hafa verið unnar atvinnustefnur í gegnum tíðina og nú er í gildi stefna sem samþykkt var í maí árið 2014.  Sú stefna var unnin upp úr samtali við íbúa og atvinnurekendur á Akranesi. Slíkt samráð er mikilvægt en grunnstefið í núgildandi stefnu Akraneskaupstaðar er að hlutverk bæjarfélagsins sé að skapa aðstæður fyrir fyrirtæki til að blómstra.

 

Stefnumörkun í atvinnumálum

Afurðir úr vinnustofum í tengslum við stefnumótun eru oftar en ekki settar fram á auðskiljanlegt form og í fallegar umbúðir en eftirfylgnin á það til að gleymast. Ég tel að við Skagamenn getum gert betur í að fylgja þeirri stefnu sem hefur verið sett. Til þess þurfum við að hafa skýra framtíðarsýn í huga við ákvarðanir sem teknar eru í bæði stórum og smáum málum frá degi til dags. Hluti af stefnumörkun er aðgerðaáætlun með tímasettum aðgerðum, markmiðum og mælikvörðum sem varða leiðina frá þeim stað sem við erum á og þangað sem við viljum komast. Slík aðgerðaráætlun þarf að vera í sífelldri rýni, uppfærð í samræmi við það hvernig umhverfið þróast frá einum tíma til annars. Samtalið við íbúa og atvinnurekendur á að vera reglulegt og hluti af markvissri vinnu í átt að framtíðarsýninni sem sett er fram í atvinnustefnu Akraneskaupstaðar. Við eigum að halda áfram á grunni þeirrar stefnu sem þegar hefur verið unnin í atvinnumálum, betrumbæta hana og setja fram markvissa aðgerðaáætlun sem stuðlar að því að við náum markmiðum okkar um fjölbreytt og sterkt atvinnulíf.

 

Aukna atvinnu á Akranes

Samkvæmt íbúakönnun SSV 2016 sækja um 12% Skagamanna vinnu á höfuðborgarsvæðinu og um 17% sækja vinnu á Grundartanga. Það eru því um 30% vinnuafls á Akranesi sem sækir vinnu í önnur sveitarfélög. Mikill meirihluti starfa á Akranesi eru unnin af íbúum Akraness. Við þurfum að sækja fram og fjölga atvinnutækifærum á Akranesi þannig að fleiri geti valið að búa og starfa í bænum okkar.

En hvernig byggjum við upp aðstæður sem styðja við núverandi atvinnustarfsemi og laða jafnframt að ný fyrirtæki? Það er að mörgu að hyggja í því sambandi, innviðirnir þurfa að vera í lagi svo sem samgöngur, hafnaraðstaða, áhugaverðar atvinnulóðir, aðgengi að rafmagni, fráveitumál og styrkar gagnaflutningsleiðir. Mannauður og aðgengi að þjónustu og mörkuðum er annað sem fyrirtæki horfa til. Þjónusta og iðnaður í tengslum við athafnasvæðið á Grundartanga hefur byggst upp og myndað starfsgrundvöll fyrir mörg fyrirtæki á Akranesi en hér eru mörg öflug fyrirtæki og stofnanir og ánægja þeirra er mikilvæg ef við ætlum að laða til okkar fleiri fyrirtæki með fjölbreytt störf.

 

Klasahugsun í ferðamálum

Ferðamennska hefur verið í vexti og þar eru tækifæri sem við Skagamenn þurfum að nýta okkur. Bæjarfélagið og atvinnurekendur þurfa að taka höndum saman og vinna með markvissum hætti að því að fjölga ferðamönnum sem vilja nýta þá þjónustu og afþreyingu sem hér er boðið upp á. Ýmislegt hefur verið gert, ferjan Akranes, markaðssetning á Vitanum og samtal við grasrótina. Uppbygging á Frístundamiðstöð við Garðavöll, Guðlaug og fyrirhuguð uppbygging íþróttamannvirkja eru sóknarfæri sem munu laða til okkar fjölda gesta. Samstarf í anda klasafræðanna þar sem fyrirtæki og opinberir aðilar taka höndum saman er eitthvað sem við ættum að skoða til að setja enn meiri kraft í þessa sókn.

Höldum áfram og byggjum upp atvinnu á Akranesi.

 

Sandra Margrét Sigurjónsdóttir

Höfundur skipar 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins á Akranesi til bæjarstjórnarkosninga í vor.

Fleiri aðsendar greinar