Athugasemdir vegna málefna Lauga

Sveitarstjórn og sveitarstjóri Dalabyggðar

Eftirfarandi athugasemdir óskast birtar vegna opins bréfs Eyjólfs Ingva Bjarnasonar til sveitarstjórnar Dalabyggðar dags. 21. maí 2018 og birtist á Facebook síðunni Íbúar Dalabyggðar og í Skessuhorni. Í bréfi Eyjólfs Ingva eru nokkur atriði sem eru ýmist misvísandi eða röng verða þau ekki réttari þó þau séu endurtekin aftur og aftur

1. Almennt tekur sveitarstjórn til umfjöllunar þau erindi sem henni berast og væntanlega verður sá háttur einnig hafður á í nýrri sveitarstjórn.

Fulltrúi Arnarlóns ehf. gerði athugasemdir við afgreiðslu sveitarstjórnar frá 17. apríl sl. með tölvupósti dags. 20. apríl sl. sem beint er til sveitarstjórnar og óskað eftir formlegum fundi. Þann 13. maí leggur síðan fulltrúi Arnarlóns ehf. fram tillögu sem sýnist koma til móts við skilyrði sveitarstjórnar sem sett voru fram í desember 2017 og hafa áður verið kynnt.

Það væri í hæsta máta óeðlileg stjórnsýsla að taka málið ekki til umræðu á næsta fundi sveitarstjórnar. Sveitarstjórn er kosin til fjögurra ára í senn og ber skylda til að rækja hlutverk sitt. Umboð sitjandi sveitarstjórnarmanna er jafn gilt og ábyrgð jafn mikil daginn fyrir kosningar og daginn sem sveitarstjórnin hóf störf.

2. Rétt er að Sælingsdalstunga sé lögbýli og bújörð. Í gildi er leigusamningur sem gildir til 15. júní 2028. Aðilar geta sagt upp samningnum og skal það þá gert um áramót með a.m.k. 18 mánaða fyrirvara.  Ekki er um að ræða ábúðarsamning og því á leigutaki ekki forkaupsrétt að jörðinni.

3. Rétt er að í lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu nr. 57/1998 er ákvæði um forkaupsrétt ríkisins að jörðum með jarðhitaréttindi.

Ætla má að hægt sé að selja heitt vatn frá hitaveitunni á Laugum fyrir 6 – 7 millj. kr. á ári ef gert er ráð fyrir að t.d. sundlaug sé í fullum rekstri allt árið. Ekki er raunhæft að bæta við mörgum notendum á veituna eins og hún er.  Heitavatnsréttindin á Laugum eru góð eign meðan allt gengur vel en síðri þegar kemur að stórfelldri endurnýjun s.s. borun nýrrar vinnsluholu sem getur kostað hundruðir milljóna.  Ríkið metur hvort það vilji nýta forkaupsrétt þegar fyrir liggur hvort gengið verður til samninga um sölu.

4. Sveitarstjóri hefur átt ágæt samskipti við meðeiganda Dalabyggðar að Laugum við gerð deiliskipulags og við undirbúning sölunnar enda ýmislegt sem taka hefur þurft tillit til s.s. ófullgerðir samningar sem gerðir voru áður en Dalabyggð eignaðist hlut í Laugum. Hefur verið tekið fullt tillit til hagsmuna meðeiganda. Fasteignasalinn hefur kannað hug meðeiganda til hugsanlegs forkaupsréttar.  Ekki kom fram áhugi í þeim viðræðum.

5. Fyrirspurn Jóns Egils Jóhannssonar varðandi hugsanlegan áhuga Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á eignum Dalabyggðar var svarað á íbúafundi að höfðu samráði við endurskoðanda. Jöfnunarsjóður hefur staðfest að sala fasteigna Dalabyggðar muni ekki hafa áhrif á framlög Jöfnunarsjóðs. Við útreikning framlaga til sveitarfélagsins er tekið tillit til ýmissa breyta svo sem íbúafjölda o.fl. Þá er tekið tilliti til skatttekna þ.e. útsvars og fasteignaskattstekna en ekki er horft til eigna eða skulda.

 

Sveitarstjórn og sveitarstjóri Dalabyggðar