Athugasemd við athugasemd og dylgjur!

Guðsteinn Einarsson

Ég hef í nokkrum greinum í Skessuhorni gert grein fyrir aðkomu Borgarlands ehf að skipulagi Borgarbrautar 59 í Borgarnesi. Svo virðist að sumum þóknist ekki veruleikinn um upphaf og þróun skipulags á lóðinni.  Sigurður Guðmundsson, íbúi og skattgreiðandi í Borgarbyggð, er greinilega einn af þeim.  Með hliðsjón af þeim greinum sem ég hef skrifað um þetta þá eru það nokkuð langsóttar dylgjur Sigurðar að ég vilji eða geti ekki svarað spurningum um aðkomu Borgarlands ehf og ástæðum þess að félagið kærði deiliskipulagið á umræddum lóðum.

Það er rétt að halda því til haga að það er besta mál að hafin sé uppbygging á lóðunum Borgarbraut 57-59.  Borgarland ehf hefur engar athugasemdir gert við byggingu hótels eða aðra uppbyggingu á svæðinu. Borgarland ehf kærði deiliskipulag að Borgarbraut 55-59 vegna þess að þar var gert ráð fyrir byggingarmagni langt umfram leyfileg mörk skv. aðalskipulagi.  Afleiðing þeirrar miklu nýtingar á lóðunum var sú að verulega vantaði uppá að nægjanlegur fjöldi bílastæða væri til staðar, fyrir íbúðirnar, hótelið og þjónustustarfsemina sem á að verða á lóðunum.  Þessar áhyggjur Borgarlands ehf voru staðfestar í bókun byggingarfulltrúa og forstöðumanns Umhverfissviðs Borgarbyggðar með útgáfu byggingarleyfis en hægt er að lesa sér betur til um bílastæðamálin í fundargerð nr. 122, afgreiðslufundar byggingarfulltrúa dags. 16. september 2016.

Að auki þarf að hafa í huga að bílastæðin á Borgarbraut 57 og 59 áttu flest að vera Kjartansgötumegin þannig að þeir sem kæmu að framhlið hótels- og þjónusturýma, Borgarbrautarmegin hefðu í fá bílastæði að leggja. Líkleg afleiðing þessa væri sú að þeir sem sæktu þjónustu á Borgarbraut 57-59 mundu sækja í næstu bílastæði, sem eru bílastæðin við Hyrnutorg, Borgarbraut 58-60 húsinu handan við Borgarbrautina, húss sem er að mestu í eigu Borgarlands ehf.  Þau bílastæði tilheyra viðskiptavinum Hyrnutorgs, ekki öðrum, en eins og vel þekkt er þá eru stæðin við húsið vel nýtt, sérstaklega á álagstímum yfir sumarið.

Niðurstaða Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála var alveg skýr; deiliskipulagið væri ekki í samræmi við aðalskipulag Borgarbyggðar og það var fellt úr gildi.  Hluti af málflutningi Borgarbyggðar var að fá kæru Borgarlands ehf vísað frá á þeim forsendum að félagið hefði ekki hagsmuna að gæta í málinu. Úrskurðarnefndin gerði ekkert með þann málflutning og er niðurstaðan því sú að Borgarland ehf eigi lögvarða hagsmuna að gæta við úrlausn málsins.

Hvað varðar þá margtuggðu fullyrðingu að unnið sé á forsendum deiliskipulags sem Borgarland ehf hafi unnið að þá endurtek ég það einu sinni enn að það er þvæla. Hvað sem öðru líður þá er regin munur á því hvort byggja eigi íbúðarblokk með 30 íbúðum þar sem nýtingarhlutfall lóðar yrði 1,5 eða það stórhýsi sem nú er verið að byggja þar sem nýtingarhlutfall lóðar er 2,41.  Umferð og bílastæðafjöldi sem fylgir slíku stórhýsi er langtum meiri og umferð þyngri en sú sem fylgdi byggingu íbúða á sömu lóð.

Síðan má rifja það upp fyrir Sigurð Guðmundsson og aðra að Borgarland ehf hætti við framkvæmdir að Borgarbraut 59 og seldi verkefnið þar sem ekki var vilji hjá stjórnendum og eigendum að standa í illdeilum við íbúana á svæðinu.

 

Borgarnesi, 2. desember 2016.

F.h. stjórnar Borgarlands ehf

Guðsteinn Einarsson.

Fleiri aðsendar greinar