Ásýndarmyndir fyrir vindorkugarð StormOrku í Dalabyggð

Sigurður og Magnús hjá StormOrku

StormOrka ehf. hefur undanfarin ár unnið að uppbyggingu vindorkuvers að Hróðnýjarstöðum í Dalabyggð. Samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021 er liður í þeirri vinnu að meta vænt áhrif framkvæmdanna á umhverfisþætti (mat á umhverfisáhrifum (MÁU). Sjónræn áhrif er einn þeirra þátta sem meta skal þegar vindorkuver eiga í hlut.

Mat á sjónrænum áhrifum er gert samkvæmt aðferðafræði sem þróuð hefur verið hjá systurstofnun Umhverfisstofnunar í Skotlandi, NatureScot, og byggir á því m.a. að útbúa ásýndarmyndir, en þá eru teknar ljósmyndir frá ákveðnum sjónarhornum og í þar til gerðum tölvuhugbúnaði eru fyrirhugaðar vindmyllur settar inn á myndirnar í réttum hlutföllum og á þeim stöðum sem áætlað er að þær rísi. Með þessu má fá góða hugmynd um hvernig vindmyllurnar muni líta út frá þessum sjónarhornum og þá hver áhrifin gætu orðið á landslagið. Hluti af ferlinu er að velja myndatökustaði fyrir þessi sjónarhorn.

Verkfræði- og ráðgjafafyrirtækið COWI (áður Mannvit) hefur tekið að sér gerð matsins fyrir StormOrku og hefur lagt fram tillögu að 25 myndatökustöðum. Val á ásýndarmyndapunktum og framsetning korta og mynda í umhverfismati fylgja leiðbeiningum NatureScot um myndræna framsetningu vindorkugarða. Í samræmi við leiðbeiningarnar er við val á ásýndarmyndapunktum leitast við að velja dæmigerð sjónarhorn sem sýna sem fjölbreyttust sjónarhorn að framkvæmd, þ.e. frá fjölbreyttum stöðum, í mismunandi fjarlægð og hæð y.s. miðað við framkvæmd, frá mismunandi landslagsgerðum og úr mismunandi áttum. Við val á fjölbreyttum stöðum er leitast við að velja staði sem endurspegla sem fjölbreyttastan hóp fólks (sjónræna viðtaka), þ.e. staði þar sem fólk er líklegt til að sjá vindmyllur t.a.m. á vegum, gönguleiðum, áningarstöðum, þekktum útivistarsvæðum, ferðaþjónustustöðum og frá híbýlum. Staðir eru einnig valdir út frá sýnileika, þ.e.a.s. þeir staðir sem valdir eru fyrir ásýndarmyndatöku eru allir innan sýnileika eða þar sem gert er ráð fyrir að sjáist í vindmyllur samkvæmt fræðilegum sýnileika. Að auki er gert ráð fyrir samlegðaráhrifum á völdum myndatökustöðum vegna annarra nálægra vindorkugarða.

Skipulagsstofnun hefur yfirfarið hugmyndir COWI og lagt til að almenningi verði gefinn kostur á að hafa skoðun á málinu og leggja til önnur sjónarhorn sem einhverjum kann að þykja skipta máli í þessu samhengi. COWI hefur því, að ósk StormOrku, gert sýnileikakort þar sem má sjá þá myndatökustaði sem er lagt til að notaðir verði. Í heildina er gert ráð fyrir 25-30 sjónarhornum fyrir vindorkugarðinn að Hróðnýjarstöðum enda er ekki talið betra að hafa myndatökustaðina of marga.

StormOrka býður nú öllum þeim sem hug hafa á að merkja inn á kortið þá staði sem þeim þykir mikilvægt að teknir verði til greina við val á endanlegum myndatökustöðum.

Með leyfi Dalabyggðar liggur kortið frammi á skrifstofum Dalabyggðar að Miðbraut 11, Búðardal en auk þess er hægt að sjá kortið og skila tillögum og athugasemdum á heimasíðu StormOrku www.stormorka.is

Að ósk sveitarfélagsins Dalabyggðar skal það skýrt tekið fram að gagnaöflun þessi er ekki hluti af formlegu skipulagsferli verkefnisins og er því alfarið á ábyrgð StormOrku ehf.

 

Sigurður Jóhannesson

Magnús Jóhannesson

Höfundar eru eigendur StormOrku ehf