Ástand gatna á Akranesi

Rúnar Ólason

Í öllum kosningum síðan ég fór að fylgjast með málum hér á Akranesi hefur verið talað um að bæta ástand gatna hér í bæ. Núna, þremur heilum kjörtímabilum síðar, hafa örlitlar bætur orðið í málaflokknum. Vissulega er búið að lagfæra nokkrar götur en sú vinna hefur einfaldlega verið dropi í hafið hvað varðar uppsafnaða þörf á viðhaldi gatna. Áhugaleysið hvað lagfæringu gatna varðar endurspeglast í því að samkvæmt ársreikningi Akraneskaupstaðar fyrir árið 2017 voru rúmlega 70 milljónir króna af áætlaðri fjárfestingu í götum og gangstígum ónotaðar, árið áður var viðhaldsfjárfestingin 21 milljón undir áætlun. Þannig að í stað þess að taka ákvörðun um að laga einhvern hluta af gatnakerfi bæjarins eða gangstéttar var tekinn meðvituð ákvörðun um að einfaldlega gera minna en áætlað hafði verið, sem nemur 91 milljón króna á árunum 2016-2017.

Skiltið sem stendur við Akratorg og bendir til allra vinabæja Akraness þykir mér lýsandi fyrir áhugaleysi núverandi meirihluta hvað varðar viðhald gatna.  Þar höfum við finnska bæinn Närpes, en samkvæmt skiltinu er þessi vinabær okkar í vesturátt, sem passar álíka vel við raunveruleikann og allt tal um langtímaáætlun í viðhaldi gatna þegar ekki nema hluti þeirra fjármuna sem áætlað er að verja til þess er á endanum varið í viðhaldið.

Með núverandi hraða mun vinnu við endurbætur gatna hér á Akranesi ljúka um það leiti sem götur verða úreltar eða eins og Dr. Brown sagði við Marty McFly í lok Back too the Future „Götur? Þangað sem við erum að fara þurfum við ekki götur.“

 

Rúnar Ólason

Höfundur skipar 2. sæti á lista Miðflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar á Akranesi

 

Fleiri aðsendar greinar