Áskorun

Guðmundur Þorsteinsson

Ótal dæmi eru þekkt um tegundir dýra og plantna sem hafa verið fluttar á ný svæði í jákvæðum tilgangi en hafa svo reynst vágestir í vistkerfunum.

Hérlendis er alþekkt dæmið um úlfabaunina (lúpínuna) sem vex yfir lyng- og mólendi og kæfir allan annan gróður. Hún má þó, skömmin sú arna, eiga það að að hún þrífst hvað best á örfoka landi þar sem aðrar plöntur eiga erfitt uppdráttar og eru Hafnarmelarnir gott dæmi um hæfni hennar til jarðvegsbindingar.

Þær málsbætur á kerfillinn hins vegar ekki. Hann sækir í frjósaman jarðveg og veður yfir og kæfir annan lággróður eins og best sést í undirhlíðum Esjunnar við Mógilsá. Í Eyjafirði er útbreiðsla hans mikið áhyggjuefni heimamönnum sem hafa barist við hann síðustu ár með ærnum kostnaði en gengur þunglega.

Kerfil má víða finna hér í Borgarfirði, t.d. á Hvanneyri þar sem hann hefur náð sér vel á strik og væri það verðugt verkefni að kanna leiðir til að stemma stigu við frekari útbreiðslu hans þar. Það er hins vegar ekki auðvelt eða einfalt eins og reynsla Eyfirðinga sýnir, en fyrsta skref er að hamla útbreiðsu hans á nýjum svæðum.

Ég hef tekið eftir því að meðfram veginum frá Vatnshömrum og uppfyrir vegamótin hjá Hesti eru að koma upp brúskar af kerfli sem breiða úr sér frá ári til árs. Ennþá er vinnandi vegur að uppræta hann þarna en það verður torvelt eftir nokkur ár ef ekki er brugðist við í tíma.

Í fyrra vakti ég athygli bæði Borgarbyggðar og Vegagerðarinnar á þessu máli en fékk litlar undirtektir. Fulltrúi Borgarbyggðar taldi vegsvæðið tilheyra Vegagerðinni, hún aftur á móti taldi málefnið ekki snerta hagsmuni sína. (Minnir aðeins á Heródes og Pílatus).

Að minni hyggju ætti Borgarbyggð að sinna þessu máli, sem hlýtur að vera á ábyrgð og forræði hennar og, ef viji er fyrir hendi, hlýtur að vera hægt að ná samkomulagi við Vegagerðina um aðgerðir.

Sem fyrsta skref ætti að fela vinnuflokki Borgarbyggðar að slá þessa kerfilbrúska í sumar áður en fræ þroskast svo hann sái sér ekki frekar út. Það tæki varla nema part  úr degi. Síðan mætti undirbúa aðgerðir til að eyða honum og mætti þar leita til Eyfirðinga um ráð.

Ég skora á forsvarsmenn Borgarbyggðar bregðast við þessar málaleitan með virkum og skjótum hætti.

 

Guðmundur Þorsteinsson (ekki á neinum framboðslista)

 

Fleiri aðsendar greinar