Áskorun til sveitarstjórnar Borgarbyggðar

Heiður Hörn Hjartardóttir

Inn um lúguna okkar hefur laumast bréf frá Vegagerðinni, stílað þann 13. september sl. og efni þess er rannsóknir og byrjunarathuganir vegna fyrirhugaðra vegaframkvæmda Hringvegar og færslu Sæfellsnesvegar.

Í bréfinu er eigendum Bjargs 2 tilkynnt að vegna fyrirhugaðra framkvæmda við nýja legu Hringvegar 1 meðfram Borgarnesi og færslu Snæfellsnesvegar þurfi starfsmenn Vegagerðarinnar að hefja rannsóknir og gera byrjunarathuganir á vegstæðinu sem gert er ráð fyrir að liggi um eða við landareign sem tilheyrir Bjargi 2, landnr. 219257.

Fram kemur að umrætt verkefni hafi þegar verið sett inn á samgönguáætlun og Alþingi samþykkt að farið verði í umræddar vegaframkvæmdir. Vegagerðinni hafi verið falið að undirbúa verkið og bjóða það út og því nauðsynlegt fyrir starfsmenn Vegagerðarinnar að fara um landið sem gert er ráð fyrir að nýi vegurinn muni liggja um. Eigendum sé skylt að veita aðgang að landi sínu, heimila aðgang bifreiða og léttra vinnuvéla á grundvelli 34. gr. vegalaga nr. 80/2007.

Sveitarstjórn er kosin af íbúum sveitarfélagsins til að vera fulltrúi íbúanna og gæta hagsmuna þeirra. Því biðjum við sveitarstjórn Borgarbyggðar að vera gagnrýna á það sem við þau er sagt og sækja þekkingu til annarra þegar þörf er á. Við ætlumst ekki til að þið hafið svörin við öllu. Ekki samþykkja hugmyndir sem koma inn á ykkar borð hvort sem eru frá mönnum eða stofnunum án gagnrýnnar hugsunar og vera óhrædd við að leita þekkingar til óháðra sérfræðinga.

Hvernig umhverfi okkar er skipulagt skiptir íbúana miklu máli til að íbúunum líði vel. Vegstæði þjóðvegar við eða gegnum bæinn okkar á ekki að vera smekksatriði, eitthvað sem við höldum að geti virkað eða lítur vel út á blaði. Slík ákvarðanataka á að byggjast á kerfisbundinni gagnasöfnun þar sem metin eru áhrifin á íbúana sem og lífríkið. Við eigum að skipuleggja og móta framtíð sem styður við andlega og líkamlega velferð samfélagsins en ekki einblína á að aðrir komist örlítið hraðar á áfangastað.

Við ábúendur á Bjargi skorum hér með á sveitarstjórn Borgarbyggðar að láta gera sjálfstæða rannsókn og mat á áhrifum á þeirri veglínu sem fyrirhuguð er úti í firðinum, bæði fyrir núverandi og verðandi íbúa á svæðinu sem og vegna útivistarsvæða sem næst eru veglínunni en ekki síst mat á áhrifum á annað lífríki. Fá óháða sérfræðinga, svo sem umhverfissálfræðinga, líffræðinga og aðra til að hefja vinnu við gagnasöfnun og gera niðurstöður aðgengilegar fyrir íbúa sveitarfélagsins til að auka þekkingu og skilning þeirra á samspilinu. Gefa íbúum tækifæri að nýta vísindin til að stilla upp möguleikum og móta þar með skoðun sína á framtíð vegstæðisins og sveitarfélagsins byggða á óháðum rannsóknum. Ákvarðanataka um mál sem hefur jafnmikil áhrif og fyrirhugað vegstæði á ekki að vera á höndum nokkurra sveitastjórnarmanna án alls samráðs og samtals við íbúa sveitarfélagsins.

Við ítrekum boð okkar til sveitastjórnar og íbúa frá því 26. janúar sl. um að koma og upplifa svæðið næst fyrirhugaðri veglínu og munum að í hvert skipti sem við tökum ákvörðun breytum við framtíðinni og að komandi kynslóðir þurfa að lifa með þeim ákvörðunum sem við tökum.

 

Heiður Hörn Hjartardóttir og fjölskylda, Bjargi