Áskorun og hvatning

Stefán Skafti Steinólfsson

Ágætu lesendur!

Hún var öflug og góð ályktun bæjarstjórnar Akraness frá 8. september síðastliðnum um starfsemi og fjárfestingar á Grundartangasvæðinu. Það er mjög mikilvægt að vernda hvert einasta starf og ekki síst í dag á erfiðum tímum.  Vel gert.

Nú vil ég hvetja bæjarstjórn Akraness að snúa sér að störfum innanbæjar og bæði beinum og afleiddum störfum. Á fiskveiðiárinu sem er nýhafið eru mikið úthlutað til Akraness af þorskígildistonnum (ÞÍG) Allt saman gott og blessað og er skráð á skip sem eru með skipaskrárstafina AK.  En ekki er allt sem sýnist. Einungis örlitlu af þessu magni er landað á Akranesi eða hefur tengingu þangað, utan þeirra beina og afskurðar er þurrkað er í fiskimjölsverksmiðjunni. Nú er hún Snorrabúð stekkur og karlarnir ekki kátir, eða sækja sjóinn, eins og áður sagði í góðum texta. Lítum á listann yfir skipin fiskveiðiárið 2020-2021.

Nafn á Skipi   Þorskígildistonn ÞÍG Landar á Akranesi
Akurey AK 10   7.269.841 Nei
Höfrungur AK 250   6.123.086 Nei
Víkingur AK 100   1.667.108 Nei
Bjarni Ólafsson   599.955 Nei
    Samtals: 15.659.990  
Ebbi  AK 37   146.907
Ísak AK 67   76.188
Þura AK 79   44.126
Erla AK 52   15.571
Leifi AK 2   1.211
    Samtals: 284.003  
Samtals kvóti úthlutað á Akranes.   15.943.993  ÞÍG  

(Heimild: www.fiskistofa.is)

Nú vil ég skora á bæjarstjórn Akraness, þingmenn Norðvesturkjördæmis, SSV, Faxaflóahafnir og nýstofnað þróunarfélag um Breiðarsvæðið að leita eftir því að eitthvað af þeim mikla afla sem skráður er á Akranes verði landað og unnið á staðnum. Náist ekki samkomulag um það verði skipin skráð annarsstaðar. Meðan notast er við núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi, og séu aflaheimildir skráðar á staðnum, er ekki hægt að sækja um byggðakvóta (sem er þó í raun ölmusa í ranglátu kerfi.)

Nú standa tvö frystihús og stærri fiskimjölsverksmiðjan verkefnalaus hér á Akranesi. Smám saman hefur fjarað undan veiðum og vinnslu, ekki langt síðan að stórir vinnustaðir á Akranesi veittu flæði fjármagns og atvinnu á staðinn. Nú er það að langmestu leyti horfið og svefnbæjarbragur á bænum. Undarleg hefur mér þótt sú þögn og áhugaleysi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) og þingmanna Norðvesturkjördæmis um afdrif fiskveiðiheimilda frá Vesturlandi sem hafa verið að sogast til Reykjavíkur og Skagafjarðar.

Það er mikil sóun í þessu árferði, þar sem milljarðatugi vantar í þjóðarbúið og fleiri störf, að ekki sé rekin öflug fiskvinnsla á Akranesi með öllum þeim afleiddu störfum sem fylgja. Eins og kunnugt er lögðu Faxaflóahafnir upp með að gera Akraneshöfn að mikilli fiskihöfn. Þeir samningar hafa ekki gengið eftir því höfnin er ekki svipur hjá sjón, né tekjur af henni. Segja ætti samningnum upp. Blessunarlega standa þeir kvóteigendur sem enn landa hér og strandveiðiflotinn undir rekstri fiskmarkaðarins.  En hart er sótt að strandveiðisjómönnum svo ekki sé minnst á hörmulega stöðvun ráðherra á grásleppuveiðum í vor. Þá hefði bæjarstjórn og þingmenn ásamt ráðherrum NV kjördæmis átt að láta heyra í sér hresslega.

Akurnesingar verða að hafa kjark til að taka málin í eigin hendur og hefja útgerð líkt og áður var gert og samfélagið byggt upp. Þá þurftum við hvorki kvótakerfi né veiðigjöld.  Veiðigjald er stærsta smörklípa Íslandssögunnar, til að réttlæta ranglátt kvótakerfið. Þegar skift verður um fiskveiðistjórnunarkerfi, sem er óumflýjanlegt sökum stórra galla þess, þarf Akranes að vera tilbúið til að taka á móti afla, þora að sækja fram og vera til fyrirmyndar í meðhöndlun afla og sölu. Ekki síst væri það blóm í hnappagat Skagans 3X að vera með vinnslu á staðnum og þróa og kynna sinn búnað líkt og gert var með Haraldi Böðvarsyni HF. Það prjónar vel við háskólasamfélagið og verðmætari störf. Allt sem þarf er pólitískur vilji, kjarkur og þor. Í raun vantar eitt stykki uppsjávarfrystihús á Akranes.

Að síðustu vil ég hvetja til þess að skift verði um fiskveiðstjórnunarkerfi sem fyrst. Árangur þess er vægast sagt lélegur hvort sem litið er til veiða eða byggðasjónarmiða.

 

Stefán Skafti Steinólfsson.

Höf. er áhugamaður um sjávarnytjar.

Fleiri aðsendar greinar