Áskorun og ákall vegna Brákareyjar

Jón G Guðbjörnsson

Þann 5. nóvember síðastliðinn birtist á vefsíðu Borgarbyggðar yfirlýsing undir ofanritaðri fyrirsögn. Tæpt er á því að sveitarfélaginu hafi borizt áskorun um að leita leiða til að endurvekja starfsemi í gamla sláturhúsinu. Ekkert er nánar að finna um innihald þessarar áskorunar í yfirlýsingunni sem raunar kemur ekki fram í hvers nafni er rituð; hvort það er í nafni sveitarstjórnarinnar eða er hugarsmíð sveitarstjórans. Það síðarnefnda þykir mér líklegra því margt kemur þar kunnuglega fyrir sjónir úr orðræðu sveitarstjórans um starfsemina í Brákarey og húsnæðið þar. Eigi að síður verður að líta á yfirlýsinguna sem sveitarstjórnarinnar. Yfirlýsing þessi verður svo fréttaefni í síðasta tölublaði Skessuhorns en að sjálfsögðu fer engum sögum af tilvitnaðri áskorun þar enda blaðinu ekki tiltæk. Því langar mig að biðja ritstjórann um að birta áskorunina orðrétta hér í blaðinu. Hún er svohljóðandi með eftirfarandi yfirskrift:

„Áskorun og ákall til sveitarstjórnar Borgarbyggðar vegna starfseminnar í gamla sláturhúsinu í Brákarey.

Eins og sveitarstjórninni er vel kunnugt hefur margháttað menningar-, tómstunda- og afþreyingarstarf náð að springa út og blómstra í gamla sláturhúsinu í Brákarey undanfarin tíu ár; þökk sé m.a. sveitarstjórnum byggðarlagsins sem hafa verið við völd á þessu tímabili eða eigum við heldur að segja; kjörnar til að verja og styrkja hag íbúa þess. Áhugafólk og hugsjónafólk kom auga á þá fjölbreyttu möguleika sem þetta gamla hús hefur upp á að bjóða. Við því var brugðist með opnum huga sveitarstjórna. Þess vegna kom „íbúum“ hússins í opna skjöldu, í byrjun þessa árs, hin skyndilega lokun hússins og algert bann á alla starfsemi þar. Er þetta bann svo algjört að aðeins er heimil umferð um húsið undir vökulu eftirliti forstöðumanns áhaldahúss sveitarfélagsins vegna brýnna erinda stutta stund í senn. Bann þetta er einnig svo algjört að ekkert svigrúm er gefið til að vinna að endurbótum með vísan til þeirra athugasemda sem opinberir eftirlitsaðilar hafa sett fram. Það var mikið slys þegar þetta lokunarmál kom upp s.l. vetur að sveitarstjórnin skyldi bregðast svo blint og harkalega við vegna ábendinga og krafna eftirlitsaðila.

Það þarf vart að minna sveitarstjórnina á skyldur hennar í ýmsum málaflokkum sem varða íbúa byggðarlagsins á hvaða aldri sem þeir eru. Víst er einnig að sveitarstjórnarfólk gefur fyrst og fremst kost á sér til slíkra starfa til að láta gott af sér leiða. Í gamla sláturhúsinu í Brákarey hefur eflst starfsemi sem varðar unga sem aldna miklu, er þroskandi, heilsueflandi og samfélagslega væn á alla lund. Þetta er starfsemi sem léttir undir með skyldum sveitarfélagsins. Því er það satt best að segja ósanngjarnt að halda því helst á lofti að leigjendurnir búi við hagstæð leigukjör. Heldur ætti að gleðjast yfir því að sveitarfélagið skuli eiga húsnæði sem getur hentað til svo margs. Lítið á húsið sem verðmæta eign; lítið á það sem höll; Tómstundahöllin í Brákarey. Hvernig hljómar það t.d.? Þetta hús er ekki fyrir neinum þar sem það stendur, hvað sem fólk svo hugsar eða sér fyrir sér að öðru leyti um framtíðaruppbyggingu í eyjunni. En sveitarstjórnin þarf samt að gera sér grein fyrir því að hún verður að taka þátt í að bæta úr áratuga löngu vanræktu viðhaldi hússins. Núverandi notendur geta ekki tekið þá vanrækslu alla á sig en þeir eru góðir liðsmenn í þeim efnum þegar til þarf að taka. Já gott sveitarstjórnarfólk í Borgarbyggð. Þið eigið hauka í horni úti í Brákarey. Vanmetið það ekki. Setjið okkur ekki út á götu, ekki út af eynni. Þið hafið ekki ráð á því. Það er ekki of seint ennþá að taka upp samtalið. Því skorum við á ykkur að leita með okkur allra leiða svo hægt verði að endurvekja starfsemina í gamla sláturhúsinu í Brákarey. Látið verkin tala.

Að lokum: Aðgerðir eins og þær sem íbúar gamla sláturhússins í Brákarey hafa orðið að sæta geta ekki með nokkru móti talist meðalhóf. Það er ekki góð stjórnsýsla að eiga ekki samtal við þá sem sem slíkar aðgerðir beinast að og gefa þeim ekki kost á að bregðast við. En úr því má bæta sé til þess vilji.

Borgarnesi 10. október 2021.“

——–

Hér er lokið beinni tilvitnun. Undir áskorunina rituðu formenn Fornbílafjelagsins, Bifhjólafélagsins, Skotfélagsins, Golfklúbbsins og Pútthópsins, allt félög sem standa fyrir samfélagsvænni starfsemi í Brákarey.

Undirritaður telur ekki nauðsynlegt að skýra út fyrir lesendum hvað í þessu ákalli felst. Mörg þeirra atriða sem á var bent í skýrslum eftirlitsaðila má vel laga með litlum tilkostnaði en einhverri fyrirhöfn. Eldvarnaeftirlit er eðlilegt en það verður að veita svigrúm, bæta úr því sem ábótavant er. Félagsmenn nefndra félaga hafa sýnt það í verki hvers þeir eru megnugir en þeim er bara ekki hleypt inn til að lagfæra eitt né neitt. Enda gerist ekki neitt. Sveitarstjórnin vill ekki að neitt sé gert fyrir þetta hús. Það hefur orðið deginum ljósara eftir því sem tíminn hefur liðið frá lokuninni. Sex hundruð fimmtíu og fjögurra milljóna kostnaður við lagfæringar skv. mati Verkís sem sveitarstjórinn heldur mjög á lofti er enginn stóri sannleikur. Fyrir það fyrsta þá varða 199 m.kr. réttarskemmuna, þ.e.a.s. að byggja nýja fyrir þá gömlu. Töluverður hluti fjárhæðarinnar sem eftir stendur snýr að kostnaði sem færi í að brjóta niður og fjarlægja byggingarhluta sem eru gamla sláturhúsinu óviðkomandi, nemur 76 mkr. Það þarf að gera hvort sem er. Eftir standa þá 379 mkr. sem mundi kosta að laga gamla sláturhúsið skv. Verkís. Eigi að síður er það há upphæð en ofmat að áliti margra sem til þekkja í þessum húsakynnum. Þar í hópi eru menn með fagmenntun á sviði byggingaframkvæmda og fleiri iðna og eru ekki síðri sérfræðingar en aðrir sem að sunnan koma. Slökkviliðsstjórinn hefur sagt að ef bætt er úr þeim aðfinnslum sem gerðar eru kjallaranum með fullnægjandi hætti þannig að þar verði sér brunahólf sjái hann ekki meinbugi að opna fyrir starfsemi þar.

Það er rangt að sveitarstjórnin hafi haldið uppi einhverju samtali við þá aðila sem voru með starfsemi úti í Brákarey. Það er alveg ljóst að sveitarstjórnin vill þá starfsemi burt þótt hún viti ekkert hvað hún vill með eyjuna. Sveitarstjórnin undir forystu sveitarstjórans hefur ekki lyft litla fingri til stuðnings áframhaldandi starfsemi þar. Þannig er það bara. Það er ýmsum annmörkum háð að flytja starfsemina sem félagasamtökin hafa komið sér upp úti í Brákarey eitthvert annað. Þau búin að kosta miklum fjármunum og leggja mikla vinnu af mörkum við að koma sér þar fyrir. Það yrði þeim glötuð verðmæti fyrir utan það, að það er fátt í boði í bráð annars staðar sem mundi gagnast þeim. Starfsemi þeirra og fjárhagur myndi laskast verulega um ófyrirsjáanlegan tíma og í sumum tilvikum einnig til mikils tjóns fyrir samfélagið.

Kjallarann í Hjálmakletti er óhentugur fyrir púttverja. Aftur á móti samgleðst ég yfir þeirri framtíðarsýn sem felst í lýðheilsustöð að Hamri. En þangað til það verður að veruleika þarfnast golfklúbburinn aðstöðunnar sem hann hefur komið sér upp í Brákarey. Sama er að segja um Skotfélagið en því „hefur verið boðin aðstaða til uppbyggingar til umsóknar“. Sýnist ekki fast í hendi það. Kannski er meira hald í húsnæði sveitarfélagsins sem Raftarnir eru sagðir vera að skoða. Vonandi. „Fornbílafjelaginu hefur verið boðið að borðinu um samtal um kaup á hluta fasteignar Borgarbyggðar að Brákarbraut 27“ sem er réttarskemman. Nei, nei, við fengum ábendingu um að ef FBF hefði áhuga á að kaupa eignarhluta sveitarfélagsins í skemmunni þá mundi sveitarstjórinn gera tillögu að kaupsamningi að vissum [óljósum] skilyrðum uppfylltum. Ekki er heldur vitað hvaða verðhugmyndir liggja undir. Við höfum sent boltann til baka og kannski verður samtal úr því. Hver veit? En sá galli er á gjöf Njarðar að sveitarstjórnin hefur fengið skemmuna dæmda ónýta til niðurrifs. Eins og áður er fram komið þá kostar það 199 mkr. skv. útttekt Verkís að koma upp nýrri skemmu. FBF snarar ekki út slíkri upphæð si sona. Félagið verður jafnt á götunni í vor með allt sitt um ófyrirsjáanlegan tíma og ekkert í hendi um framtíð Brákareyjar.

Í nefndri yfirlýsingu sveitarstjórnarinnar segir að í kjölfar viðburða (þ.e. úttektar embættismanna sveitarfélagsins s.l. vetur og lokunar í Brákarey) hafi hafizt tvíþætt vinna. Svo segir orðrétt: „Viðamikil greiningarvinna fór fram innan stjórnsýslunnar til þess að athuga hvort gerðar hefðu verið úttektir á húsnæðinu áður og ef svo væri, hvers vegna þær hefðu ekki fengið áheyrn. Slökkviliðsstjóri hafði sent sveitarfélaginu erindi vegna húsnæðisins á árunum 2012-2015 en þær niðurstöður voru ekki lagðar fyrir byggðarráð. Um er að ræða mistök af hálfu sveitarfélagsins og skort á verklagsreglum og hefur verið brugðist við því með því að gera boðleiðir skýrari og tryggja að mál af þessu tagi fái viðeigandi málsmeðferð innan stjórnsýslunnar.“ Ha, bíðum nú við, eiga ekki öll mál að fá viðeigandi málsmeðferð innan stjórnsýslunnar? Og ekki er verið að spara sig. Hvorki meira né minna en „Viðamikil greiningarvinna o.s.frv.“. Lágt er lagzt af hálfu sveitarstjórnar sem ekki hefur hlotið tiltakanlega mikið hrós fyrir skilvirka stjórnsýslu eða viðeigandi málsmeðferð. Í þessu sambandi er rétt að nefna sem ekki hefur farið hátt til þessa, að þegar lokunin var tilkynnt í febrúarmánuði s.l. var leigjendum gefinn kostur á að bregðast við fyrir þann þá næstkomandi byggðarráðsfund. Það gerði stjórn FBF eins og flestir aðrir leigjendur. En af einhverri ástæðu var ákveðið að leggja ekki samþykkt og mótmæli stjórnar FBF fram á byggðarráðsfundinum. Þar af leiðandi var það skjal ekki heldur aðgengilegt almenningi með öðrum fylgigögnum fundargerðarinnar. Hvort það telzt viðeigandi málsmeðferð skal ósagt látið. Réttum mánuði síðar sendi sveitarstjóri hins vegar formanni FBF skriflegt svar.

Í fyrstu viku vetrar, rúmlega þremur og hálfum mánuði eftir að byggðarráð fól sveitarstjóra „að segja upp leigusamningum og/eða gera viðeigandi breytingar á þeim vegna húsnæðis í eigu Borgarbyggðar að Brákarbraut 25-27,“ hefur FBF borizt tilkynning um fyrirhugaða „riftun“ leigusamningsins. Þetta er nú dálítið sérstakt skjal en fyrirhuguð riftun er hrein lögleysa. Við henni verður brugðizt með viðeigandi hætti.

 

Jón G. Guðbjörnsson