ASÍ gjaldfellir og hafnar eigin fólki

Þráinn E Gíslason

Á dögunum tók til starfa starfshópur ríkisstjórnarinnar, sem ætlað er að sporna gegn og uppræta félagsleg undirboð á vinnumarkaði á Íslandi. Hópinn skipa fulltrúar víða að úr þjóðfélaginu m.a. fulltrúar eftirlitsaðila, sveitarfélaga, atvinnurekenda og ekki síst, fulltrúar launafólks. Hópurinn var skipaður í kjölfar frétta af slæmri framkomu við launafólk af erlendu bergi brotið, ekki síst hvað laun varðar. Átaks er löngu þörf í þessum efnum enda hafa á undanförnum árum borist fréttir af slíkum málum. Oftar en ekki hafa slík mál tengst fyrirtækjum í byggingariðnaði og ferðaþjónustu. Það er einnig mikil þörf á því að breyta hugsunarhætti gagnvart því ágæta fólki sem hingað hefur kosið að flytja erlendis frá, setjast að og hefja nýtt líf. Njóta alls hins besta sem íslenskt þjóðfélag hefur uppá að bjóða.

Dómur ASÍ

Samtök launafólks með ASÍ og BSRB í stafni, hafa á sama tíma stofnað íbúðafélag sem ætlað er að reisa og reka leiguíbúðir fyrir tekjulágt fólk. Félaginu var gefið nafnið Bjarg. Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur lengi verið of hátt og ræður þar mestu skortur og verðlagning sveitarfélaga á byggingalóðum og kröfur þær sem gerðar eru af eftirlitsstofnunum til íbúðahúsnæðis.

Það kom því eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar Bjarg ákvað að ráðast ekki gegn því sem veldur háum byggingakostnaði á Íslandi heldur flytja inn tilbúin einingahús sem framleidd eru í Lettlandi. Verða þau reist víða, m.a. á Akranesi. Í viðtali RÚV við Björn Traustason framkvæmdastjóra Bjargs kom fram að meðal annars væri ástæðan meiri framleiðni í byggingariðnaði í Lettlandi og með því væri hægt að reisa fullbúin hús á átta mánuðum. Hver segir að það sé ekki hægt hér á landi? Mér vitanlega hefur enginn verið spurður um þetta atriði. Þetta er þungur dómur samtaka verkalýðsins, m.a. yfir eigin fólki og sá dómur fær ekki staðist. Ég veit ekki til þess að forsvarsmenn Bjargs hafi rætt möguleika á byggingu húsa á Akranesi við nokkurt þeirra byggingafyrirtækja er starfa á Akranesi. Í það minnsta ekki við undirritaðan.

Þyngsti dómurinn

Þyngsti og alvarlegasti dómurinn sem forystumenn samtaka launafólks fella gegn eigin fólki er auðvitað um launakostnaðinn. Í umfjöllun og viðtali í Fréttablaðinu við Drífu Snædal nýkjörinn forseta ASÍ og stjórnarmann í Bjargi kemur fram að lágmarkslaun í Lettlandi séu aðeins um 60 þúsund krónur á mánuði og um 80 þúsund krónur að meðaltali á mánuði. Sumsé aðeins brot af launum hennar félagsmanna á Íslandi. Hvaða skilaboð er forseti ASÍ að senda með þessari ákvörðun? Eru laun í byggingariðnaði á Íslandi orðin alltof há? Lækka má byggingakostnað á Íslandi um tugi prósenta ef vinnulaunin eru aðeins um 340 krónur á klukkustund. Er lausnin að mati forystu launafólks sú að flytja inn vinnu á launatöxtum Eystrasaltsríkjanna? Það er framkvæmanlegt, en er það lausnin?

Mismunun þjóðerna

Smekklausari voru þó ummæli Björns Traustasonar hjá Bjargi í viðtalinu við RÚV þegar hann sagði að stærstur hluti iðnaðarmanna á Íslandi væri af erlendu bergi brotinn og því skipti ekki máli þó húsin yrðu smíðuð í Lettlandi. Hvaða skilaboð eru það til þeirra tugþúsunda nýbúa á Íslandi? Eru þeir óvelkomnir að mati samtaka launafólks? Hvaða skilaboð eru það til sveitarfélaganna og ríkisins, sem fá útsvar og tekjuskatt af þeim launþegum sem vinna hjá innlendum fyrirtækjum?

Á sama tíma og samtök launafólks gjaldfellir störf eigin félagsmanna með þessum hætti eru lagðar fram kröfur á hendur atvinnurekendum um einhverjar hæstu launahækkanir á síðari tímum. Hvernig eiga atvinnurekendur í byggingariðnaði að hækka laun starfsmanna sinna á sama tíma og samtök launafólks flytja hundruðir ef ekki þúsundir ársverka til láglaunalanda?

Því verður seint trúað að ríkisvaldið og ekki síst sveitarfélögin styðji við bakið á þessu gönuhlaupi og einum mestu félagslegu undirboðum síðari tíma í íslensku atvinnulífi.

Þráinn E Gíslason

Höfundur er húsasmíðameistari á Akranesi.

 

Fleiri aðsendar greinar