Arfleifð gullaldarliðsins

Gunnar Sigurðsson

 

Eftir að síðustu liðsmenn Íslandsmeistaraliðs ÍA frá 1951 hurfu á braut á dögunum er ekki úr vegi að velta fyrir sér hvaða áhrif þeir félagar höfðu á mannlíf á Akranesi og raunar mun víðar. Eins og flestir vita varð liðið það fyrsta utan höfuðborgarinnar sem hampaði þessum eftirsótta titli og margir slíkir titlar fylgdu í kjölfarið. Því voru þeir félagar með réttu nefndir gullaldarlið ÍA.

Árangur Ríkharðs og félaga lyfti Grettistaki í mannlífi á Skaganum. Ekkert félag hefur að mínu mati gert meira fyrir félagslíf og uppbyggingu íþróttamannvirkja en einmitt ÍA og síðar Knattspyrnufélag ÍA. Nægir þar að nefna uppbyggingu á Jaðarsbökkum um áratugaskeið og byggingu íþróttahússins á Vesturgötu. En Gullaldarlið ÍA markaði ekki aðeins djúp spor á Akranesi. Það sannaði fyrir íbúum landsbyggðarinnar að samstaða í smærri samfélögum getur skapað stóra sigra. Æ síðan á ÍA og Akranes stóran sess í hugum landsmanna.

Á þessum tímamótum er því ekki úr vegi að bæjarstjórn Akraness og Íþróttabandalag Akraness gangist fyrir málþingi um þau áhrif sem knattspyrnan á Akranesi og þá sérstaklega gullaldarlið ÍA hefur haft á Akranesi og þau miklu afrek sem Ríkharður Jónsson og kappar hans unnu í gegnum árin fyrir Akranes og þjóð sína.

Þessari hugmynd er hér með komið á framfæri með von um að hún verði að veruleika.

 

Með bestu kveðju,

Gunnar Sigurðsson.

Höfundur er fyrrum formaður Knattspyrnufélags ÍA og fyrrum forseti bæjarstjórnar Akraness.

Fleiri aðsendar greinar