Árásum linni

Stefán Skafti Steinólfsson

Góðir lesendur og landsmenn! Árásum á Grunnafjörð í Hvalfjarðarsveit verður að linna. Af og til og ekki síst í tengslum við alþingis- og sveitarstjórnarkosningar, spretta fram hugmyndir um veglagningu um Grunnafjörð. Byggðar á því að þvera fjörðinn og brúa mynni hans.  Ábatinn er talinn vera styttri vegalengdir og meira öryggi. Þessu er ég algjörlega ósammála.  Í fyrsta lagi er fjörðurinn Ramsarsvæði og nýtur þar af leiðandi sérstakrar verndar. Hann er einnig eina Ramsarsvæði landsins er liggur að sjó.

Ramsarsamningurinn er alþjóðasamningur um verndun votlendis, sérstaklega sem lífsvæði fyrir fugla. Hann er frá 1971 og er kenndur við borgina Ramsar í Íran. Markmið samningsins er að vernda votlendissvæði heimsins. Um 90 þjóðir eiga aðild að samþykktinni og í heiminum eru um 750 Ramsar svæði. Æ fleiri þjóðir gera sér grein fyrir mikilvægi votlendis og verndun þess. Ekki er víst að margir geri sér grein fyrir því að um 80% votlendis á Íslandi eru spillt á ýmsan hátt.

Í öðru lagi og í ljósi þess að stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar er ferðamennska og vaxandi grein þá væri það dæmalaust að skíta í bólið sitt með því að spilla Grunnafirði fyrir litla sem enga styttingu á vegi. Auk þess er framhjá honum tvíbreiður og góður vegur. Það er nú aðeins brýnni þörfin annarsstaðar. Ef ætti að huga að umferðaröryggi og styttingum væri nær að líta til vegar um Dragháls, ekki síst í ljósi tíðra lokana um veginn með Hafnarfjalli. Það myndi einnig nýtast vegtenginum um Kjósarskarð og uppsveitum Borgarfjarðar ekki síst. Oftar er krókurinn betri en keldan.  Ég skora á Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, þingmenn og sveitarstjórnarmenn að láta af daðri við veglagningu um Grunnafjörð, en beiti sér af alefli fyrir bættum vegi um Ferstikluháls, Svínadal og Geldingardraga.

Í þriðja lagi ber að geta þess að í veröldinni er gríðalega stór hópur fuglaskoðara og náttúruunnenda. Allir vita að náttúra Íslands, óspillt og hrein er aðdráttaraflið. Því er lag að styðja við ferðaþjónustu í þeim anda á svæði Grunnafjarðar, í dauðafæri frá alþjóðaflugvellinum. Vaxtarbroddurinn er í þessum ferðamönnum sem skilja meira eftir í héraði og segja fallega frá. Stórbæta má aðstöðu og aðgengi til fulgaskoðunar á svæðinu frá Blautósi að Grunnafirði. Svæði sem er einstakt í veröldinni.

Að lokum vill undirritaður geta þess að hann sendi umhverfisnefnd og sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar hvatningu árið 2017 að standa vörð um Grunnafjörð og stuðla að því að haldinn verði „Grunnafjarðardagurinn“ árlega.  Mjög vel var tekið í erindið. Því er von mín að árásum linni á Grunnafjörð og hann verði komandi kynslóðum aðgengilegur óspilltur.

Virðingarfyllst,

 

Stefán Skafti Steinólfsson, Akranesi.