Allt óbreytt?

Guðsteinn Einarsson

Þann 23. desember síðastliðinn felldi Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála niður og ógilti byggingarleyfi fyrir 59 herbergja hótel á Borgarbraut 59. Við niðurfellingu byggingarleyfis bar verktakanum að stöðva framkvæmdir, tafarlaust. Framkvæmdin nú er því í andstöðu við fyrirmæli skipulagslaga og mannvirkjalaga, sem gera afdráttarlausa kröfu til þess að mannvirki verði ekki reist nema á grundvelli byggingarleyfis.

Frá því að byggingarleyfið var fellt úr gildi hefur verið byggð því sem næst heil hæð ofan á hótelið sem er nokkuð meira en kalla má að tryggja bygginguna eða verja hana skemmdum. Vinna við framkvæmdir við hótelið að Borgarbraut 59 er því brot verktakans á landslögum. Hvorki byggingafulltrúi bæjarins, sveitarstjóri eða sveitarstjórn hafa heimild í lögum til þess að samþykkja þær framkvæmdir sem þar fara nú fram eða hafa farið fram frá því að byggingarleyfið var fellt úr gildi.

Með hliðsjón af því að nú hefur sveitarstjórnarmeirihlutinn í tvígang verið gerður afturreka með deiliskipulag og útgefið byggingarleyfi þá væri ekki úr vegi að meirihlutinn skoðaði stöðu sína, verklag og vinnubrögð við málið og um leið yrði gerð rækileg óháð úttekt á verkefninu, allt frá kaupum fyrri sveitarstjórnar á lóðunum til dagsins í dag.

Ástæðurnar fyrir vanda bæjarstjórnar er skortur á samráði við íbúa og fyrirtæki á svæðinu og yfirgangur yfir hagmuni annarra en þess sem úthlutað var lóðunum, án auglýsingar og án útboðs. Vandamálið mun ekki leysast með nýju aðal- og deiliskipulagi þar sem hagsmunir íbúa og fyrirtækja á svæðinu eru enn og aftur fyrir borð bornir.

Líklega gengju byggingarframkvæmdir nú hnökralaust fyrir sig ef forysta sveitarstjórnar hefði hlustað á athugasemdir íbúa og fyrirtækja, farið að lögum, viðhaft góða stjórnsýslu og vandaðan undirbúning við upphaflega afgreiðslu málsins.
Væri ekki rétt fyrir sveitarstjórn að hlusta nú eftir viðhorfum bæjarbúa sem gerðu athugasemdir við byggingarmagn, skipulag og skort á aðstöðu á Borgarbraut 57 og 59, ræða málin og lagfæra það sem betur má fara, leita sameiginlegra og ásættanlegra lausna áður en áfram er haldið?

 

Borgarnesi, 8. janúar 2017
Höf. er íbúi og skattgreiðandi í Borgarbyggð

Fleiri aðsendar greinar