Allir minnihlutahópar nema örvhentir

Axel Freyr Eiríksson

Loksins er það komið, Jólablað Skessuhornsins. Ég sjálfur kýs að lesa það eins og bók, í hollum, svo þykkt er það. Eflaust hafa ýmsar andvökunætur fylgt undirbúningnum og afraksturinn eftir því. Svo lesið og njótið. Mæli helst með heitu súkkulaði í bolla við fyrsta lestur (eða kaffi ef þú ert eins og ég kæri lesandi). Ég skrifa þennan pistil í miklum anda jólanna, læt Emperor – Anthems To The Welkin At Dusk, rúlla á Spotify og horfi á jólatréð niðri í stofu. En hvað um það, ég ræði um jólatréð á eftir. Endahnúturinn á þessu ári ætlar að verða stórskemmtilegur en það fer samt eftir því hvernig á hann er horft. Förum í sandkornin.

Klausturþingmenn sitja fast við sinn keip þrátt fyrir að hafa móðgað alla minnihlutahópa á Íslandi fyrir utan örvhenta, þeir segja; þetta var bara svart grín og Lilja og félagar ættu bara að róa sig. Það er fullt af öðrum þingmönnum sem tala svona OK.

Það sem vekur hjá mér mesta furðu er hvernig er hægt að tala illa um fólk í þrjá tíma í streit. Það er visst afrek út af fyrir sig. Þetta var enginn sprettur sem heyrðist á upptökunni heldur maraþon sem leysti upp pólitískan frama þessa fólks hægt og bítandi með hverju orði sem var sagt. Sendiherrakapall, skötuveisla og asnaeyru. Þó að málssókn beri sigur úr býtum fyrir sexmenningana fyrir tilstilli persónuverndarlaga (skilur einhver þessi nýju lög?) þá munu öll orð úr þeirra munni sem tengjast málefnum kvenna og fatlaðra hljóma hol og fölsk. Ég tek bara sem dæmi Gunnar Braga. Hann fór í forsvari fyrir Ísland á ráðstefnu sem var sett upp til þess að tækla einmitt svona orðræðu, átakið He for She sem var á vegum UN-Women og stóð sig nokkuð vel. Ég trúði honum meira að segja, kannski var bensíntitturinn allt í lagi gaur hugsaði ég. En ég ætla rétt að vona að þessi viðburður verði vakning á ákveðinni siðbót, ef svo má kalla, meðal þessara sóðakjafta sem Sigmundur minnist á.

En það er einn hlutur sem fær að standast tímans tönn þrátt fyrir að hlutir leysist upp hjá öðrum. Davíð Oddsson heldur áfram að skrifa sín stórbrotnu Reykjavíkurbréf. Mér er spurn: Les enginn þau yfir eða fá þau að fljóta óbreytt með í prentsmiðjuna? Fær kannski enginn að lesa þau yfir og ritstjórinn mylur andstæðinga sína niður í duft mánaðarlega? Þetta eru allt spurningar sem vakna með mér þegar ég fæ loksins tækifæri til að lesa þau því ég er ekki áskrifandi að Mogganum.

En aftur að jólatrénu. Ég bíð eftir því að það verði skreytt, hlakka til. Það er nefnilega stórskemmtilegt hvernig jólatré eru skreytt. Sum tré fá sinn einfalda skammt af rauðum jólakúlum og glimmerhúðaðari stjörnu á meðan önnur tré fá minningar hengdar á sig: Einhverja kúluna fékk barnabarnið frá ömmu sinni að gjöf, hin kúlan var valin sérstaklega, jólatindátinn sem fylgdi jólapakka fær að fljóta með o.s.fv. Tími jólanna er nefnilega ekki endilega tími gjafa og matar heldur minninga líka. Við setjumst við tréð og virðum dýrðina fyrir okkur og dveljum stundarkorn í fortíðinni og hugsum um það sem hefur gerst. Allt á sér tilgang og fallega sögu. Eins og helgileikurinn, sem er settur upp á hverju ári, fær fólk tækifæri til að setja upp sinn eigin helgileik heima fyrir, nema leikendurnir heima fyrir eldast með hverju árinu sem líður með einstaka viðbót í formi nýfæddra fjölskyldumeðlima.

Gleðileg jól og farsælt komandi ár!

Axel Freyr Eiríksson

Fleiri aðsendar greinar