Aldrei fór ég norður

Hafdís Gunnarsdóttir

Hugtakið út á landi gætur bæði verið ógurlega krúttlegt í huga fólks en jafnframt eins og versta klúryrði. Þegar fólk talar um að fara í sæta sumarhúsið sitt út á landi, fallega einbýlishúsið sem staðsett er á besta stað í miðbæ Patreksfjarðar þá er hugtakið ógurlega krúttlegt. En þegar umræðuefni snýst um að hafa stofnun eða þjónustu á vegum ríkisins staðsetta út á landi verða margir eins og andsettnir og hreinlega tjúllast.

Gott dæmi er lögreglunámið sem loksins er komið á háskólastig, sem valdið hefur talsverðu fjaðrafoki. Höfum eitt á hreinu áður en við höldum lengra. Það er ekki verið að færa námið frá höfuðborgarsvæðinu og út á land, því námið er nýtt af nálinni. Lögregluskólinn hefur verið lagður niður og ákveðið var að nýja háskólanámið yrði kennt í Háskólanum á Akureyri. Auðvitað hefði það verið mikil búbót fyrir NV-kjördæmi að fá námið kennt í Háskólanum  Bifröst, en það er mikið fagnaðarefni að námið verði kennt á Akureyri. Út á landi! Það sýnir að enn eru til stjórnmálamenn með einhverja byggðahugsjón. Háskólinn á Akureyri kennir háskólanám m.a. í fjarnámi og get ég vottað að það gerir skólinn með sóma. Háskóli Íslands gæti lært ýmislegt af bæði Háskólanum á Akureyri og háskólanum á Bifröst, þegar kemur að fjarnámi en það er efni í aðra grein.

Það fögnuðu samt ekki allir þessari ákvörðun menntamálaráðherra. Ó nei, svo aldeilis ekki. Ein af þeim var þingmaðurinn Valgerður Bjarnadóttir sem vildi fá námið kennt í Háskóla Íslands. Af því að mesta þörfin fyrir lögreglumenn er á suðvesturhorninu og þar byggju flestir sem vildu fara í námið. Hún spáði því að það kæmi aðeins ein umsókn til Háskólans á Akureyri um nám í lögreglufræðum. Hér er hins vegar staðan eins og hún er í dag: Rúmlega áttatíu manns hafa sótt um námið. Þó það sé kennt út á landi! Ekki nóg með það heldur er vissulega þörf fyrir lögreglumenn út á landi líka. Af hverju talar fólk með þessu hætti sem Valgerður gerir? Er ekki rétt að gera kröfur til hennar sem alþingismanns um að sjá heildarmyndina? Stundum hef ég það á tilfinningunni að byggðaþróun sé bara eitt af þessum krúttlegu orðum sem notuð eru við hátíðleg tilefni, en svo er engin meining á bak við það. Málið snýst um að halda landinu í byggð eða einblína á suðvesturhornið.

Ef ekki er hægt að staðsetja nýtt háskólanám á landsbyggðinni þá getum við aldrei staðsett neitt frá ríkinu út á landi. Og ef það er virkilega stefnan þá vil ég frekar að fólk sé heiðarlegt og segi það. Þá getum við alveg eins lokað Reykjavíkurflugvelli. Vá, þá yrðu nú sumir ánægðir. Þessari anti-byggðarhugsjón fólks þarf að breyta. Það er heldur engin lausn á byggðavandanum að dreifa byggðakvóta, eins og oft er lagt til. Við þurfum störf við hæfi svo menntað fólk sjái hag sinn í að snúa aftur heim.

Í dag er að byggjast upp öflug atvinnugrein á Vestfjörðum, laxeldið, sem mun hafa mikil áhrif á byggðaþróun á svæðinu. Mikil tækifæri munu skapast, ekki bara við eldið og vinnslu á laxi, heldur alls kyns tengdar atvinnugreinar og þjónustu við starfsemina. Mikilvægt er í fjórðungunum að sú þjónusta byggist upp í nálægð við starfsemina, enda mikið af eftirsóknarverðum störfum sem hún kallar á. Eitt öflugasta eldisfyrirtækið, Arnarlax, hefur t.d. sett sér starfsmannastefnu um að allir starfsmenn séu búsettir á væðinu og greiði skatta og skyldur til nærsamfélagsins. Þetta er grundvallaratriði en ef til vill er Valgerður sannfærð um að betra sé að staðsetja stjórnunarstörf á suðvesturhorninu, og flókin eftirlitsiðnaður hins opinbera séu einmitt staðsettir þar?

En þetta eru ekki náttúrulögmál og til að þessi uppbygging hafi jákvæð áhrif á byggðaþróun Vestfjarða, sem hefur átt undir högg að sækja undanfarna áratugi, þurfa stjórnunarstörf að leggjast til á svæðinu. Hið opinbera á síðan að byggja upp stuðningsgreinar og eftirlit og gefa þannig ungu fólki sem hefur lokið við háskólanám að sækja framtíðarstarf á heimaslóðum.

 

 

Hafdís Gunnarsdóttir

Höfundur sækist eftir 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í NV-kjördæmi